Sumarleslisti Lestrarklefans 2024

Sumarið hlýtur nú að fara að koma og með því fjöldi stunda þar sem dásamlegt er að sitja með bók við hönd. Hvort sem það er á ströndinni, í sveitasælunni eða jafnvel rigningunni. Þessa dagana streyma inn nýir titlar í bókabúðirnar sem freista lesenda. Í þessum stuttu færslum segja pennar Lestrarklefans frá sínum lestraráætlunum fyrir sumarið. Vonandi geta lesendur kynnst spennandi bókum sem vert er að taka með í ferðalagið í sumar. 

Leslisti Rebekku Sifjar

Ég sé sumarið í hyllingum. Ég er að skrifa þessa færslu í rigningu og roki, líður eins og haustið hafi læðst upp að okkur allt of snemma og hrifsað frá okkur heila árstíð. En það kemur, já sumarið kemur. Á leslistanum hjá mér eru tvær nýjar skáldsögur eftir unga höfunda, Eyja eftir Ragnhildi Þrastardóttur og Gegnumtrekkur eftir Einar Lövdahl. Bæði unnu þau handritakeppni Forlagsins, Nýjar raddir, Ragnhildur núna í ár en Einar fyrir nokkrum árum. Ég er gífurlega þakklát fyrir þessa samkeppni þar sem það er svo mikilvægt að gera pláss fyrir ferskar raddir í íslensku bókmenntalífi. Ég er byrjuð á báðum bókum og líst mjög vel á! Þriðja bókin á leslistanum er Hrein eftir Alia Trabucco Zerán, nýjum höfundi frá Suður-Ameríku en ég er algjör sökker fyrir bókmenntum heimsálfunnar. Þessar þrjár bækur munu bara rétt svo hefja sumarið hjá mér en fleiri bækur eru á listanum, þar á meðal Sara, Dagný og Ég eftir Ísak Regal, Hús úr húsi eftir Kristínu Marju Baldursdóttur og Missing Hearts eftir Celeste Ng.

Leslisti Sæunnar

Ég hef ekki náð að lesa eins mikið og ég hefði viljað síðustu misseri en vona að sumarið skapi meira svigrúm til þess eins og það gerir gjarnan og leyfi mér að uppfylla öll Goodreads markmið. Sumarið er auðvitað fyrir léttari lestur en það má blanda þessu saman. Mér finnst oft góður dómur um bók að eftir hana hafi verið gerðir þættir og langar því að lesa A Gentleman in Moscow eftir Amor Towles. Bókin fjallar um rússneskan aristókrata sem sætir stofufangelsi meðan Bolsjévík byltingin á sér stað.

Léttmetið er auðvitað ofarlega líka og ég ætla að prófa að kynna mér Jill Mansel sem þykir að sumra mati drottning skvísubóka, ég ætla að byrja á því að lesa Three Amazing Things About You. Bókin fjallar um þrjár konur: Hallie, Flo og Tasha.  Hallie sem er á biðlista eftir lungum og gæti því átt stutt eftir ólifað en er ástfangin af lækninum sínum, en í byrjun bókarinnar kemur í ljós að hún sé loksins að fá lungu, en hver átti þau? Florence (Flo) fær óvænt hlutverk í hendurnar – að hugsa um kött gamallar konu sem hún aðstoðaði eftir andlát hennar og fær þess í stað að búa frítt í húsinu. Hún vingast við barnabarn konunnar Zander, en systur hans líst mjög illa á í hvað stefnir. Loks er Tasha ástfangin upp fyrir haus, en nýi kærastinn er afar ævintýragjarn og hún óttast um að eitthvað gæti komið fyrir hann í ævintýraleit. Það verður gaman að sjá hvað gerist í lífi þessara kvenna.

Að lokum ætla ég að endurnýja kynnin við Mayu Angelou og lesa æviminningar hennar um búsetu sína í Gana All God’s Children Need Travelling Shoes. Sjálf bjó ég þar tímabundið og elska að lesa bækur sem gerast þar. Þetta er sannsöguleg bók og sú fimmta af fimm sem Angelou skrifaði um líf sitt. Þarna rekur hún söguna af því þegar sonur hennar er farinn að heiman og hún sest óvænt að í Gana en á þessum tíma voru margir Bandaríkjamenn af afrískum uppruna sem fluttu búferlum til Afríku-ríkja, sérstaklega til Líberíu. Ég hlakka til að lesa þessa bók og fræðast meira um merkilegt líf Angelou og upplifun hennar af Gana.

 

Leslisti Hugrúnar

Nýlega rak ég augun í bók inn í litla krúttlega bókabýttiskofanum fyrir utan Græna kompaníið á Grundarfirði. Bókin heitir Hvít fiðrildi og kom út í íslenskri þýðingu Höllu Sverrisdóttur árið 2017. Ég hafði hvorki séð né heyrt af þessari bók en káputextinn aftan á henni greip mig. Því lét ég slag standa, tók bókina með mér heim og viti menn. Ég hef setið föst yfir henni síðan. Þegar ég fletti bókinni upp á netinu kom í ljós að einhverjir gagnrýnendur út í heimi vilja setja hana í sama flokk og One Day, uppáhalds ástarsöguna mína. Ég bið ekki um meira. Að því sögðu þá hef ég ekki enn klárað Hvít fiðrildi (sem heitir Miss You á frummálinu) en ef hún heldur áfram að vera jafn góð þá mun ég án nokkurs vafa vaða beint í framhaldið Ever after sem kom út í fyrra.

Og mikið var ég glöð þegar Reese’s Book Club tilkynnti mér að von væri á nýrri spennusögu eftir Agöthu Christie nútímans, henni Lucy Foley. Hún heitir The Midnight Feast og kemur út í júní.

Ég er byrjuð að lesa Gáfaða dýrið eftir Sæunni Kjartansdóttur og höfundi tekst vel að setja fram flókin viðfangsefni á aðgengilegan máta. Kaflarnir eru stuttir og laggóðir sem ég er ánægð með því það er mikilvægt að leggja bókina frá sér eftir hvern kafla og aðeins velta fyrir sér lífinu og tilverunni.

Ever after kápa
The midnight feast kápa
Gáfaða dýrið kápa

Leslisti Sjafnar

Sumarið er fyrir smásagnasöfn er það ekki? Hvað er betra en að detta inn í eina og eina sögu á milli sumarverka? Ég hef verið að lesa ýmis söfn upp á síðkastið og þau sem hafa staðið upp úr eru Blood Milk Heat eftir Dantiel W. Montiz. Sögurnar í henni eru fjölbreyttar, en fjalla á einhvern hátt um mannleg samskipti. Sumar þeirra eru bara allt í lagi, vel skrifaðar en skilja ekki mikið eftir, en aðrar eru ótrúlega magnaðar og sitja í mér að eilífu. Thicker Than Water er ein slík, svo ótrúleg saga um klikkaða hluti að ég svitna bara. Svo er Exotics, stutt en áhrifarík saga um valdaójafnvægi.

Heads of the Colored People er smásagnasafn eftir Nafissu Thompson-Spires. Ég elska söguna The Necessary Changes Have Been Made sem fjallar á dásamlegan hátt um einhverskonar skrifstofuvaldabaráttugaslýsingarhring sem er svo yndislega raunverulegur að ég fæ ekki nóg af honum. Þá er önnur saga sem fjallar um raunveruleikaþáttarstjórnanda sem flytur inn með fjölskyldu með, tja, skrítin áhugamál, og svo mætti lengi telja. Allt gerist í raunheimum en höfundur varpar svo sérstöku og næmu ljósi á atburði að maður getur ekki annað en heillast.

Salt Slow er eftir breska höfundinn Juliu Armfield, sem einnig hefur gefið út skáldsöguna Our Wives Under the Sea, sem ég mæli líka með og skelli vonandi í færslu um við tækifæri. Sögurnar í þessu safni eru á mörkum töfraraunsæis og veruleika, og blanda saman alls kyns daglegu amstri og ævintýralegum umbreytingum. Þessi bók er mjög fullkomin til að lesa við sundlaugabakka held ég, eða í útilegu.

Sour Heart er uppáhalds smásagnasafnið mitt. Það er eftir kínversk-bandaríska höfundinn Jenny Zhang og fjallar um alls kyns upplifanir barna kínverskra innflytjenda í Bandaríkjunum. Sögurnar eru margbreytilegar og það sem ég fíla einna mest við skrif Zhang er hversu óvæntar persónurnar hennar eru. Þær eru ekki klisjukenndar, þær breyta ekki endilega „rétt“ og þær hafa ýmsar skrítnar skoðanir sem ég hef gaman af. Þá tengjast sögurnar innbyrðis og byggja lauslega brú á milli atvika og persóna.

Sorry Please Thank You eftir Charles Yu er bókin sem ég er að lesa núna. Hún er spekúleringaskáldsaga sem tekst á við alls kyns einmanaleika nútíma- (og framtíðar) mannsins.

Fyrra bindið

Leslisti Katrínar Lilju

Í sumar ætla ég að lesa eins mikið og ég get af því sem mig langar að lesa. Ég sökkvi mér oft niður í eitthvað eitt efni þegar ég les. Núna einblíni ég helst á bækur um einmanaleika, heimsendi, mannát, líkamsóhugnað, splattera og aðrar hrollvekjur. Sögur sem eru yfirfullar af annarlegu andrúmslofti, dauða og helst smá blóði. Það er eitthvað við þetta. Best af öllu þykir mér að vita sem minnst um bókina áður en ég byrja lesturinn. Og annað skilyrði er að hún sé stutt. Á listanum eru bækur eins og Obcene eftir Andrew Parker, Ankomst eftir Göhril Gabrielsen og Human sacrifices eftir María Fernanda Ampuero. Bækur eftir austur asíska höfunda hafa sérstaklega heillað mig á þessu ferðalagi mínu um hrollvekjur og ógeð. Má þar nefna Cannibals eftir Shin’ya Tanaka og Walking practice eftir Dolki Min og smásagnasafnið Nails and eyes eftir Kaori Fujino. Þessi listi er ekki tæmandi. Svo hefur mig lengi langað að lesa bækur Stephen King, en þær eru ekki stuttar og ég er enn að ganga í gegnum stuttubókatímabil núna, svo þær bíða betri tíma. Tek á móti meðmælum á bestu King bókinni þó. 

Lestu þetta næst

Mjóifjörður kallar

Mjóifjörður kallar

„Ég get nú ekki sagt að ég hafi kunnað vel við mig á frumkvöðlanámskeiðinu en mér þótti gaman að...

Heillandi jóladraumar

Heillandi jóladraumar

Íslenski dansflokkurinn býður upp á Jóladrauma þessa aðventu. Um er að ræða danssýningu fyrir börn...

Næturbrölt

Næturbrölt

Í fyrra lásum ég og drengurinn minn bókina Tannburstunardagurinn mikli og vorum hæstánægð. Næsta...

Að ánetjast eldri konum

Að ánetjast eldri konum

Ég hef verið áðdáandi Evu Rúnar núna í þónokkur ár. Ljóðabækurnar hennar og örsagnasöfn hafa verið...