Það er óneitanlega hætt við að einhverjir velji frekar að horfa á málningu þorna, eða ganga í það annars þarfa verk að þrífa lyklaborðið sitt, heldur en að lesa pistil um fjármálabækur. Mörgum þykir einfaldlega nóg að þurfa að glíma við peninga í daglegu lífi, þótt dýrmætum frítíma sé ekki líka varið í að lesa um þá. Hugtakið fjármál vekur þar að auki gjarnan hugrenningartengsl við útrásarvíkinga og hrunið, a.m.k. meðal Íslendinga, og persónuleg fjármál eru oft tabú viðfangsefni.

En ef ég ætti að velja eitthvað eitt til að koma til skila með þessum pistli, þá væri það líklega það að fjármál eru ekki bara fyrir fólkið sem er búið að læra að „kaupa lágt og selja hátt“ áður en það lærir stafrófið. Þvert á móti varða fjármál okkur öll í okkar daglega lífi. Einfaldar ákvarðanir á borð við val á fararskjóta út í daginn, eða hvað eigi að vera í kvöldmatinn, eru í grunninn fjárhagslegs eðlis. Sumar af stærstu ákvörðunum lífs okkar snúast þar að auki um fjármál, eins og til dæmis val á búsetu, val um menntun og val á starfsvettvangi, og það er í raun stórmerkilegt hversu litla formlega leiðsögn við hljótum áður en okkur er treyst fyrir þessum „fullorðins“ ákvörðunum.

Eins og fram kemur í bók Gunnars Baldvinssonar, Farsæl skref í fjármálum, mælist fjármálalæsi einungis að meðaltali 52% í Evrópu samkvæmt rannsókn frá 2014 á vegum fyrirtækisins Standard & Poor‘s. Kemur þar jafnframt fram að fjármálalæsi er „mismunandi eftir efnahag og félagslegum aðstæðum fólks“ og að „almennt er talið að neytendur sem þekkja ekki grundvallaratriði í fjármálum eyði meira í viðskiptakostnað og þóknanir, taki meira af lánum og greiði hærri vexti en þeir sem hafa meiri þekkingu.“ Það er því bókstaflegur fjárhagslegur ávinningur af því að bæta þekkingu sína í þessum málaflokki.

Lestrarklefinn hefur það að leiðarljósi að fjalla um bækur sem fer gjarnan lítið fyrir á öðrum miðlum og þykir þar að auki verðugt að taka þátt í að vekja áhuga fólks á mikilvægi fjármálalæsis og –þekkingar. Ég ákvað því að dýfa tánni í hinn flókna heim fjármálanna og taka saman lista yfir nokkrar bækur sem fjalla um fjármál á aðgengilegan, skýran og/eða skemmtilegan hátt.

Farsæl skref í fjármálum og Fyrstu skref í fjármálum – Gunnar Baldvinsson

Bækurnar hafa svipaða uppbyggingu, en eru ætlaðar fyrir ólíkan markhóp. Farsæl skref í fjármálum er ætluð fullorðnum, og fjallar um flóknari hugtök og formúlur, á meðan Fyrstu skref í fjármálum er námsefni fyrir nemendur á unglingastigi. Báðum bókunum er ætlað að stuðla að bættu fjármálalæsi fólks á Íslandi. Bækurnar eru báðar mjög skýrar, hnitmiðaðar og aðgengilegar. Þær bera þess þó merki að vera skrifaðar sem námsefni og ætlað að fræða, en það var að mínu mati sérstaklega áþreifanlegt í Fyrstu skref í fjármálum, þar sem sums staðar hefði verið hægt að setja upplýsingarnar í samhengi sem nemendur á unglingastigi tengja meira við. Ég get þó hiklaust mælt með bókunum, bæði fyrir þá sem eru á byrjunarreit þegar kemur að því að afla sér þekkingar um fjármál, sem og þeim sem hafa grunnþekkingu en vilja auka við sig.

Ég vil sérstaklega hafa orð á orðskýringakaflanum í viðauka bókarinnar Farsæl skref í fjármálum, en þar má finna gagnlega upptalningu á helstu hugtökum í stafrófsröð, ásamt enskum þýðingum og hnitmiðuðum orðskýringum.

Fjárfestingar – Fortuna Invest

Þessi bók var búin að vera lengi á lista hjá mér og er að mínu mati tilvalin til að grípa í í kjölfarið á öðrum bókum sem fjalla með almennari hætti um persónuleg fjármál, enda eru fjárfestingar kannski ekki fyrsta skrefið hjá fólki sem er að byrja að skoða fjármálin sín í nýju ljósi.

Fjárfestingar er mjög auðlesin og veitir gott yfirlit yfir ýmis hugtök. Myndræn framsetning bókarinnar er að mínu mati einn af hennar stærstu kostum, en það gerir hana afar aðgengilega. Hún inniheldur góðar skref-fyrir-skref leiðbeiningar, en hafa skal í huga að ráðleggingarnar eru mjög almenns eðlis. Ég myndi segja að bókin gagnist helst þeim sem eru að stíga sín fyrstu skref í átt að stórum ákvörðunum á sviði fjármála, eins og t.d. þeim sem eru að kaupa sína fyrstu íbúð.

Eikonomiks – Eiríkur Ásþór Ragnarsson

Ég hef áður dásamað bókina Eikonomiks í sérstökum pistli og hef svo sem ekki miklu við umfjöllun mína þar að bæta, en helsti styrkleiki bókarinnar er að mínu mati hvernig hugtökum er lýst með því að setja þau í samhengi við daglegt líf. Það gerir upplýsingarnar bæði aðgengilegar og skemmtilegar. Þótt bókin fjalli um fjármál í örlítið víðara samhengi en bara hinu persónulega, gerir nálgun bókarinnar það að verkum að hún dansar eiginlega alveg á mörkunum, og mér þykir því rétt að hafa hana með á þessum lista. Auk þess er yfirlýst markmið bókarinnar meðal annars að efla fólk til þess að veita sérfræðingum aðhald með auknum skilningi á því um hvað hagfræði snýst og það rímar vel við markmið þessa pistils um að vekja athygli á mikilvægi fjármálalæsis.

Hvað kosta ég? – Fjármálaskólinn

Á vefsíðu Fjármálaskólans stendur að bókin sé ætluð til fjármálafræðslu í grunn- og framhaldsskólum. Ég myndi segja að bókin eigi meira erindi við allra yngstu neytendurna og sé full einföld fyrir eldri nemendur, en hún er í öllu falli uppfull af fróðleik á mannamáli. Sum dæmin þóttu mér óraunhæf miðað við þann markhóp sem ég taldi bókina eiga mest erindi við, eins og þar sem talað er um laun og tekjur, en það eru þá væntanlega kaflar sem eru ætlaðir eldri lesendum. Bókin er hins vegar frábær upphafspunktur fyrir foreldra til að ræða fjármál við börnin sín og inniheldur raunhæf verkefni sem hægt er að leysa í sameiningu.

Ég vil sérstaklega nefna kaflann um raunvexti, sem var að mínu mati mjög skýr og aðgengilegur og myndræn framsetning hjálpaði til við að auka skilning á viðfangsefninu. Að tengja verðbólgu strax við umræðu um vexti var nálgun sem ég saknaði í öðrum bókum.

Your money or your life – Vicki Robin og Joe Dominguez

Ég hafði mjög hóflegar væntingar til bókarinnar Your Money or Your Life, aðallega af því að ég byrjaði á að verða mér út um útgáfu frá því herrans ári 1991. Ég rambaði síðan á talsvert nýrri útgáfu af bókinni á Bóksafni Mosfellsbæjar, og mæli frekar með henni. Annað sem stjórnaði væntingum mínum til bókarinnar var það að hún er ætluð sem hálfgerð sjálfshjálparbók með skrefum sem lesandanum er ætlað að fylgja, en ég var meira að lesa mér til fróðleiks. Bókin kom mér hins vegar skemmtilega á óvart, því markmiðið með henni fyrst og fremst að fá fólk til verða meðvitaðra um samband sitt við peninga. Það er því í raun ýmislegt í bókinni sem allir geta tileinkað sér við lesturinn, án þess að fara í einhverjar kúnstir með heimilisbókhaldið.

Á köflum fjallar bókin um fjármál á allt að því heimspekilegum nótum, sem ég hafði mjög gaman af, en hún er líka full af praktískum ráðum og æfingum fyrir þá sem hafa áhuga á því. Það sem hreyfði mest við mér við lestur bókarinnar voru vangaveltur um tilhneigingu okkar til að skilgreina okkur út frá starfinu okkar og mikilvægi þess að skilja á milli þess sem maður er og þess sem maður starfar við. Þegar maður nær að skilja þar á milli hefur það áhrif á sjálfsmyndina og getur einnig haft áhrif á samband okkar við peninga, þ.e.a.s. hvaða tilgangi þeir þjóna, og þar með hjálpað okkur að ákveða hvernig við viljum verja bæði tíma okkar og fjármunum.

You need a budget – Jesse Mecham

Ég var búin að sjá mikið um You Need a Budget (YNAB) inni á fjármálahópum á Facebook og var forvitin um bókina. YNAB vísar í kerfi sem hjálpar notendum að ná tökum á fjármálum sínum. Grunnhugmyndin gengur út á að láta peningana eldast – þ.e.a.s. að búa smám saman til svigrúm á milli þess að peningar komi inn og fari út. Stærð svigrúmsins ræðst af persónulegum þörfum og markmiðum, en markmiðið er að peningarnir séu að minnsta kosti 30 daga gamlir. Í bókinni er farið nánar út í hugmyndafræðina að baki kerfinu og hentar hún því bæði fyrir þá sem langar að demba sér út í YNAB-laugina, sem og þá sem vilja bara sækja sér meiri almennan fróðleik um fjármál.

Í YNAB bókinni er höfundurinn m.a. gagnrýninn á prósentunálgun, sem segir að maður eigi að verja ákveðnum hluta af tekjum sínum í fastan kostnað, ákveðnum hluta í skemmtun og ákveðnum í sparnað. Höfundurinn færir rök fyrir því m.a. á forsendum þess að aðstæður fólks eru mismunandi og markmið fólks sömuleiðis. Sjálf er ég hrifin af einstaklingsmiðaðri nálgun á persónuleg fjármál og verð að segja að hugmyndafræðin í þessari bók samræmdist mínum áherslum mjög vel.

Tveir kaflar í bókinni vöktu sérstakan áhuga minn, en það var annars vegar kaflinn um að sameina fjármál og fjárhagsleg markmið þegar stofnað er til sambands við annan einstakling, og hins vegar kaflinn um börn og fjármál.

Ef þig þyrstir í meira

Ef ofangreind upptalning hefur vakið áhuga þinn er hér listi yfir nokkrar bækur til viðbótar sem rötuðu ekki í umfjöllunina að þessu sinni, en eiga erindi þangað:

  • Broke Millenial, eftir Erin Lowry

  • Clever Girl Finance, eftir Bola Sokunbi

  • Lífið er framundan, eftir Gunnar Baldvinsson

  • Lífið er rétt að byrja, eftir Gunnar Baldvinsson

  • Peningar, eftir Björn Berg Gunnarsson

  • Rich Dad Poor Dad, eftir Robert Kiyosaki og Sharon Lechter

Aðrar aðgengilegar leiðir til að fræðast um fjármál:

  • Facebook-hópar (FIRE á Íslandi, Fjármálatips og Sparnaðar tips)

  • Hlaðvörp (Fjármálakastið, Leitin að peningum og Peningakastið)

  • Vefsíður (fjarmalavit.is, skuldlaus.is og youneedabudget.com)

  • Instagram (fortunainvest_, youneedabudget og #budget)

Lestu þetta næst

Í heimi Juliu Quinn

Í heimi Juliu Quinn

  Nú þegar þriðja serían af Bridgerton fer bráðum í loftið er kannski kominn tími til að ég...

Er þetta gaman?

Er þetta gaman?

Er þetta gaman?  Félagsskapur með sjálfum mér í Tjarnarbíó Á sviðinu er legubekkur, örfáar bækur,...