Landakotsódæðin: Nunnan sem greip til sinna ráða

Kápa bókarinnar er afskaplega aðlaðandi.

Ég hafði aldrei áður lesið bækur Ólafs Jóhanns Ólafssonar, fyrr en loks í síðustu viku. Ég fékk nefnilega inflúensu (eina skiptið sem ég gleymi að fara í flensusprautu!) og fannst þá kjörinn tími til að opna hljóðbókarappið mitt til að koma mér í gegnum þennan hrylling (Ég ítreka: FARIÐ Í FLENSUSPRAUTU GOTT FÓLK!).

Ég stillti á Sakramentið. Hún kom mér virkilega á óvart. Ég hafði aldrei verið neitt rosalega spennt fyrir að lesa hana; heillaði mig einfaldlega ekki söguþráðurinni, ekki það sem ég hafði heyrt allavega. Ég ákvað hins vegar að gefa henni séns enda aðeins heyrt góða hluti um bækur Ólafs sem virðist vera eins konar séní meðal manna ef út í það er farið.

Miðaldra frönsk nunna er send til Íslands til að rannsaka dularfullt og sorglegt mál sem kom upp í Landakotsskóla á níunda áratugnum. Einn lætur lífið á voveiflegan hátt og nemendur feta lífsveginn með sár á sálinni vegna misnotkunar skólastjóra og kennslukonu. Saga misnotkunar í Landakotsskóla er því miður saga sem við þekkjum of vel hér á Íslandi en mikið var fjallað um þær hörmungar sem dundu yfir nokkra nemendur skólans hér fyrir nokkrum áratugum. Kirkjan var gagnrýnd í kjölfarið og fórnarlömb fengu skaðabætur, sem ég efast þó um að hafi læknað þau sár sem þar lágu á sálinni. Ólafur fer ofan í saumana á þeirri sögu og setur fram afar raunsæja mynd en leyfir sér á sama tíma að kollvarpa sagnfræðilegum staðreyndum og segja gerendum til syndanna. Það gerir hann mæta vel.

Í kjölfar þessarar sögu er lífi nunnunnar gert skil og saga hennar sögð á sannan og látlausan hátt. Sagan er sögð í einskonar staðreyndastíl, að mér fannst, án þess þó að vera þurr. Í rauninni vísar sagnastíllinn að mínu mati í þá bælingu sem persónan hefur þurft að tileinka sér og þola alla ævi. Nú ætla ég ekki að segja meira um söguþráð sögunnar því ég vil ekki spennuspilla fyrir þeim sem eiga eftir að lesa bókina. Það sem ég vil hins vegar segja er að bókin er mjög vel skrifuð og sagan er mjög áhugaverð; bæði saga nunnunnar sjálfrar sem varpar mjög góðu ljósi á hugmyndafræðina sem liggur að baki þessari ákvörðun að gerast nunna en einnig á hvers kyns konu kuflinn hefur að geyma.

Eins og ég sagði þá hlustaði ég á bókina. Hún var lesin af Þorvaldi Davíð Kristjánssyni sem gerði það mæta vel, að undanskildum frönskum framburði nokkurra franskra kennileita og orða sem voru svo afbökuð að hálfa væri hellingur. Ég átti satt að segja mjög erfitt með að skilja af hverju hann lagði það ekki á sig að kynna sér hvernig orðin væru borin fram, enda leikaramenntaður maður. Það er í rauninni það eina sem ég hef út á þetta að setja; framburður Þorvalds á frönsku orðunum, en að öðru leyti var sagan stórkostleg og ég er nú þegar byrjuð að lesa aðra bók eftir Ólaf sem stendur svo sannarlega undir væntingum. Meira um það síðar.

Lestu þetta næst

Eins konar dans

Eins konar dans

Moldin heit er önnur skáldsaga Birgittu Bjargar Guðmarsdóttur en fyrir hana hlaut hún...