Tjörnin er nýjasta bók Rán Flygenring. Um er að ræða ríkulega myndlýsta bók fyrir börn. Bókin hefur þegar hlotið Bóksalaverðlaunin og tilnefningu til Íslensku bókmenntaverðlaunanna og það er ekki að undra enda er hér á ferðinni virkilega vönduð, grípandi, litrík og lífleg bók fyrir víðan aldur. Rán fékk Norðurlandaráðsverðlaunin árið 2023 fyrir bókina Eldgos.
Garðurinn okkar – garðurinn minn
Sagan fjallar um Fífu og vin hennar Spóa sem búa í fjölbýli með sameiginlegum garði. Fífa er sögumaðurinn og segir frá hvernig garðurinn er yndisleg sameign sem allir íbúar njóta í hvers kyns veðráttu eða árstíð. Einn daginn uppgötva þau undarlega dæld í grasinu í miðjum garðinum. Þau ákveða að rannsaka þessa dæld og upp úr krafsinu finna þau gamlan tjarnarbotn sem þau ákveða að fylla samstundis af vatni. En tjörnin verður svo vinsæl að Fífu og Spóa verður nóg um, að minnsta kosti Fífu sem vill eiga tjörnina ein undir því yfirskini að vilja vernda hana. Þarna laumast því svolítil táknsaga um auðlindir, lýðræði og einokun en bókin býður upp á umræður við börnin um hver er það virkilega sem eigi náttúruna eða sameiginleg rými. Því þarna koma einnig við sögu dýr sem að telja sig auðvitað eiga garðinn. Sagan fjallar líka um að taka eftir umhverfi sínu, hvernig það getur oft legið saga á bak við hlutina og að það sé rétt að staldra við og líta betur í kringum sig.
,,Plís getum við lesið hana aftur’’
Auðvitað er nauðsynlegt að fá með-gagnrýnanda á réttum aldri í svona skáldverk og er dóttir mín þar glögg og nokkuð kröfuhörð. ,,Hún er svo skemmtileg!” sagði Freyja litla, fjögurra ára, sem biður alltaf um að „Plís lesa hana strax aftur“ þegar við lesum. Í fyrstu hélt ég að textinn væri of mikill á hverri blaðsíðu fyrir hana en svo reyndist ekki vera. Sagan greip hana. Og ýmislegt forvitnilegt er að finna og sjá á hverri blaðsíðu. Þarna er til að mynda tækifæri til að auka orðaforða ýmissa verkfæra og skordýra.
Töfrandi garður
Já ýmislegt forvitnilegt er hægt að finna í hvert skipti sem bókin er lesin aftur. Hún í raun verður alltaf betri með hverjum endurlestri. Þetta er augljóslega einhvers konar töfra-garður hjá Fífu og Spóa þar sem margt er um að vera. Meðal annars lifna styttur við sem að dragast að tjörninni og við Freyja erum enn að velta fyrir okkur lítilli stelpu sem að virðist fela sig á hverri blaðsíðu, hvort hún sé draugur eða nágranni er gaman að velta fyrir sér og túlkar hver á sinn hátt.
Myndlýsingarnar stórkostlegar
Myndlýsingarnar fylla alveg út í hverja einustu blaðsíðu og þær eru svo litríkar og lifandi að það er eintóm ánægja að skoða og lesa í þær. Rán er augljóslega góður sagnasmiður en í myndlýsingunum er hún algjör meistari. Hún nær fram svo mikilli sögu og tilfinningum í persónum sínum að auðvelt er að lifa sig inn í verkið.
Tjörnin er virkilega vönduð og vel úthugsuð bók. Myndlýsingarnar og persónusköpunin lifna við á blaðsíðunum og sagan er spennuþrungin og töfrandi. Þetta er eiguleg bók sem að hentar börnum allt frá fjögurra ára aldri til tólf ára.