Sögur til næsta bæjar: Ísak

Ísak

Eftir Margréti Hugrúnu

„Fórn snýst um að láta eitthvað sem manni þykir vænt um frá sér. Þú fórnar ekki kókflösku eða einhverju sem skiptir þig engu máli. Það verður að skipta þig máli,“ útskýrði Rebekka um leið og hún beitti flugbeittum steikarhnífnum á safaríka lambalundina. Hann klauf holdið eins og fallöxi og tær safi seytlaði út á þungan leirdiskinn sem hafði sérstaklega verið hannaður fyrir þennan dýra veitingastað. Indversk matargerð eins og hún gerist best.

„…og fórnin snýst yfirleitt um sakleysi. Því góða, saklausa og hreina er fórnað til að halda hinu illa í skefjum. Er þetta ekki skrítið?“ 

„Jú… mjög skrítið,“ svaraði ég án þess að láta hana vita að ég hafði alveg dottið út í eina sekúndu og misst af því sem gerðist milli kókflöskunnar og hins illa. Hún átti það bara til að tala svo mikið.

„Mannfórnir voru algengar í öllum menningarsamfélögum heims til forna. Bæði við reglulegar helgiathafnir og stundum bara tilfallandi þegar eitthvað kom upp á,“ hélt hún áfram og hallaði sér svo fram á borðið eins og hún væri að fara að segja mér leyndarmál sem aðrir gestir veitingastaðnum mættu ekki við að heyra.

„Og þau allra hörðustu voru til í að fórna frumburðinum sínum. Pældu í því. Frumburðinum! Fólk bara gerði þetta. Líka í Evrópu.“ Hún leit snöggt á parið á næsta borði eins og til að passa að þau hefðu örugglega ekki lagt við hlustir og stakk svo upp í sig bitanum.

„Mmmm…Guð ertu að grínast?! Ísak. Þetta er unaðslegt.“

 

Ég sá fyrir mér veruleika þar sem venjulegt íslenskt millistéttarfólk stundaði það að fórna frumburðum til að halda aftur af illum öflum, hver sem þau nú voru. Þrítugt par (eins og þetta á næsta borði) hún í lopapeysu og hann í primaloft úlpu, keyrandi í grafarþögn á hvítri Teslu frá Vesturbænum upp í Rauðhóla til að láta prest myrða ungabarnið sitt fyrir framan alvörugefna áhorfendur á fullu tungli.

Rebekka hellti rauðvíni í glasið mitt, skenkti svo sjálfri sér og bar glasið að vörunum án þess að taka sopa. Hún talaði bara.

„Það er enginn líffræðilegur munur á mannskepnunni, homo sapiens, í dag og fyrir 3000 árum en fyrir 3000, 2000, 1000 árum fannst fullt af fólki bara rökrétt að drepa saklausar manneskjur, meira að segja sín eigin börn, fyrir einhvern langsóttan málstað, eða ekki einu sinni málstað. Ég veit ekki eiginlega hvað. Góða uppskeru? Hvernig er hægt að raunverulega trúa því að barnsmorð séu lógísk lausn við vanda og svo nokkur hundruð árum síðar, dæmt fólk til aftöku fyrir að gera það sama? Er ekkert að marka neitt…?“

Ég gat að sjálfsögðu ekki svarað þessum spurningum hennar sem voru auðvitað ekki raunverulegar spurningar heldur vangaveltur vel gefinnar konu sem ákvað að segja upp starfi sínu sem sjóðsstjóri í banka og skrá sig í meistaranám í heimspeki daginn sem hún varð fimmtug. Lifa á vöxtunum.

Ég velti rauðvíninu í glasinu, stakk nefinu ofan í það og andaði djúpt að mér. Eik og kirsuber. Smá tannín. Flauelsmjúkt.

„Kannski er þetta bara sannleikurinn Rebekka? Kannski er besta lausnin einfaldlega að drepa ungabörn til að tryggja frið og jafnvægi og við nútímafólkið algerlega að fara á mis við frábæra aðferð,“ svaraði ég kaldhæðnislega og fann að höfuðverkurinn sem hafði ásótt mig síðustu vikurnar var aftur mættur til leiks. Það var eins og það væri eitthvað samhengi milli umræðuefna og þessa höfuðverkjar. Eins og heilinn á mér þyldi ekki lengur alvarleg samtöl. Eitthvað sem þyrfti að kryfja.

„Getum við kannski skipt um umræðuefni,“ sagði ég og hún hló.

„Já… ég veit ekki af hverju ég fór að tala um þetta við þig. Ég hef bara verið að spá í fórnir undanfarið. Það er eins og nútímafólk skilji ekki hugtakið og að enginn sé til í að fórna neinu. Ekki einu sinni klukkutíma til að heimsækja veika vini eða ættingja. Fólk gerir bara það sem gefur því stundarfróun. Borðar það sem því finnst gott. Horfir á það sem því finnst skemmtilegt. Allt verður að vera gott og skemmtilegt. Gaman, gott og skemmtilegt.“

 

Það var eins og einhver væri byrjaður að pumpa upp bolta inni í höfðinu á mér svo ég bað þjóninn að athuga hvort þeir ættu íbúfen en hann kom tómhentur til baka. Ég var viss um að hann væri að ljúga því þjónar og kokkar eru alltaf meira eða minna þunnir á vöktum. Auðvitað átti hann íbúfen. Helvítis fífl. Mig langaði að troða andlitinu á honum ofan í tandoori skálina og mér myndi finnast það gaman, gott og skemmtilegt en á endanum yrði það auðvitað fórn. Ég myndi fórna mannorðinu. Hver yrði áhrifaríkasta smellabeitan? „Færður í járnum af Austur-Indía fjélaginu“ – „Trylltist yfir tandoori sósu“ – „Þekktur rithöfundur réðist á þjón?“.

„Eigum við ekki bara að koma núna,“ sagði Rebekka og bað um reikninginn. Hún sá að ég var kominn í annarlegt ástand.

Rebekka þekkti mig vel enda höfðum við verið vinir frá því í MR og ekki ósjaldan sem hún hafði bjargað mér úr vandræðum. Ég veit reyndar ekki hvort þetta var beinlínis vinskapur því ég elskaði Rebekku og hafði þráð hana í um þrjátíu ár. Hún hélt hins vegar að ég væri asexual eða gay og mér fannst það gott því það þýddi að hún átti alltaf eftir að treysta mér og halda mér í lífi sínu. Kynlíf myndi aldrei skemma neitt.

Þegar við komum að bílnum benti hún mér á að rétta sér lykilinn. Sagði að ég væri ekki í neinu ástandi til að keyra og það var vissulega rétt hjá henni. Mér var byrjað að sortna fyrir augum og ég held að ég hafi dottið alveg út þegar við keyrðum einhvers staðar hjá Fossvogsbrúnni. Ég vissi síðast af mér þar.

 

Það fyrsta sem ég fann fyrir var skært, blikkandi ljós á augnlokunum og þetta furðulega klang klang klíng klíng klíng hljóð sem heyrist þegar ég kveikt er á gömlum flúrperum. Fyrst hélt ég reyndar að þetta væri lélegt tónverk en um leið og ég náði að opna annað augað sá ég hvítar perurnar í loftinu og áttaði mig á því að ég lá fastur á hörðum fleti í stórri skemmu, geymslu eða bílakjallara. Ég hafði enga hugmynd um hvað ég hafði legið þarna lengi en höfuðverkurinn hafði margfaldast og var algerlega búinn að taka allt yfir. Þetta sem kallast „ég“ var lítið annað en ílát undir nístandi sársauka.

Ég heyrði raddir í kring um mig og reyndi að halla höfðinu til að sjá hvað væri að gerast en það var eins og það væri búið að líma það fast við borðið.

„Mér skilst að hann hafi aldrei verið við kvenmann kenndur,“ sagði karlmannsrödd sem hljómaði eins og Gunnar Ingi, fyrrum yfirmaður minn frá því ég starfaði sem húsvörður í Landsbankanum.

„Það er nefnilega málið. Og þess vegna er hann frábær fórn. Hann er hreinn,“ heyrði ég rödd Rebekku segja.

„Hvaðan hefurðu það að forty year old virgins séu besta fórnin til að stemma stigu við sveiflum á markaði,“ spurði skræk kvenmannsrödd sem ég kannaðist ekki við og karlmannsrödd sem ég þekkti ekki heldur tók undir.

„Ég tel mig einfaldlega vita það eftir að hafa sérhæft mig í bæði fórnum og fjármálum,“ heyrði ég Rebekku svara.

„Sannleikurinn er sá að við vitum ekki hver sannleikurinn er og þurfum þess vegna að vinna með líkindi. Allar líkur benda til þess að hann Ísak hérna sé fullkominn í þetta. Hann er saklaus og gáfaður… sem er sjaldgæf blanda, en líka góður og fórnfús. Gerir engum mein. Mammon verður glaður að fá hann og í staðinn mun hann hafa áhrif á yfirvofandi sveiflur.“

„Heyr heyr! Ég tek undir þetta,“ sagði Gunnar og um leið heyrði ég málmhljóð líkt og þegar langur hnífur er dreginn upp úr slíðri. Ég kannaðist við svona hnífahljóð úr tölvuleikjum og auðvitað úr Game of Thrones. Hafði séð allar seríurnar þrisvar.

Margrét Hugrún fæddist rétt eftir klukkan þrjú, mánudaginn 6. júlí árið 1970 á fæðingarheimilinu í Reykjavík. Þann dag var hæstur hiti í borginni 13 gráður og það ringdi af og til. Nú býr hún á Hringbrautinni ásamt kettinum Kisu og fullt af plöntum. Margrét er í meira en 200 hópum á Facebook og þessa dagana heldur hún mest upp á hópinn Dull womens cat club sem er alþjóðlegur hópur óspennandi kvenna sem eiga ketti.  

Sögur til næsta bæjar er safn smásagna eftir nemendur í samnefndri smiðju í ritlist við Háskóla Íslands. Sögurnar birtast í samstarfi við Lestrarklefann í fjórar vikur í apríl og maí 2024. Umsjónarmaður verkefnsins er kennari námskeiðsins, Rebekka Sif Stefánsdóttir.

Lestu þetta næst

Eins konar dans

Eins konar dans

Moldin heit er önnur skáldsaga Birgittu Bjargar Guðmarsdóttur en fyrir hana hlaut hún...