Hvað kom fyrir í Borgarfirðinum?

Ævar Þór Benediktsson og Ari H.G. Yates leiða aftur saman hesta sína í hrollvekjubókinni Skólaslit 2 – Dauð viðvörun. Skólaslitabækurnar eiga uppruna sinn í lestrarhvatningarverkefni grunnskólanna á Reykjanesi og öll börn á Íslandi hafa notið góðs af. Skólaslit er lestrarupplifun. Einn kafli birtist á hverjum degi í október á vefsíðunni skolaslit.is ásamt teikningum Ara. Verkefni hófst í október 2021, var endurtekið í október 2022 og svo lauk þriðju og síðustu sögunni 31. október 2023. 

Íslensk börn sameinuðust í lestrarupplifun þrjú ár í röð, misstu matarlystina í nestistíma og unnu verkefni upp úr bókunum. Hvað er betra? 

Vegna vinsældar verkefnisins hafa sögurnar svo komið út endurbættar á prenti, með fleiri myndum. 

Ekki er allt sem sýnist

Fyrsta bókin um skólaslit endar á því að allt fellur í samt horf. Þeir sem dóu vakna af slæmum draumi, Myrkrið hörfar og allt fellur í ljúfa löð. Það var allt í lagi eftir allt saman. Eða hvað? Önnur bókin hefst skömmu eftir að fyrri bókinni sleppir og lesandinn kannast strax við nokkrar persónur úr fyrstu bókinni.

Bókin hefst á hryllingi. Foreldrar barna í skólaferðalagi hafa beðið eftir rútunum lengi. Ekkert samband næst við krakkana sem voru í Borgarfirðinum og það er rauð veðurviðvörun. Svo gengur unglingur út úr myrkrinu og bylnum og stynur upp að þau séu öll dáin. Og þannig hefur Ævar strax fangað alla með sér í hrollvekjandi ævintýri. Hvað gerðist? Hvernig dóu allir? Eru allir dánir? Hvaðan kom þessi unglingur? 

Hrollvekja alla leið 

Lesandinn fær baksöguna í næstu köflum. Hægt og rólega (eða sko, með hryllingi og æðibunugangi) opnast fyrir okkur sannleikurinn um allt sem hefur gengið á á heimferðinni. Og hvað gerðist í skólaferðalaginu. Ég ætla ekki að tíunda það hér. Ég get hins vegar sagt að það er eitthvað skuggalegt sem á sér stað í Varmalandi í Borgarfirðinum. 

Ævar Þór og Ari eru gott teymi í þessum bókum. Ævar sleppir sér lausum í hryllingnum, lýsir hrikalegum sárum, greftri, svörtu slími og öðru ógeðfelldu ógeði mjög fjálglega með orðum. Svo kemur Ari og bætir við þetta hrollvekjandi myndum í teiknimyndastíl í sterkum litum sem eru sakleysislegar, en samt hrikalegar. Að mínu mati nær hann að feta línuna á milli þess að vera of ógeðlegur og temmilega ógeðslegur. Þetta er þunn lína. Honum tekst þetta.

Sagan er æsispennandi, fyndin og að sjálfsögðu mjög hrollvekjandi. Það er mikill hamagangur í textanum og myndunum. Til dæmis unglingar hlaupandi undan sprettandi, rotnandi samnemendum sínum. Hér má finna uppvakninga-geitur og aðrar furðuverur. Það er hægt að lofa lesendum skemmtun við lestur bókarinnar.

Fjölbreytileikinn, beibí! 

Þema í barnabókum síðustu ár hefur verið fjölbreytileikinn. Hinsegin persónur fá að taka smá pláss í bókum og hafa hátt, segja sögu sína og vekja lesendur til umhugsunar. Það er nauðsynlegt að spegla samfélagið í barnabókum í öllum sínum fjölbreytileika og bæta svolíti í úrval hinseginbóka. Sjálfri finnst mér að það ætti ekki að vera tiltökumál að ein og ein persóna sé hinsegin eða trans. En það er það samt. Allar persónurnar sem berjast við uppvakningana fá baksögu sína sagða á einhverjum tímapunkti í bókinni. Og saga Ragnars er sú að hann er trans. Það breytir því ekki að hann þarf samt að berjast fyrir lífi sínu við uppvakninga. En þessi lífreynsla, að koma út sem trans, er erfið lífsreynsla sem mótar hann sem persónu. Og mótar samskipti hans við þá samnemendur sem hann þarf að lifa með í gegnum heimsendi. Undirtónninn er alvarlegur á meðan traðkað er á hausum eða barist í gegnum storminn á Kjalarnesinu. 

Skólaslit 2 – Dauð viðvörun gefur fyrri bók ekkert eftir. Hún er spennandi, ógeðsleg og hrollvekjandi. Krakkar vilja hrollvekjur. Gefið þeim hrollvekjur. 

Lestu þetta næst

Mjóifjörður kallar

Mjóifjörður kallar

„Ég get nú ekki sagt að ég hafi kunnað vel við mig á frumkvöðlanámskeiðinu en mér þótti gaman að...

Heillandi jóladraumar

Heillandi jóladraumar

Íslenski dansflokkurinn býður upp á Jóladrauma þessa aðventu. Um er að ræða danssýningu fyrir börn...

Næturbrölt

Næturbrölt

Í fyrra lásum ég og drengurinn minn bókina Tannburstunardagurinn mikli og vorum hæstánægð. Næsta...

Að ánetjast eldri konum

Að ánetjast eldri konum

Ég hef verið áðdáandi Evu Rúnar núna í þónokkur ár. Ljóðabækurnar hennar og örsagnasöfn hafa verið...