Varst þú að eignast barn? Ertu bugað heima með ungviðið og langar bara í smá pásu frá serjósi, slefi og vanþakklæti? Ertu líka að standa í skilnaði við manninn sem sagðist elska þig að eilífu en er nú fluttur inn með rauðhærðum jógakennara sem borðar bara vegan mat og vill að 18 mánaða dóttir þín sé glútenlaus?

Ef svarið við þessum spurningum er ertu í svipuðum sporum og Frida, aðalpersóna bókarinnar Góðmæðraskólinn eftir Jessamine Chan sem kom út 2022.

 

Góðar mömmur og vondar 

Eftir erfiðan skilnað þar sem Frida stendur ein og vinalaus í úthverfi Philadelphiu, langt frá foreldrum og lífinu sem hún átti með manni sínum fyrrverandi í New York, gerir Frida hræðileg mistök. Hún skilur Harriet, litlu dóttur sína, eftir eina heima. Hún keyrir í vinnununa. Hún fær sér kaffi. Hún er í móki. Heima grætur Harriet, líkamlega örugg í hoppugrind. Andlega óörugg, hrædd og ein.

Barnaverndarnefnd tekur Harriet, en það eitt er ekki nóg. Í samfélaginu sem Frida býr í, sem er alveg eins og bandarískt nútímasamfélag að því viðbættu að tækninni hefur fleygt aðeins fram, þurfa vanhæfir foreldrar að fara í skóla. Í skólanum búa foreldrarnir og mega ekki fara, rétt eins og fangar. Það er skipt eftir tveim kynjum, og foreldrarnir þurfa að haga sér óaðfinnanlega til þess að eiga einu sinni örlítinn möguleika á að hitta börnin sín aftur.

Stóri bróðir nútímans

Þessi bók er fallega skrifuð og ógeðslega sár. Lesandi dettur inn í hræðilegan heim Fridu, heim einmanaleika, örvæntingar og eftirlits. Stóri bróðir er orðin stóra mamma, og hvert feilspor er enn einn nagli í líkkistu sambands þíns við barnið þitt. Mistökin sem leiða foreldrana í foreldraskólann eru allt frá því að skilja barn eftir í pössun hjá ömmu, sem er ekki skráð sem ábyrgur forræðisaðili á meðan fátæk mamman vinnur aukavinnu, í að beita alvarlegu ofbeldi. Kynþátta- og stéttafordómar spila jafn stóran þátt í því hver fær séns og hver ekki, og veitir það bókinni raunsannan blæ miðað við nútímasamfélag.

Þá finnst mér gott að Frida er mjög marglaga persóna, hún er ekki bara mamma eða bara fyrrverandi eiginkona eða neitt þannig, hún er sín eigin persóna sem á vonir og þrár og erfiðleika. Það sama gildir um hinar mömmurnar, hversu góðar eða vondar þær eru, sem og fyrrverandi eiginmann Fridu, sem er algjör fáviti á margan hátt, en í grunninn bara breiskur maður sem vill engum illt. Bakgrunnur Fridu sem asísk-amerísk er einnig nýttur á áhugaverðan hátt til að vekja athygli á þeim sérstöku erfiðleikum sem hún horfist í augu við, til að mynda með hvaða áhrif það hefur á hana að dóttir hennar sé alin upp á hvítu heimili, hvernig komið er fram við hana sem staðalmynd fremur en manneskju og samband hennar við sína eigin foreldra

Ég mæli mikið með því að lesa þessa bók en bara þegar maður er í andlegu jafnvægi. Ég þurfti að taka mér langa pásu áður en ég kláraði, en hún var algerlega þess virði.

Fullkomin fyrir: Tárvotan reiðilestur í fæðingarorlofi þegar barnið er að nálgast tveggja ára og er ekki með leikskólapláss, eða kósý sunnudagslestur. 

Lestu þetta næst

Eins konar dans

Eins konar dans

Moldin heit er önnur skáldsaga Birgittu Bjargar Guðmarsdóttur en fyrir hana hlaut hún...