Mér áskotnaðist á dögunum ein merkilegasta og jafnframt ein súrrealískasta barnabók sem ég hef á ævi minni lesið – Í næturgarði Iggul Piggul: Allir um borð í Ninký Nonk. Bókin var gefin út af Forlaginu árið 2008 og byggir á sjónvarpsþáttunum In The Night Garden sem framleiddir voru af BBC. Sagan er eftir Andrew Davenport sem er höfundur Stubbana sem hafa pirrað, fríkað út foreldra og heillað smábörn síðan á tíunda áratugnum.
Ég vissi hreinlega ekki hvað ég átti að halda þegar ég las bókina með eins árs dóttur minni sem sat stjörf og heilluð og starði á myndirnar sem aðeins manneskja á alvarlegu sýrutrippi hefði getað skapað (partý hjá Davenport?).
Eftir að hafa lesið bókina um það bil sjö sinnum í röð komst ég að því að bókin er í rauninni algjör snilld og mjög svo örvandi fyrir smábörn þrátt fyrir að verurnar ættu aðeins heima í martraðaveröld að mínu mati. Dóttur minni fannst þetta hins vegar mjög heillandi; brosti, benti og hossaði sér.
Söguþráður bókarinnar er hins vegar út í hött, á góðan hátt ef það er mögulega hægt. Í bókinni segir frá hinum ýmsu verum sem kallast Tomblíbúar, Iggul Piggul, Makka Pakka og Opsý Deisí sem búa í næturgarðinum, sem er einskonar draumaland sem börn ferðast inn í þegar þau sofna. Verurnar fara í ferð með farartækinu Ninký Nonk sem minnir á dótalest sem gæti allt eins verið teiknuð af Salvador Dalí.
Lestin „hossast“ á milli staða og stoppar svo fyrir nýjum farþegum áður en hún heldur áfram að hossast og já, hossast enn frekar. Skemmtileg og hljóðörvandi orð leika stórt hlutverk í frásögnni sem gerir það að verkum að börnin hrífast fljótlega.
Ég veit hvað þú ert að hugsa núna og ég skal svara þér strax: Nei, lesandi góður. Þetta er ekki grínfærsla. Hún er mjög svo raunveruleg og já ég er í alvörunni að skrifa rýni um harðspjaldabók ætlaða fyrir smábörn. Lestrarklefinn lætur sig sko allar bókmenntir varða; líka þær sem eru bara… sjö flettur. En sem hálfpartinn nýbakað foreldri sem er enn að læra á harðspjaldabækurnar þá verð ég bara að segja að þessi hlýtur að teljast mín uppáhalds til þessa þrátt fyrir að hún „fríki“ mig dálítið út á sama tíma.
Niðurstaðan er því sú að þó að mér hafi brugðið í fyrstu og þótt þetta sé hvað mig varðar allt saman fremur óhuggulegt þá fannst dóttur minni þetta skemmtilegt. Þannig lærði ég smám saman að meta söguna fyrir það sem hún er (þrátt fyrir að ég myndi aldrei mæla með henni sem yndislestri eða fyrir svefninn hjá þeim sem eru myrkfælnir) en hún virkar vel á ung börn og það skiptir mestu máli. Myndirnar eru líka litríkar, textinn nokkuð hress og verurnar frumlegar.