Benedikt bókaútgáfa hefur frá upphafi gefið út fjölbreyttar og vandaðar þýðingar í bókaklúbbnum Sólinni. Í ár hafa þrjár bækur komið út í bókaklúbbnum sem hefur fengið nýtt útlit, titlar verkanna prýða kápurnar í hástöfum en smáu letri á meðan nöfn höfundanna eru stór og umvefja kápuna líkt og skraut. Fær mig til að vilja að kilirnir passi saman í bókahillunni og skapi samfellda mynd, eins og syrpurnar hér forðum.
Smáatriðin er stutt skáldsaga í fjórum hlutum, sumir myndu jafnvel kalla hana nóvellu eða smásagnasafn. Sögumaðurinn er kona sem er aldrei nefnd á nafn og sögusviðið er mestmegnis Stokkhólmur í Svíþjóð rétt fyrir aldamótin. Hver hluti bókarinnar fjallar um ákveðna manneskju sem hefur haft áhrif á líf sögumannsins. Bókin er líkt og uppgjör konunnar, leið hennar til að átta sig á fólkinu í hennar lífi og henni sjálfri. Hún setur þó alltaf fókusinn á aðra, lýsir hegðun þeirra gaumgæfilega og á auðvelt með að draga fram ákveðin smáatriði í þeirra fari sem vekja athygli hennar. Það má jafnvel lýsa þessari bók sem rannsókn, rannsókn á mannlegu eðli sem er þó framkvæmd á mjög óvísindalegan hátt, hugsanir og tilfinningar ráða förinni þar sem textinn rennur oftast fram í hugsanaflæði sögumanns.
Óreiða minninganna
Við eigum svo mörg líf inni í lífi okkar, smærri líf með fólki sem kemur og fer, vinum sem hverfa og börnum sem vaxa upp. Ég átta mig aldrei á hvert lífa minna er sjálfur ramminn. Þegar ég er með hita eða er ástfangin virðist allt svo sjálfsagt, mitt eigið „sjálf“ fellur í skuggann og víkur fyrir óumræðilegri hamingju, heild sem varðveitir smáatriðin, óaðskiljanleg og skýr við hlið hvert annars. (Smáatriðin, bls. 117)
Hver manneskja sem er tekin fyrir er einstök, er á skjön við samfélagið og sögumanninn sjálfan. Samt hafa þessar manneskjur mjög sterkt aðdráttarafl á ungu konuna og móta þær líf hennar. Þetta eru Johanna, ástkona sögumanns, og deila þær stekri ást á bókmenntum og ritstörfum. En eins og oft endist unga ástin stutt en eftirsjáin varir lengi. Annar hluti fjallar um Niki, ævintýragjarna og óáreiðanlega vinkonu, sem hverfur á endanum úr lífi sögumanns en sögumaður þarf svo að fara til annars lands í leit að henni. Þriðji hluti fjallar um annan elskhuga, Alejandro, hún lýsir honum sem hvirfilbyl en hún hittir hann þegar hún sér hann uppi á sviði með hljómsveitinni Zomby Woof og dáleiðist af hreyfingum hans. Aftur fyllist líf hennar óreiðu með komu hans og eftir brottför hans er lífið enn ruglingslegra.
Gaumgæfing smáatriðanna
Persónulega snerti síðasti hluti bókarinnar mig mest, þar sem sögumaður segir frá móður sinni. Móðir hennar átti erfitt uppdráttar, þurfti að kljást við geðræn vandamál og sögumaður segir sjálf að Birgitte, móðir hennar, sé eina manneskjan sem hún áttar sig ekki almennilega á. En með því að skoða smáatriðin og „beina athyglinni út á við“ (bls. 117) tekst henni loksins að skilja Birgitte, „með því að gaumgæfa hana.“ (bls. 117) Sá hluti er kjarni bókarinnar fyrir mér og einmitt þar sem sögumaður þarf virkilega að kafa á dýpið.
Textinn er lítið brotinn upp þar sem minningar sögumanns ráða förinni. Þetta gerir stílinn stundum svolítið ruglingslegan en það má hugsa þetta stílbragð sem endurspeglun á óreiðu minninganna. Þær taka mann einmitt úr einu í annað og skeyta ekki um röklega og samfellda frásögn. Það virkaði á köflum ekki nógu vel fyrir ólétta lesandann sem átti stundum erfitt með að fylgja frásögninni.
Smáatriðin er falleg og leitandi skáldsaga, ljóðræn á köflum, stundum kaótísk en niðurstaðan er uppgjör manneskju á lífi og öllum þeim lífum sem hafa haft djúp áhrif á hana. Þó að ég hafi stundum týnt mér í bókinni er hún fallega skrifuð, raunveruleg og nístandi. Þýðing Þórdísar Gísladóttur er með besta hætti.