Jarðsyngdu mig

Ég fékk ljósbláa bók að gjöf. Framan á kápu stendur aðeins titill verksins með smáu, hvítu letri. Nafn höfundar er á kili bókar. Hún er dásamlega falleg í einfaldleika sínum og lokkar augað að sér. Það eina sem ég vissi um bókina var að hún væri eftir fyrrum ritlistarnema, hina pólsku Maó Alheimsdóttur, sem hefur getið sér gott orð sem skáld sem skrifar á íslensku. Meðal annars hefur hún gefið út ljóðabækurnar Ljóðatal og sambækurnar Ljóð n°5 og Innvols, og útgert útvarpsþættina „að fjallabaki“ árið 2021 í samstarfi við RÚV. Veðurfregnir og jarðarfarir er hennar fyrsta útgefna skáldsaga, og þvílík skáldsaga.

Fjaðurgrös og maríutásur 

Lena er veðurfræðingur. Hún skoðar skýin með ástmanni sínum, Fannari. Þau eru úti í náttúrunni og velta fyrir sér uppruna orðanna maríutásur og íhuga að skrifa saman bók um ský. 

Heimur Lenu og Fannars leysist upp. Á næstu síðum tekur ný frásögn við. Lena er keðjureykjandi og innandyra, Fannar er á bak og burt. Lena tekst á við máttleysislega reiði nútímamannsins í siðlausu samfélagi.

                  Ég reyni að mynda mínar eigin skoðanir en ef ég er ekki með þá er ég á móti, tilheyri annað hvort eða er skilin út undan. Valkostir eru jafn margir og sjónarhorn flokkanna sem eru búnir að svipta þig eignum þínum og henda grænu loforði á haugana þar sem flokkaða plastinu þínu er brennt í nafni enn grænni stefnu. (bls 13).

Hvar hafa dagar Lenu lit sínum glatað?

Hráslagalegur veruleiki

Bókin er skrifuð út frá sjónarhorni hinnar pólsku Lenu, sem talar reiprennandi frönsku og íslensku, hefur numið veðurfræði í París og sopið hinar ýmsu fjörur. Kaflarnir skipta um tímabil í lífi Lenu sem kynnist Fannari og syrgir sambandið við hann til skiptis, nýtur þess að vera með vinum sínum og hunsar þá, sekkur sér í vinnu og finnst hún andlaus þess á milli. Þessi skipting í hluta nær að gera Lenu að mjög heilsteyptum og sterkum karakter sem á sér óteljandi hliðar. Hún er ekki bara duglegur veðurfræðingur, hún er líka ástsjúkur kjáni og góð vinkona og vond vinkona og venjuleg vinkona og áhugakona um göngur og jökla og náttúru, dóttir, systir og hún sjálf. 

Texti bókarinnar er ótrúlega fallegur, bæði léttur og leikandi en um leið djúpur og beinskeyttur, ákveðinn í meiningu sinni sama þó margt megi lesa úr honum

Gáttaflakk

Hvernig hoppað er á milli kafla og tímabila er þá gert á mjög fágaðan og vel útpældan hátt svo lesandi missir aldrei þráðinn. Maó lýsir eðal íslenskum aðstæðum eins og glataðri umferð og sundlaugarvandræðilegheitum jafn vel og hún lýsir búddískri uppljómunarleit og flóamörkuðum í París og ávaxtatínslu og andadrápi í sveitum Póllands.

                    Amma brosir líka og samstundis finnst stelpunni að hún sé orðin stór og þurfi ekki lengur að gráta yfir öndinni sem verður að súpu.

Formæður Lenu og systur eiga líka sinn þátt í sögunni. Wanda, mamma Lenu er mjög trúuð og lærir grasafræði. Það að sjá hvernig henni líður sem ungri konu og hvernig mæðgnasamband hennar við dætur sínar er fallegt og jafnvel átakanlegt. Dýpt upplifana hennar nýtur sér vel í færum höndum Maó. Þá er amma Lenu og Helena frænka hennar aðrar konur frá eldri kynslóðum sem skipta máli í framvindu bókar, ættarblóðið sem rennur í Lenu er að hluta til þeirra, örlög þeirra eru samhliða í endalausri hringiðu tímans.

Fegurð

Að öllu drama slepptu þá elska ég þessa bók. Ég var að lofa hana í hástert við maka minn, og tala mikið um þennan ferska andblæ sem rödd Maó er í íslensku bókaflóruna, hversu dásamlega fallegt mál hún notar og hversu mikið við þurfum á fleiri innflytjendum að halda sem velja að skrifa á íslensku. Maki minn, sem er sjálfur innflytjandi, benti mér á að ég þyrfti að segja þetta án þess að hljóma condescending. Ég vona innilega að ég geti gert það, ég get rétt ímyndað mér hversu glatað það er að skrifa heila æðislega bók og eina hrósið sé omg hún skrifaði á íslensku vaaaaaaá. Svo ég segi þetta fagmannlega: hún er skrifuð á ótrúlega ljóðrænu og heillandi, fallegu máli sem er bæði aðgengilegt og töfrandi og opnar á víddir tungumálsins sem ég hafði sjálf aldrei áður séð. 

Lestu þetta næst

Góðmæðraskólinn

Góðmæðraskólinn

Varst þú að eignast barn? Ertu bugað heima með ungviðið og langar bara í smá pásu frá serjósi,...

Glöggt er gests augað

Glöggt er gests augað

Fyrir nokkrum árum komst ég að því að finnsk kona að nafni Satu Rämö, sem búsett væri á Ísafirði,...

Fangelsi hugans

Fangelsi hugans

Hvað ef þú værir geimvera? Og geimskipið þitt hefði skilið þig eftir á jörðinni, í venjulegri,...

Anniemenni

Anniemenni

Anniemenni (e. Annie bot) eftir Sierra Greer  Annie er vélmenni. Hún er með hleðslustöð í hælnum,...

Með iðrun úti

Með iðrun úti

Þrjár stúlkur á sautjánda ári pyntuðu skólasystur sína og kveiktu í henni í rólega breska...