Janúar er mánuður fagra fyrirheita. Jólin nýafstaðin með tilheyrandi veisluhöldum og nagandi samviskubiti fyrir suma. Samviskubitið gæti tengst ofáti á óhollustu og stækkandi mittismáli. Við fyllumst eldmóði við að horfa á íslenska karlalandsliðið í handbolta spila hvern leikinn á fætur öðrum á meðan við berjumst við að stíga upp úr sófanum eftir kvöldfréttir. Við heitum því að þetta verði árið. Árið sem við mætum vikulega í ræktina, förum á gönguskíði, hjólum, syndum, æfum kuldaþolið – Wim Hof, var það ekki einhver náungi sem allir eru að tala um?
Hjá öðrum gæti jólasamviskubitið tengst óhóflegri peningaeyðslu sem þeir súpa nú seyðið af. Ætlunin var ekki endilega sú að eyða svona miklu. Það er bara allt svo djöfulli dýrt! Vesenið með jólin er nefnilega að þau virðast koma aftur og aftur. Á hverju ári, svei mér þá. Þessi fyrirsjáanleiki færir okkur í það minnsta vopn til að gera áætlun fyrir blessuð jólin. Fjármálin eru líklega mörgum ofarlega í huga eftir neyslubrjálæði desembermánaðar og mörg okkar vilja gera betur. Eitthvað á þá leið að eyða minna og þéna meira. Þá eru góð ráð dýr.
Yndi fyrir augað
Viltu finna milljón? kom út núna fyrir jólin og höfundar hennar eru þau Hrefna Björk Sverrisdóttir og Grétar Halldórsson. Þau lýsa bókinni sem ,,vopn í baráttunni fyrir fjárhagslegu frelsi” en í henni er farið um víðan völl á sviði persónulegra fjármála.
Mynd fengin af viltufinnamilljon.is
Bókinni er skipt upp í sex hluta og hver þeirra fjallar um afmarkað svið eins og tekjur, skuldir, fjárfestingar o.s.frv. Veigamesti hlutinn er þó sparnaðarhlutinn en þar hafa höfundar tekið saman sparnaðarráð sem snerta flest það sem við tökum okkur fyrir hendur. Sem sýnir vel að fjármál snerta flest svið lífsins. Aftast í bókinni er síðan að finna markmiðablöð og fjármálaorðabók. Efni bókarinnar er reglulega brotið upp með stuttum viðtölum við fagfólk á ýmsum sviðum sem gefa fjárhagsleg ráð út frá sínu fagsviði, t.d. gefur kokkurinn Hrefna Rós Sætran góð ráð til að minnka matarsóun.
Í bókinni er að finna fjársjóð af fróðleik ekki einungis um fjármál heldur líka aðra praktíska hluti eins og orðabók um tryggingar og framkvæmdir á fasteignum utanhúss svo eitthvað sé nefnt. Annar hluti bókarinnar sem nefnist ,,Að finna peninga“ höfðaði best til mín en þar er að finna stutta og hnitmiðaða áætlun til að ná settum markmiðum.
Framsetning upplýsinga skiptir máli og bókin er yndi fyrir augað. Vandað hefur verið til verka við hönnun og umbrot og það er lofsvert. Kápan er í sérstöku uppáhaldi hjá mér. Þetta er mesta no-nonsense kápa sem ég hef séð og ég elska það. Hvít og með titli í svörtum stöfum. Hún minnir mig svolítið á vefsíðu Berkshire Hathaway sem er eignarhaldsfélag á vegum fjárfestisins Warren Buffet, eins ríkasta manns heims, sem virðist hafa haldist óbreytt frá árinu 1978.
Hagnýtur leiðarvísir einstaklinga, ekki samfélagsgagnrýni
Viltu finna milljón? er handbók og uppflettirit um persónuleg fjármál og eðli málsins samkvæmt er ekki farið á dýptina, nema þá helst í hlutanum um sparnaðarráðin. Ég hefði viljað sjá tilvísanir í aðrar heimildir t.d. í lok hvers hluta til að geta lesið mér betur til um tiltekin viðfangsefni. Hvað varðar lífeyrissjóðsmál koma mér til hugar Lífið-bækurnar eftir Gunnar Baldvinsson og Fjárfestingar eftir Fortuna Invest konur. Auðvitað eru til margar fleiri bækur og hér vil ég sérstaklega minnast á pistil Önnu Margrétar hér á Lestrarklefanum um bækur um fjármál. Ásamt uppáhalds bók minni um persónuleg fjármál: The Psychology of Money eftir Morgan Housel. Í þeirri bók, og einnig í Viltu finna milljón? er talað um árangur í persónulegum fjármálum sem afleiðingu af hegðun. Það er ekki nóg að vita heldur líka að framkvæma. En það á við um svo margt. Við vitum alveg að við ættum að borða hollar. En okkur langar það ekki. Lykillinn er að átta sig á að við erum mannlegar tilfinningaverur. Fjármál, eins og mataræði, stjórnast af svo miklu fleiri þáttum en þeim staðreyndum sem við kunnum.
Viltu finna milljón? er hagnýt bók sem væri tilvalin gjöf fyrir ungmenni sem eru að hefja sína vegferð í heimi fullorðinna. En eins og vaxtavextir sanna þá er betra að byrja fyrr en seinna og það á líka við um fjármálauppeldi. Höfundar nefna að nú til dags nota margir símana eða úrin til að greiða fyrir vörur og þjónustu sem gerir það að verkum að börn hafa minni tilfinningu fyrir peningum. Þau hvorki sjá þá berum augum né snerta. Það er því áskorun fyrir okkur foreldra í tæknivæddum heimi að ala upp skynsama neytendur. Í þessu samhengi má nefna kaflann um rafmyntir sem var áhugaverður, sérstaklega fyrir mig sem algjöran byrjanda í þeim efnum en ég hefði gjarnan viljað sjá betur unnið úr honum.
Bókinni er ætlað að vera leiðarvísir einstaklinga um fjárhagslegan veruleikann eins og hann er en ekki að gagnrýna hann eða reyna að breyta honum. Þó að fjármálahegðun (nýyrði?) okkar skipti sköpum þá erum við þátttakendur í samfélagi sem er byggt upp á ákveðinn hátt. Ég hef áður skrifað um bókina Why Women are Poorer Than Men en sú bók inniheldur beitta samfélagsgagnrýni um fjármál út frá kynjasjónarmiðum.
Viltu finna milljón? er fyrirtaks viðbót við flóru íslenskra bóka um persónuleg fjármál. Ég fagna öllum slíkum viðbótum því erlendar bækur fleyta manni bara ákveðið langt. Hér á landi þurfum við vandað efni á íslensku um íslenskan veruleika ef okkur á að takast að ná markmiðum um aukið fjármálalæsi landans.