Ég hef verið áðdáandi Evu Rúnar núna í þónokkur ár. Ljóðabækurnar hennar og örsagnasöfn hafa verið í miklu uppáhaldi hjá mér og þá sérstaklega ljóðabókin Fræ sem frjóvga myrkrið sem kom út árið 2018.

Nú hefur hún skrifað sína fyrstu skáldsögu og ber hún þann skemmtilega titil Eldri konur. Hér segir frá ónefndri konu sem fjallar um allar þær konur sem hafa heltekið huga hennar í gegnum lífið. Og þær eiga það allar sameiginlegt að vera töluvert eldri en hún.

Að steypa sér í glötun

Lesandi kynnist breyskri aðalsögupersónu bókarinnar í gegnum frásagnir hennar af fjölbreyttum og rómantíseruðum konum sem ganga inn og út úr lífi hennar. Oft dáist konan að þeim úr fjarlægð, uppfull af draumórum um ástarævintýri þeirra saman sem sjaldan raungerast. Konan segist alltaf hafa „verið rótlaus og vannærð.“ (bls. 7) Lífið verður blómlegra og meira spennandi með áfengi, en það sem gerir hana alveg hömlulausa eru eldri konur:

„Efnið mitt, það sem gerir mig heila, fyllir mig krafti, lífi fær mig til að engjast um af fráhvörfum og þráhyggju, lemja, slá, fær mig til að steypa mér í glötun, eru eldri konur.“ (bls. 7)

Barnæska hennar var erfið, hún flakkaði á milli félagsíbúða með Hildi, móðursystur sinni, og upplifði mikið stjórnleysi þar sem hún gat aldrei kallað Hildi mömmu og Hildur gat aldrei komið henni í alvöru móðurstað. Hún var inn og út úr fangelsi og djammaði óhóflega. Utan frá virðist söguhetjan þó frekar heilsteypt, hún flakkar á milli ólíkra vinna, menntar sig, fer í listaháskólann og útvegar sér kærustur sem eru henni trúar. Það breytir þó ekki kjarna hennar sem er óstöðugur.

Mikilvægar konur

Eldri konurnar eru jafn fjölbreyttar og þær eru margar, nokkurra barna húsmóðir, körfuboltaþjálfari, súludansmey, kröfuhörð listakona, miðaldra kona sem hún hittir í örstutta stund í barnaafmæli og fóstran hennar frá því hún var í leikskóla. Með því að beina kastljósinu á allar þessar konur tekst söguhetjunni að skauta framhjá þeim konum sem í raun og veru hafa verið mikilvægastar henni í gegnum lífið. Það eru móðursystir hennar Hildur, kærastan Svanhildur, dóttirin Berglind og svo að lokum móðir hennar sem er eins og vofa sem sveifar yfir frásögninni. Sú sem ekki má nefna. Mögulega er ég að vera full fraudísk en það má draga þá ályktun að fjarverandi móðir hennar sé ástæða þráhyggju aðalpersónunnar gagnvart eldri konum. Þessari stöðugu leit að samþykki og ást kvenna sem eru óínáanlegar.

Ég skemmti mér dásamlega vel við lesturinn. Eva Rún ber hér fram á borð svo breyska, hvatvísa og djúsí sögupersónu að maður getur ekki annað en beðið eftir því hvert þráhyggjan tekur hana næst. Hvernig henni tekst að eyðileggja fyrir sér og ýta konunum sem raunverulega elska hana frá sér. Hún er skemmd og svolítið brengluð en lýsingarnar úr lífi hennar eru líka oft á köflum kómískar og fullar af háði. Þetta gerir Eva Rún einstaklega vel, að dæla kaldhæðninni inn í textann og skapa andrúmsloft sem heldur lesandanum föstum við blaðsíðuna.

Lestu þetta næst

Að syrgja er að elska

Að syrgja er að elska

Daníel Daníelsson er menntaður í sagnfræði og ritlist og hefur nú gefið út sitt annað skáldverk,...