Undir Yellowstone þjóðgarðinum í Bandaríkjunum leynist risastórt ofureldfjall, eins og stór graftabóla sem bíður eftir því að springa. Tilhugsunin um þetta eldfjall hefur ásótt mig síðan ég var unglingur. Svo stórt eldfjall getur valdið gríðarlegum hamförum. Svo miklum að það tortímir heiminum eins og við þekkjum hann. Svolítið líkt Síberíuþrepunum, sem einmitt er rætt um í fjórðu bókinni í Vísindalæsi-serínni.
Seríunni er ætlað að setja fram flóknar kenningar og fyrirbæri á einfaldan og aðgengilegan hátt. Léttlestrarbók á tvenna vegu; einfaldur texti og vísindi.
Fróðleiksmolarnir leynast víða
Í Hamfarir vinna Sævar Helgi Bragason og Elías Rúni aftur saman. Sævar Helgi skrifar textann og Elías Rúni myndlýsir. Í bókinni býður Sævar lesandanum í tímaferðalag um jarðsöguna. Fyrsti varnagli sem settur er við ferðalagið er að líklega sé best að vera í geimfarabúning, það var nefnilega ekki gott andrúmsloft fyrir mannverur á forsögulegum tíma. Það er fyrsti fróðleiksmolinn, settur fram á skemmtilegan og einfaldan hátt sem einkennir bókina.
Í byrjun bókar er lesandanum gefinn kostur á að glöggva sig á tímabilum í jaðarsögunni. Hægt er að fletta út blaðsíðunum og skoða tímalínu, teiknaða af Elíasi Rúna, og bent á hvenær hamfarir hafa dunið yfir. Tímalínan er í smækkaðri útgáfu í byrjun hvers kafla svo lesandinn getur rifjað hana upp í gegnum bókina. Hver kafli er svo tileinkaður einum hamförum. Hér er hægt að lesa um aldauða tegunda, hræðilegar náttúruhamfarir, mesta umhverfisslys sögunnar, loftsteina, ísaldir og eldgos.
Húmor og fróleikur í bland
Ég las bókina með sex ára syni mínum, sem nokkrum dögum áður hafði fengið að spjalla við Sævar og fengið að þukla á tunglinu. Það skal enginn vanmeta hve mikil lestrarhvetjandi áhrif það hefur að hitta alvöru rithöfund. Stráksi var því mjög áhugasamur um bókina og allan þann fróðleik sem býr í henni. Texti Sævars er aðgengilegur og hann hefur einstakt lag á að setja flókna hluti fram á einfaldan hátt og í gegnum allan textann skín einlægur áhugi fyrir viðfangsefninu sem smitast til lesandans. Myndir Elíasar Rúna eru fyndnar en á sama tíma upplýsandi og setja stundum textann í enn betra samhengi fyrir ungum lesendum. Ég get ekki hrósað þeim nógsamlega.
Endum á léttum nótum
Eftir lesturinn sat ég slegin og smá hrædd – mér leið svolítið eins og konunni framan á kápu bókarinnar. Samlesari minn, sá sex ára, varð ekki fyrir sömu hughrifum. Fyrir honum eru allar þessar hamfarir í fjarlægri fortíð, eða bara saga.
Jörðin hefur gengið í gegnum hrikalegar hamfarir og aldauðahrinur. Samt er jörðin hér ennþá. Og lífið snýr alltaf aftur. Jörðin er þrautseig. Mér létti því svolítið þegar Sævar endaði bókina á því að róa lesendur örlítið með því að bæta við að líkurnar á svona hamförum séu ekki miklar, þær gerist hægt og tækni mannsins geti gert ýmislegt til að koma í veg fyrir hamfarirnar. Það breytir því þó ekki að graftabólan þenst út undir Yellowstone og sú tilhugsun mun halda áfram að ásækja mig. Ég ætla ekki að segja syninum frá þeirri tifandi tímasprengju.
Vísindalæsi – Hamfarir er vönduð bók um flókna sögu jarðarinnar okkar, sett fram á einfaldan og aðgengilegan hátt bæði í texta og litmyndum. Bókin hentar einstaklega vel börnum á yngsta og miðstigi grunnskólanna og sérstaklega þeim börnum sem vilja lesa staðreyndir fram yfir skáldsögur.