Kafað djúpt ofan í bresku konungsfjölskylduna

Að þurfa að fá samþykki fyrir makavali þínu, biðja mömmu eða ömmu stanslaust um pening (því þú átt engan sjálfur), mega ekki velja menntastofnun, feril né hvaða góðgerðarfélag þú styður hljómar ekki eins og spennandi lífsstíll. En þetta er samt raunveruleiki meðlima bresku konungsfjölskyldunnar og þrátt fyrir þetta hefur sögulega þótt spennandi að giftast inn í þessa stofnun þar sem ramminn er afar þröngur.

Fáir vita jafn mikið um bresku konungsfjölskylduna og fjölmiðladrottningin Tina Brown. Brown varð ung að aldri ritstjóri breska slúðurtímaritsins Tatler á níunda áratug síðustu aldar og tók síðar við stjórnartaumum glanstímaritsins Vanity Fair og síðar The New Yorker í Bandaríkjunum. Síðasta haust þegar ég var að bíða eins og fjölmargir aðrir spennt fyrir nýjustu seríunni af The Crown á Netflix ákvað ég að lesa doðrantinn hennar um Díönu prinsessu, The Diana Chronicles. Bókin vakti mikla athygli þegar hún kom út árið 2007 en þá voru tíu ár frá andláti Díönu og því mikil umfjöllun um hana í fjölmiðlum á ný. 

Óútskýranlegur persónusjarmi

Ég man óljóst eftir andláti Díönu (ég var fjögurra ára þegar hún dó). Það er erfitt að aðgreina hvort það séu raunverulegar minningar eða skáldaðar minningar byggðar á síðari samtölum að mæðurnar í skóla systur minnar voru allar grátandi í kjölfar slyssins. Það er eiginlega óútskýranlegt hvaða áhrif Díana hafði á fólk. Fólk út um allan heim, úr öllum stéttum, sem aldrei hafði hitt hana var djúpt snortið yfir andláti hennar. Hin frábæra kvikmynd The Queen sem kom út árið 2006 segir frá vikunni eftir andlát Díönu. Þar bjargaði Tony Blair, nýkjörinn forsætisráðherra, málunum þegar hann fékk drottninguna til að vera með yfirlýsingu til að þakka auðsýnda samúð almennings, eitthvað sem krúnunni hafði ekki dottið í hug að gera fyrir manneskju sem var tæknilega séð ekki lengur hluti af hópnum.

Það eru liðin rúmlega 25 ár frá andláti Díönu og enn á ný heillast almenningur af persónunni, í þetta sinn í gegnum fjórðu og fimmtu seríu af The Crown.

Ég efast ekki um að slíkt muni gerast á ný eftir tíu ár eða tuttugu ár ef bók, þáttur eða hlaðvarp kemur út sem vekur athygli á Prinsessunni af Wales á ný.

Besta ævisagan um Díönu

Ég naut þess að lesa bók Tinu Brown og fannst ég í kjölfarið nálgast nýjustu seríu af The Crown af meiri dýpt þar sem ég þekkti til flestra mála sem komu upp (að því sögðu fannst mér fimmta serían sú veikasta hingað til, en þessi umfjöllun fjallar ekki um þessa sjónvarpsþætti). Ég var óvenju lengi að lesa bókina, bæði þar sem þetta er doðrantur en einnig því ég naut virkilega lestursins. Það er til ógrynni af ævisögum Díönu en Brown þykir hafa skarað fram úr. Hún byggir bókina á mikilli heimildarvinnu og er aðdáunarvert hvað hún hefur tekið mörg viðtöl til að teikna upp eins trúverðuga mynd af prinsessunni og hægt var.

Hún dregur nefnilega fram það sem við hin virðumst ekki meðtaka, að Díana var mennsk.

 

Díana var kona sem gerði mistök, hún lék sér að eldinum í sambandi sínu við fjölmiðla, og hún var líka ótrú í sínu hjónbandi. Engu að síður hefur lesandinn samúð með Díönu. Að vera kastað í gin ljónsins nítján ára gömul, óspjölluð meira að segja! Það sorglega við lesturinn er að hún virtist einmitt vera á réttri leið að finna sinn farveg sem fyrrverandi meðlimur konungsfjölskyldunnar, að nýta frægð sína til góðs þegar hún lést. Díana væri eflaust að gera eitthvað stórmerkilegt ef hún væri enn á lífi í dag.

Sagan heldur áfram

Eftir að ég lauk loks lestri á The Diana Chronicles átti ég vitaskuld að snúa mér að jólabókaflóðinu sem við reynum að gera góð skil hér árlega á Lestrarklefanum. En hvað get ég sagt? Ég var kona heltekin af þúsund ára stofnun. Ég komst að því að Tina Brown hafði skrifað aðra bók um konungsfjölskylduna, annan doðrant, og keypti mér rakleiðis eintak á Kindle af The Palace Papers: Inside the House of Windsor.

The Palace Papers kom út árið 2022 og vakti þó nokkra athygli og var valin ein af bestu bókum ársins hjá dagblaðinu The Washington Post. Bókin segir frá konungsfjölskyldunni eftir andlát Díönu og einblínt er á helstu persónur og leikendur í köflum um hvern og einn. Það er kafli um Díönu en hann byggir að mestu leyti á fyrri bók Brown. Helsti munurinn á lestrarupplifun minni af bókunum tveimur var að það var lítið nýtt fyrir mér í þeirri síðari.

Bókin er um svo marga að það er ekki hægt að fara djúpt í líf hvers og eins og því meira stiklað á stóru en að fara á dýptina. Ég hafði helst gaman af köflunum um prinsana tvo, Harry og Vilhjálm, enda hafa þeirra persónulegu mál verið mikið í sviðsljósinu að undanförnu.

 

Ég mæli engu að síður með lestri á bókinni, sérstaklega fyrir fólk sem vill kynna sér helstu atriði í sögu aðalpersónanna í nútíma konungsfjölskyldunni.

Þegar ég loksins kláraði The Palace Papers í lok desember var ég með stór markmið um að lesa það besta úr íslenska jólabókaflóðinu og er nú komin langleiðina með eina slíka bók, en þá varð auðvitað bókin hans Harrys, Spare, að koma út og ég er að sjálfsögðu að fara að demba mér djúpt ofan í hana. Það eru kannski viðvörunarorð þessarar umfjöllunar, sama hvað manni finnst um stofnunina bresku konungsfjölskylduna er ávanabindandi að lesa um hana og ljóst er af nógu er að taka!

Lestu þetta næst

Eins konar dans

Eins konar dans

Moldin heit er önnur skáldsaga Birgittu Bjargar Guðmarsdóttur en fyrir hana hlaut hún...