Sagnfræðirit geta verið formföst og stíf. Heimildirnar eru ramminn sem sagnfræðingi er sniðinn og stundum svala þær ekki forvitninni. Það er því gaman að detta á rit sem heldur sig við heimildirnar, en nær að svala forvitninni og höfundurinn leyfir sér stundum að velta fyrir sér tilfinningum persónanna úr heimildunum. Næstum eins og skáldsaga.
Við höfum öll áhuga á fólki, þori ég að alhæfa. Sögur af fólki eru mun áhugaverðari en sögur stofnanna, finnst mér sjálfri. Lifnaðarhættir og venjur, fæða, föt og líf fólks úr fortíðinni hefur oft verið skrifuð niður. Líf þeirra sem minna máttu sín hafa hins vegar síður ratað í bækur. Enda kannski ekki mjög spennandi að lesa um tilbreytingalaust brauðstrit. En hvað með afbrotafólk?
Yngvi Leifsson rakst á hefur áhugaverða persónu í gömlum dómabókum freistaði þess að púsla saman lífi hennar í bókinni Með álfum: Ævisaga flökkukonunnar Ingiríðar Eiríksdóttur (2015). Vitnaleiðslur og dómar yfir Ingiríða leiða í ljós heldur óvenjulegt líf konu sem var uppi um aldamótin 1800.
Saga af hugursneyð og kulda
Efni margra skáldsagna í nútímanum fjallar um áföll sem erfast á milli kynslóða. Við erum aldrei alveg laus við fortíð foreldra okkar, forfeðra okkar og mæðra. Sé þetta raunin þá er með ólíkindum að nokkur Íslendingur gangi heill til skógar, sem við gerum kannski flest ekki. Eða hvað? Þær hörmungar sem dundu yfir þjóðina við lok átjándu aldar og byrjun þeirrar nítjándu er nóg til að valda dómínóáhrifum inn í framtíðina. Mögulega er hægt að rekja þörf okkar fyrir þunglynislyf til áfalla sem þjóðin heftur gengið í gegnum í fyrndinni.
Ingiríður var fædd 1777 og foreldrar hennar voru ógift vinnuhjú. Fyrstu ár ævi hennar voru harðindi á landinu; hafís og hungur. Ingiríður var sex ára árið 1783 þegar gífurlega öflugt eldgos hófst í Lakagígum. Eldgosið olli móðuharðindunum, eitraði út frá sér, drap búfénað og fólk og rústaði fjölda heimila. Fólk um allt land lenti á vergangi, missti heimili sitt og lífsviðurværi. Það er því með ólíkindum að niðursetningur eða ómagi eins og Ingiríður skyldi lifa af. En hún lifði! Í gegnum kirkjubækur er hægt að rekja flakk hennar milli bæja á Norðurlandi sem ómagi og niðursetningur. Þegar hún varð eldri gerðist hún vinnukona eða matvinnungur á hinum ýmsu bæjum.
Allt flakk bannað
Fólk eins og Ingiríður hafði lítil sem engin réttindi. Börn fædd utan hjónabands voru á framfærslu fæðingarhrepps þeirra og því mátti fólk ekki flakka á milli landshluta. Að auki voru vistaböndin við lýði. Vinnuhjú skyldu ráða sig í vist að vori og halda sig við þann bæ út veturinn. Sama hve slæm vistin var. Allt þetta skal haft í huga þegar ævi Ingiríðar er skoðuð.
Allt frá því Ingiríður var barn sótti hún í einveru og flakk. Þegar hún hafði legið lengi úti var hún innt eftir verustað sínum, sem hún svaraði stundum að hún hefði verið „með álfum“. Þegar hún komst á fullorðins ár hélt flakk hennar áfram. Hún fór úr fæðingarhrepp sínum (ólöglegt) og flakkaði á milli bæja (ólöglegt) og sá fyrir sér sjálf.
Heildum fléttað saman við textann
Ingiríður var þjófótt flökkukind. Fyrir það var hún handtekin aftur og aftur. Hún átti líka nokkur börn í lausaleik. Börn sem myndu síðar meir enda á framfæri fæðingarhrepps síns og lifa ævi sína á svipaðan hátt og móðir þeirra – í fátækt. Yngvi tekur saman allar þessar heimildir og byggir úr heildstæða sögu konu, sem annars hefði aldrei fengið að segja sína sögu. Í gegnum heimildirnar er hægt að sjá kokhrausta konu sem þrátt fyrir fátækt og óvinveitta valdstjórn fór sínar eigin leiðir. Það er gaman að sjá Yngva velta upp spurningum um tilfinningar Ingiríðar, þótt stunum megi lesa eitthvað slíkt úr texta dómabókanna. En hann gefur sér örlítið skáldaleyfi. Heimildunum fléttar hann skemmtilega saman og sagan er ekki eingöngu saga Ingiríðar, heldur saga lands og þjóðar, valdstjórnar og veðurfars.
Þegar ég hóf lestur bókarinnar átti ég erfitt með að leggja hana frá mér og las hana í einum rykk, fram á nótt. Með álfum er grípandi söguleg bók, byggð á eitilhörðum heimildum sem leiða lesandann í ferð um hungursneyðir og flakk Ingiríðar.