Að horfast í augu við sjálfa sig

ljósbrot

Nýverið kom út bókin Ljósbrot eftir Ingileif Friðriksdóttur. Um er að ræða fyrstu skáldsögu höfundar en áður hefur hún gefið út nokkrar barnabækur ásamt Maríu Rut Kristinsdóttur, eiginkonu sinni, þeirra á meðal er Úlfur og Ylfa – Ævingýradagurinn. Ingileif og María Rut eru þekktar baráttukonur fyrir réttindum hinsegin fólks og hafa meðal annars haldið úti fræðsluvettvanginum Hinseginleikanum. Rauði þráðurinn í barnabókum þeirra hefur verið að fagna fjölbreytileikanum með fjölbreyttari birtingarmyndum.

Birtingarmyndir hinsegin fólks eru af skornum skammti í íslenskum skáldsögum líkt og í barnabókum. Þó hinsegin höfundar hafi birst á skáldasenunni og skrifað vinsælar bækur með hinsegin persónum undanfarna tvo áratugi eða svo er klárlega þörf á fleiri og fjölbreyttari röddum. Þess vegna var skemmtilegt að á sama tíma og Ingileif gaf út Ljósbrot gaf Bjarni Snæjbjörnsson út bókina Mennsku.

 

Skandall í forsetakosningum

Tvær sögur eru í gangi í bókinni Ljósbrot, annars vegar er það saga Kolbrúnar sem er farsæll framkvæmdastjóri og fjölskyldukona en hún er í forsetaframboði og hins vegar er það Dóra, sem er að feta sig á fyrsta ári í menntaskóla. Í báðum tilfellum þurfa konurnar að horfast í augu við sig sjálfar þegar óvæntar tilfinningar gera vart við sig. Það er skemmtileg tilviljun að bókin komi út í kringum forsetakosningar þar sem Ingileif sagði sjálf í viðtali að hún hefði byrjað á bókinni fyrir einhverjum árum síðan og því alls ekki vitað að það yrðu forsetakosningar þegar hún kæmi út. Það er því lesendum ferskt í minni hve hart getur verið gengið að frambjóðendum en Kolbrún þarf að takast á við stórar spurningar um sjálfa sig og vera hugrökk þegar stefnir í skandal í kosningabaráttunni.

Grípandi saga

Ég hafði gaman af lestrinum, bókin er stutt, læsileg og hélt mér vel við efnið. Ég fann alltaf þörf til að grípa í hana fljótt aftur þegar ég lagði hana frá mér og las hana því á einungis tveimur dögum. Hún mun því eflaust henta vel í sumarlestur. Styrkleiki bókarinnar að vera svona stutt er ef til vill veikleiki hennar líka. Ég hefði viljað fá aðeins meiri dýpt, sérstaklega í söguna um Kolbrúnu. Kosningabaráttan virðist ganga mjög hratt yfir og ekki mikið af málum sem koma upp á meðan, það hefði verið hægt að bæta við dramatískum senum í þeim hluta sögunnar. Mér fannst saga Dóru sterkari, Ingileif hefur talað opinskátt um að hafa ekki komið út úr skápnum fyrr en eftir menntaskóla og lýsir á mjög sannfærandi hátt bæði hve ruglingslegar tilfinningarnar sem Dóra finnur gagnvart bekkjarsystur sinni eru og hvað hinsegin fólk getur þurft að takast á við ekki bara varðandi fordóma annarra heldur sína eigin. Lesandinn finnur fyrir sársauka Dóru og það er erfitt á köflum að lesa um það hvernig hún sem svona ung og óreynd manneskja kemur fram við sjálfa sig og aðra. Það hefði þó einnig mátt bæta í sögu Dóru, lesandinn vill vita meira um báðar þessar persónur.

Það er gaman að fá nýja rödd á skáldsagnavettvanginn og vonandi mun Ingileif skrifa fleiri grípandi skáldsögur í framtíðinni!

 

Lestu þetta næst

Eins konar dans

Eins konar dans

Moldin heit er önnur skáldsaga Birgittu Bjargar Guðmarsdóttur en fyrir hana hlaut hún...