Fourth Wing

Hafi man eitthvað fylgst með bókaumræðum á samfélagsmiðlum á þessu ári þá er ansi líklegt að man hafi orðið var við bókina Fourth Wing eftir Rebeccu Yarros sem kom út nú á árinu. Sú bók hefur svo sannarlega vakið athygli. Þetta er ekki fyrsta bók höfundar en er þó fyrsta rómans fantasíubókin hennar og er óhætt að segja að hún hafi slegið í gegn. Það var því ekki hægt annað en að grípa eintak og lesa. Athuga hvort bókin stæði undir allri þessari umfjöllun og aðdáun. Kápan var líka eitthvað svo heillandi.

Fourth Wing fjallar um Violet Sorrengail sem er í þann mund að hefja skólagöngu sína í Basgiath War College en þó með breyttri áætlun. Nánast allt líf sitt hefur hún undirbúið sig undir þessa skólagöngu og stefnir að því að verða Skrifari og lifa rólegu lífi á meðal skjala og bóka. Hún er jú lítil og viðkvæm svo það er kjörið fyrir hana.

Móðir hennar hefur hinsvegar aðrar áætlanir. Hún, sem er nú orðin hæstráðandi í Basgiath skólanum, hefur ákveðið að það sé fyrir neðan virðingu hennar að dóttir hennar verði Skrifari. Dóttirin skal frekar verða ein af þeim fremstu í heimkynnum þeirra í Navarre. Hún skal verða Drekaknapi. Violet þarf því að fara langt út fyrir þægindaramma sinn og leggja mikið á sig ef hún ætlar sér að lifa af, það er engin miskun. Drekar bindast ekki viðkvæmum manneskjum og gera þær að knapa sínum, þeir spúa eldi á þær. Það eru líka fleiri lærlingar en drekar og þjálfunin er ströng. Ekki bætir svo úr skák að hún virðist vera með skotskífu málaða á bakið. Ekki bara af því að hún er lítil og viðkvæm heldur einnig af því að hún er dóttir móður sinnar, konu sem ber ábyrgð á dauða foreldra margra samnemenda hennar en þeir voru líflátnir vegna svika.

Passlegur hraði, áhugaverður heimur

⁠Eins og áður hefur komið fram þá er þessi bók búin að vera út um allt í bókasamfélögum samfélagsmiðla. Svo mikið að undirrituð var farin að finna fyrir þeim þrýstingi að þurfa að lesa hana til þess að vera með. Bókin var því keypt og lesin og frá fyrstu blaðsíðu var ég föst. Kannastu við að bók er það góð að ef þú þarft að leggja hana frá þér til að sinna lífinu þá geturðu ekki beðið eftir að komast aftur til hennar og lesa? Þessi bók var þannig fyrir mér.

Að skrifa bók er ekki auðvelt verk, að skrifa fantasíubækur er það alls ekki. Sérstaklega þegar sögusviðið er töluvert ólíkt okkar heimi. Það er fín lína sem þarf að dansa á þegar það er gert. Heimurinn getur verið flókinn og hann þarf að kynna fyrir lesandanum, bæði lönd og staðhætti en einnig samfélög og verurnar í þeim. Það getur því verið margt sem þarf að útskýra en það má ekki vera of flókið eða of mikið af upplýsingum í einu. Það getur flækt lesturinn fyrir lesandanum, gert söguna jafnvel leiðinlegri og það er ekki vænlegt ef bókin á að höfða til þeirra sem eru ekki vanir að lesa fantasíubækur. Rebecca Yarros virðist vera meðvituð um það við skrif sín á þessari bók. Hún nær að dansa á þessari fínu línu sem það er að útskýra heiminn án þess að lesandinn upplifi hann flókinn og upplýsingarnar alltof miklar. Heimurinn er einnig ferlega áhugaverður en fyrsta bókin gerist að mestu í kringum skólann þar sem fólk kemur til að læra að verða eitt af fernu – Skrifari, Drekaknapi, Heilari eða Fótgönguliði. Minnir smá á heim Harry Potter ef í þeim bókum væri talsvert mikið um dauða og kynlíf. Söguþráðurinn sjálfur er svo vel tvinnaður með óvæntum atburðum víðsvegar um bókina sem heldur lesandanum við efnið. Atburðarásin er mátulega hröð þannig að manni fer ekki að leiðast en jafnframt missir ekki af neinu. Það er sífelld spenna og svo eru sumir kaflarnir þannig að man gæti mögulega roðnað eilítið. Þetta er jú líka ástarsaga.

Það er skemmtilegt að fylgjast með vegferð aðalsöguhetjunnar Violet í gegnum bókina. Bókin hefst að hausti þegar allir hefja nám í skólanum og svo fylgjum við Violet og samnemendum hennar eftir allan veturinn. Þroskasaga hennar í gegnum bókina er talsverð og áhugavert að sjá breytingarnar á henni frá upphafi til enda. Hún er skynsöm og býr yfir samhyggð með öðrum en hún er heldur engin gólftuska. Hún veit hvað hún vill og fer ekki leynt með það en aftur á móti fær hún ekki alveg það sem hún vill í upphafi bókar og þarf því að takast á við áskoranir sem hún var ekki tilbúin fyrir. Hún er kannski ekki líkamlega sterk en hún er það andlega og það er það sem kemur henni í gegnum þær áskoranir. Hún endurnýjar kynni við gamla vini í skólanum en eignast einnig nýja og þá er sérstaklega einn sem spilar stærsta hlutverkið. Það myndi vera Xaden Riorson, samnemandi sem er þó eldri og þar af leiðandi aðeins á undan Violet í skóla. Það eru margir sem myndu vilja koma Violet fyrir kattarnef vegna þess hver móðir hennar er og þar fer Xaden fremstur í flokki. Allavega til að byrja með…

Öll þurfa að lesa

Þessi bók er með þeim betri sem ég hef lesið í langan tíma. Það er ekkert öðruvísi en það. Aðalsöguhetjan er sterk og klár kona, söguþráðurinn er passlega hraður og býður uppá endalaust af atriðum sem koma á óvart. Og endirinn? Ómæ.

Kannastu við að hafa lesið bók og svo þegar hún er búin situr eftir smá tómleikatilfinning? Síðan grípurðu símann þinn og spyrð Google frænda hvort það sé framhald og þegar í ljós kemur að svo er þá færðu gott í hjartað? Já Fourth Wing er þannig bók fyrir mér. Ég var því ekkert lítið glöð þegar ég sá að bók tvö er væntanleg í nóvember og höfundurinn hefur talað um að í heildina verði þetta fimm bækur.

Þessa bók þarf svo að þýða og gefa út á íslensku. Bókasöfnin þurfa líka að eiga eintök af þessari bók og bara öll sem lesa fantasíur þurfa að lesa þessa bók. Þið verðið að allavega athuga hvort ykkur líkar hún.

Lestu þetta næst

Eins konar dans

Eins konar dans

Moldin heit er önnur skáldsaga Birgittu Bjargar Guðmarsdóttur en fyrir hana hlaut hún...