Saga án punkta og rythmískur stíll

Þarna sat ég í sex tíma flugi frá Reykjavík til Kaíró. Flugfélagið bauð ekki upp á neitt skemmtiefni og sjálf hafði ég auðvitað gleymt að taka með mér mitt uppáhalds skemmtiefni- bók. Ég leit á mömmu sem sat og horfði út á vænginn, óþreyjufull eftir menningarupplifunum næstu daga, og hneykslaðist á sjálfri mér í þessum aðstæðum. Hvaða bókabeus gleymir bók fyrir flug? Ég greinilega. Þá leit hún á mig og dró upp úr bakpokanum fyrstu tvær bækur Jons Fosse í þríleiknum um Öldu og Ása; Andvaka, Draumar Ólafs og Kvöldsyfja.

Eins og bókaalþjóð veit þá er Jon Fosse handhafi Nóbelsverðlaunanna 2023. Ég var nýbúin að lesa frétt um manninn þar sem kom fram að hann skrifaði einstakan texta og að verk hans væru oft tengd guðfræði sem hann hafði numið á sínum tíma. Þetta voru tvær þunnar bækur sem mér voru réttar.

Eitt langt hugsanaflæði 

Það er þetta með lengdina. Lengd bóka. Oft finnst mér eins og áhersla sé lögð á lengd fremur en gæði. Mín reynsla, sem og eflaust margra annarra, er að lengd skipti ekki máli. Hversu oft hefur maður lesið langar bækur þar sem lopinn er teygður og togaður í allar áttir?

Ég setti mig í stellingar, þakklát móður minni fyrir að redda mér, og byrjaði að lesa.

Frá fyrstu setningu var ég heilluð. Ég hef aldrei lesið svona texta. Fosse notar almennt ekki punkta til að afmarka setningar. Textinn er eins og eitt langt hugsanaflæði sem afmarkast aðeins með kommum og einstaka spurningamerkjum. Hann flæðir á þægilegan hátt í gegn. Einn og einn punkt er þó að finna en þeir eru sjaldgæf sjón. Í þríleik Fosse kynnumst við Öldu og Ása sem búa við kröpp kjör í Noregi. Líf þeirra, sem birtist okkur á blaðsíðum Fosse, er þyrnum stráð og má sjá skýr tengsl við söguna um Maríu og Jósep á jólanótt í fyrstu bókinni þar sem þau arka um bæ í leit að skjóli fyrir sig og ófætt barn sitt.

Sagan vindur upp á sig í þessum þremur stuttu bindum sem eru samt svo yfirfull af táknum, dásamlegum texta, átakanlegri sögu og sögum sem fela sig á bak við orðin og bíða þess að lesandi skynji hvað býr að baki og hvað er í raun og veru að gerast.

Eftirminnilegustu bækur ársins

Ég las fyrstu tvö bindin í einum rikk í fluginu og þegar ég las kom yfir mig þægileg ró; stíllinn skapaði einhverskonar rythmíska hugleiðslu sem leiddi mig áfram í sögunni. Þriðja bindið beið mín þegar heim var komið eftir að hafa þurft að þreyja þorrann þar sem bókin var í endalausu útláni – eðlilega. Ég beið og vissi að tími minn og þriðja bindisins myndi koma. Og hann kom svo sannarlega. Milli jóla og nýjárs náði ég að stetjast niður og klára söguna um þau skötuhjú.

Ég vil ekki segja of mikið enda er eiginlega ekki hægt að gera bókum Jons Fosse skil hér svart á hvítu. Fyrir mér eru þetta eftirminnilegustu bækur ársins og ég veit að ég mun líklega aldrei lesa neitt í líkingu við þessar sögur. Jon Fosse er greinilega verðugur Nóbelsverðlaunahafi og mikið er ég þakklát fyrir afburða þýðingu Hjalta Rögnvaldssonar á verkum hans sem og Dimmu fyrir að gefa verk hans út.

Lestu þetta næst

Að syrgja er að elska

Að syrgja er að elska

Daníel Daníelsson er menntaður í sagnfræði og ritlist og hefur nú gefið út sitt annað skáldverk,...

Eins konar dans

Eins konar dans

Moldin heit er önnur skáldsaga Birgittu Bjargar Guðmarsdóttur en fyrir hana hlaut hún...