GestirUtanUrGEimnum72B-600x926Bækurnar um bernskubrek Ævars vísindamanns, sem eru skrifaðar af Ævari Þóri Benediktssyni, eru orðnar þrjár. Gestir utan úr geimnum er þriðja bókin í þeim bókaflokki en jafnframt sú fyrsta sem er lesin hér á bæ. Því skal þó bætt við að ég hef beðið þess með óþreyju að lestrar- og bókaáhugi afkvæmanna kæmist á þann stað að hægt væri að lesa með þeim um bernskubrek Ævars vísindamanns.

Í Gestir utan úr geimnum hverfur angórukötturinn Einstein, tryggur félagi, samráðsköttur og gæludýr Ævars vísindamanns. Ævar kemst fljótt á snoðir um það að hann er ekki sá eini sem hefur tapað gæludýrinu sínu heldur hafa öll gæludýr á höfuðborgarsvæðinu horfið eins og dögg fyrir sólu. Inn í söguna blandast svo Perlan, undarlegt geimrusl, svartklætt fólk og hugsanlega stórhættulegar geimverur. En án þess að segja of mikið, þá skapast stórskemmtilegur og gríðarspennandi söguþráður.

Við mæðginin vorum sammála um að bókin væri stórskemmtileg. Á stundum áttum við erfitt með að lesa áfram af því við hlógum svo mikið. Stundum áttum við erfitt með að hætta að lesa, þrátt fyrir að háttatími væri löngu kominn, af því það sem var að gerast í bókinni var bara of spennandi. Það hjálpaði ekki heldur að hver einasti kafli endar á einhverju dularfullu, spennandi eða sprenghlægilegu. Á meðan við vorum að lesa bókina var alltaf auðvelt að fara upp í rúm, svo hægt væri að halda áfram með bókina.

Bókin er skrifuð samfara lestrarátaki Ævars vísindamanns þar sem krakkar í 1. – 7. bekk keppast við að lesa bækur. Nöfn barnanna enduðu í potti sem Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands, dró svo úr. Þau börn urðu sögupersónur í bókinni. Einnig er bókin prentuð með sérstöku lesblinduletri. Letrið auðveldar þeim sem eru með lesblindu að lesa bókina.

Ég mæli hiklaust með bókinni fyrir unga lestrarhesta og hvet þá sömu til að taka þátt í lestrarátaki Ævars og freista þess að verða persóna í næstu bók hans. Ég get líka lofað því að foreldrar verða ekki fyrir vonbrigðum með bókina. Ég held ég hafi aldrei hlegið eins mikið yfir neinni annari bók. Því skal þó bætt við að ef bókin er lesin upphátt er næstum því nausynlegt að lesa hana með leikrænum tilþrifum. Það gerir allt svo miklu skemmtilegra!

 

Lestu þetta næst

Eins konar dans

Eins konar dans

Moldin heit er önnur skáldsaga Birgittu Bjargar Guðmarsdóttur en fyrir hana hlaut hún...