Ofbeldi verður að vögguvísu

21. desember 2024

Mold er bara mold
Bók 1: Með Venus í skriðdreka

Eftir Almar Stein Atlason.

Hafið þið einhvern tímann komist í svo góða bók að þið þurfið að láta setja upp hjá ykkur þvaglegg og fá næringu í æð til að geta lesið hana í einni beit án þess að stoppa? Nei, ekki ég heldur, en fyrsta bókin í þríleiknum Mold er bara mold, eftir Almar Stein Atlason, listamann og rithöfund, komst ansi nálægt því hjá mér.

 

Háðsádeila á allt

Í þessari fyrstu bók í þríleik Almars, sem gaf þær út allar í einu á árinu hjá Sögum útgáfu, kynnist lesandinn nafnlausum sögumanni bókarinnar, systur hans, Berglindi Sól, óheppnum foreldrum þeirra og gallagripnum Valdimari Bergmann, föðurbróður systkinana. Valdimar og Berglind verða svo aðalpersónur í margslunginni, farsakenndri, en um leið óþægilega raunsærri atburðarás þar sem baráttan við kerfið tekur á sig ýmsar, mislöglegar myndir.

„Það eru tvær tegundir af myrkri til í heiminum. Kalda, ímyndaða, kaþólska myrkrið sem birtist okkur í málverkum, langdregnum sinfóníum, erfðasyndum eða gotneskum arkítektúr, þaðan sem allar samsæriskenningar eru ofnar. Og loðna myrkrið. Myrkrið sem við finnum í botninum á of mörgum glösum, í ókunnum rúmum og í minningum bernskunnar. Þetta loðna myrkur hefur tilhneigingu til að þykjast vera svaðalegur töffari til að byrja með.“ bls 253

Öllu gamni

Bókin er feiknavel skrifuð, stíllinn er ferskur og skemmtilegur og nýtir höfundur talmál á áhrifaríkan hátt sem bæði eykur á raunsæi bókarinnar og skapar hverri persónu einstaka rödd. Þá er bókin brotin upp hér og hvar með öðruvísi bókmentastílum, eins og leikhandriti, sem heldur lesanda á tánum. Bókin tekur ýmsa misskiptingu og óréttlæti núverandi valdakerfis fyrir og býður í háskadans útlaga sem taka ráðin í sínar hendur. Þó margt í frásögninni sé í nágrenni absúrdisma er þó þessi nístandi, raunverulegi þráður sannra vandamála og misréttis sem heldur lesanda límdum við efnið og vekur upp samkennd og reiði.

„Þegar við horfum á það sama og allir í kring um okkur horfa á. Borðum það sama og aðrir. Þegar við höfum sömu grunnmenntun, fréttum sömu fréttir og förum á sömu staðina. Þá verður fegurðin þekkt stærð. Smekkur verður góður eða slæmur. Kúgun fær sömu áhrif og frelsi. Kaffæring verður að öryggi og skynsemi, grár og svartur verða að smekkvísi og háttsemi. Nútímalýðræði fær þá nánast sama bragð og raunverulegt valdafrelsi. Ofbeldi verður að vögguvísu.“ Bls.149

 

Og hvað svo?

Upphaflega hugmyndin var að lesa allar þrjár bækurnar og dæma svo verkið í heild, en nú þegar sú fyrsta er upplesin og ég er rétt byrjuð á næstu bók, ákvað ég að ráð væri að fjalla um þær hverja fyrir sig, því af nógu er að taka. Þá virðist frásagnarstíllinn og framvindan breytast mikið milli bóka þannig að þó að verkið sé ein heild sem stendur saman, má ekki gleyma að hver bók fyrir sig er einnig sjálfstæð.

Ég er þó virkilega spennt að halda áfram í undarlegum, fallegum og örlítið sjúkum söguheimi Almars Steins og persónanna sem hann hefur skapað af næmni, húmor og manngæsku.

Lestu þetta næst

Valkyrjur valda óskunda

Valkyrjur valda óskunda

Þegar ég var krakki sótti ég rosalega mikið í ævintýrabækur og furðusögur. Það voru bækurnar sem...

Upp og niður stiga

Upp og niður stiga

Ljóðakollektívið Svikaskáld er orðið flestum kunnt enda hafa nú fæðst fimm skáldverk frá þessari...