Gríslingur á tímamótum

Piglet er alveg að fara að gifta sig. Hún er trúlofuð Kit, sem kemur af ríku fólki og hærri stétt en hún. Með hjónabandinu er Piglet að stökkva upp úr lægri stéttinni sem hún ólst upp í í Norður Englandi og yfir í efri millistétt. En þetta stéttastökk, þetta hjónaband, þetta fallega líf í glansandi nýju húsi, og brúðkaupsveisla fyrir mörghundruð manns, mun kosta sitt. Piglet þarf ekki eingöngu að skipta um persónuleika, fela rætur sínar, fjarlægjast fjölskylduna og bestu vinkonu sína, hún þarf líka að samþykkja leyndarmál Kit. Leyndarmálið sem hann sagði henni rétt fyrir brúðkaupið og er svo hræðilegt að Piglet veit ekki hvað hún á að gera. Annað en að gleypa kökkinn í hálsinum og halda áfram að skipuleggja.

Gríslingur á tímamótum

Það sem vekur fyrst áhuga lesenda er óvænt er nafn aðalpersónunnar, Piglet, sem væri á íslensku gríslingur, og hvers vegna hún ber þetta undarlega nafn. Í ljós kemur að þetta er gælunafnið sem fjölskylda hennar gaf henni í æsku vegna þess hversu mikið hún borðaði og allir kalla hana þetta enn á þrítugsaldri. Þetta nafn er sérstaklega merkingarþrungið í sögu Piglet, en þetta er ekki eingöngu sterk tenging við ræturnar sem hana dreymir um að slíta sig lausa frá, heldur kemur það beint inn á matartengt tráma og hvernig Piglet og systir hennar nota mat sem tól til að stjórna því litla sem þær fá stjórnað í hörðum heimi. Sést þessi stjórnarfíkn Piglet í matarsamhengi sérlega á því að hún hefur ákveðið að gera sína eigin brúðartertu, og enga venjulega tertu, heldur croquambouche, sem þeir sem horfa á The Great British Bake Off (og þeir sem kunna á franskan bakstur) þekkja sem ógurlegan turn af léttum, kremfylltum vatnsdeigsbollum sem haldið er saman af bræddum sykri og viljastyrk. Þó að rík tengdarfjölskylda Piglet hafi boðist til að sjá um allt veislutengt, þar með talið að borga, er Piglet hörð á því að hún muni eyða morgni brúðkaupsdagsins síns í eldhúsinu í því rúmlega fimm tíma verkefni sem það er að setja saman hina fullkomnu brúðarköku fyrir hið fullkomna brúðkaup. Stóra spurningin er ekki eingöngu hvort henni muni takast það, heldur hvort það verði þess virði.

Skapandi skrif um mat

Höfundur bókarinnar er doktor í skapandi skrifum með áherslu á hvernig skrifað er um mat í skáldskap. Bókin er ótrúlega vel og fallega skrifuð og lýsingar á mat eru merkilega sterkar og áhrifaríkar og tengja inn á tilfinningalíf aðalpersónunnar, sem er matgæðingur og eldar og bakar sama hvað bjátar á. Nú hef ég takmarkaðan áhuga á franskri matargerð en samt var gaman að eyða tíma í huga Piglet með sinn ofurfókus á uppskriftir. Mér finnst þessi bók alveg frábær, sennilega sú besta sem ég hef lesið á árinu, á lágstemmdan og fallegan hátt. Um leið og ég byrjaði að lesa hana spurði ég mig einmitt hvers vegna þessi bók er svona ógeðslega vel skrifuð, og komst að því með stuttu googli að höfundur hefur greinilega nýtt nám sitt vel í vinnslu sögunnar.

Þessi bók er fullkomin fyrir: Notalegan lestur fyrir þá sem vilja samt dýpri merkingu, táknmyndir og alls konar spennandi bókmenntafræðifyrirbæri. Sennilega er best að lesa hana á kaffihúsi með eitthvað sætmeti og jafnvel góðan kakóbolla. Hentar öllum sem elska vel skrifaðar bækur, enskar samtímabókmenntir og franska matargerð (eða bara Bake Off).

Lestu þetta næst

Eins konar dans

Eins konar dans

Moldin heit er önnur skáldsaga Birgittu Bjargar Guðmarsdóttur en fyrir hana hlaut hún...