Áramótin marka tímamót sem eru mörgum innblástur fyrir eins konar kaflaskil í lífinu. Nýtt upphaf kallar á nýjar áskoranir á ýmsum sviðum og margir setja sér markmið, t.d. á sviði líkamlegrar og andlegrar heilsu. Sumir setja sér markmið um að læra eitthvað nýtt á meðan aðrir ákveða kannski bara að gera meira af því sem þeir kunna nú þegar og hafa yndi af.
Ein leið til að setja sér markmið á nýju ári er að taka þátt í lestraráskorun. Lestur er frábær leið til að draga úr skjátíma, en lestur er einnig streitulosandi og rannsóknir hafa meira að segja sýnt fram á að lestur eykur samkennd. Lestraráskoranir ganga út á að setja sér markmið um ákveðinn fjölda bóka út frá fyrirfram ákveðnum viðmiðum. Þátttakendur geta farið á þeim hraða sem þeir kjósa sjálfir og hafa mikið um efnistökin að segja.
Lestrarklefinn tók saman nokkrar skemmtilegar hugmyndir að lestraráskorunum:
- Ferðastu um heiminn! Þú getur til dæmis útfært það með því að lesa eina bók fyrir hverja heimsálfu, eða með því að lesa bækur sem tengjast borgum, löndum eða landshlutum sem þú hefur komið til eða langar að heimsækja.
- Fáðu bókatillögur frá vinum og vandamönnum. Fáðu nokkra góða vini til að nefna nokkrar af uppáhalds bókunum sínum og veldu eina sem þú hefur ekki lesið frá hverjum aðila.
- Gerðu myndarlega dæld í staflann á náttborðinu þínu. Búðu til lista yfir bækurnar sem þú ert búin/n að ætla að lesa lengi, settu þér markmið og njóttu þess að geta teygt þig í vekjaraklukkuna á morgnana án þess að fá bók í hausinn.
- BINGÓ! Skoraðu á vini þína í bókabingó. Búið til bingóspjald með tillögum að bókum (t. d. eftir tegund eða höfundum) og sjáið hver er fyrstur að fá bingó.
- Hljóðbókaáskorun. Ef þú ert ein/n af þeim sem veltir fyrir þér hvar þú eigir að finna tíma í sólarhringnum til að lesa, þá gæti hljóðbókaáskorun verið eitthvað fyrir þig. Hlustaðu í bílnum, í göngutúr úti í náttúrunni, meðan þú vinnur húsverkin eða fyrir svefninn. Úrvalið af hljóðbókum er alltaf að aukast og góð bók verður bara betri þegar hún er lesin fyrir mann ómþýðri röddu.
- Bókasöfnin eru með puttann á púlsinum. Bókasafn Garðabæjar er með þessa stórskemmtilegu lestrarárskorun á fésbókarsíðu sinni og Bókasafn Hafnarfjarðar býður upp á tvær áskoranir, eina fyrir fullorðna og eina fyrir börn.
- 52 bækur á 52 vikum. Þeir hörðustu geta reynt við 52 bækur á 52 vikum. Hérna er ein skemmtileg áskorun þar sem fyrirmælin eru á ensku, en það er auðveldlega hægt að aðlaga að íslenskum aðstæðum.
Á allra næstu dögum ætlar Lestrarklefinn að birta skemmtilega lestraráskorun, en í hverjum mánuði ársins 2019 ætlum við að taka fyrir eitt þema. Við munum birta færslur sem tengjast þemanu og hvetjum lesendur til að taka þátt í áskoruninni með okkur með því að lesa bækur sem tengjast þemanu. Eins konar bókaklúbbur, þar sem enginn er að lesa sömu bókina. Við hvetjum ykkur einnig til að birta myndir á instagram og tagga okkur svo við vitum hvaða bækur urðu fyrir valinu hjá ykkur. Við erum ótrúlega spenntar að hefjast handa og vitum að 2019 verður frábært bókaár.