Emil Hjörvar Petersen ætti ekki að vera ókunnugur þeim sem fylgst hafa með íslenskum fantasíubókmenntum síðustu ár. Hann hefur fyrir löngu markað sér sess sem einn af okkar helstu fantasíuhöfundum með verkum sínum, m.a. bókunum um Bergrúnu Búadóttur miðil (Víghólar, Sólhvörf, Nornasveimur og Skuld). Þá hefur hann einnig sent frá sér bækur á borð við Dauðaleit, Bannhelgi og Hælið, auk bókaseríunnar Saga eftirlifenda. Allt eru þetta bækur sem hafa tryggt honum fastan lesendahóp.
Fyrir nokkrum vikum sendi Emil frá sér nýja bók, Eilífðarvetur, en hún er sjálfstætt verk með nýjum persónum og nýju sögusviði.
Erfiður heimur í eilífðar frosti
Í Eilífðarvetur fer Emil með lesendur nokkur hundruð ár inn í framtíðina í dystópískt landslag, þar sem Ísland er ekki lengur landið sem við þekkjum heldur einangruð eyja. Þar ríkir endalaus vetur með reglulegum aftakaveðrum sem setja sitt mark á lífsbaráttu fólksins sem þar býr. Samfélagið skiptist niður í nokkra ættflokka en jafnframt lifir þar fólk sem er utan þeirra. Sumir búa í litlum bæjum og þorpum en aðrir lifa á sífelldu flakki. Þetta er heimur þar sem fólkið þarf að búa yfir mikilli hörku, útsjónarsemi og þrautseigju til að lifa af. Sagnaþulirnir Tara og Breki eru ein af þeim sem lifa á sífelldu flakki og draga fram lífið með því að ferðast á milli og segja fólki sögur í skiptum fyrir nauðsynjar. Á einum stað þar sem þau hyggjast segja fólki sögur hitta þau fyrir vélkonuna Maríu sem grafist hafði undir rústum í fortíðinni, áður en þessi endalausi vetur skall á og er nú fangi þeirra sem fundu hana. Tara og Breki bjarga Maríu í von um að sú þekking sem hún býr yfir muni verða til þess að varpa ljósi á ástæður þess að heimurinn er eins og hann er og gera lífsbaráttu fólks betri.
Vel útfærður söguheimur og persónur
Þótt heimurinn sem Emil setur fram í þessari bók sé nýr, er hann kynntur á einfaldan og aðgengilegan hátt. Hann fellur ekki í þá gryfju sem margir fantasíuhöfundar gera, að byggja söguheim sinn í of mörgum lögum sem krefst mikilla og flókinna útskýringa. Þvert á móti er allt útskýrt á þann hátt að auðvelt er að sjá heiminn fyrir sér. Hann er passlega flókinn með skýra heimssýn ólíkra persóna og ættflokka og sannfærandi frásögn um hvernig staða þessa heims varð eins og hún er.
Aðalpersónurnar Tara, Breki og vélkonan María mynda áhugaverðan þríhyrning í frásögninni. Breki stendur upp úr sem margslungin og sannfærandi persóna sem virðist skynsegin, og María er eðlilega eftirminnileg, hún er eina vélkona sögunnar. Mögulega hafði það áhrif á skoðun mína á Maríu að ég tengi talsvert við eitt af þeim störfum sem hún vann áður en þessi varanlegi vetur skall á og ég tengi talsvert við hennar upphaflega eiganda (þið verðið að lesa bókina til að skilja hvað ég á við þar). Smáatriðið að framleiðandi hennar skyldi heita G.O.L.E.M. var líka einstaklega skemmtilegt og vakti hjá mér hugrenningar til Terry Pratchett. Tara, sem átti að bera mest af söguþræðinum, fannst mér aftur á móti síst af þeim. Hún er vissulega sterk, ákveðin og úrræðagóð, en mér fannst hún ekki bjóða upp á neitt sem maður hefur ekki séð áður. Hún var dálítið of nálægt staðalmynd kvenkyns fantasíukaraktera nútímans, og vantaði eitthvað auka krydd til að hún yrði jafn minnisstæð og félagar hennar.
Meira takk.
Eilífðarvetur er grípandi og saga með vel útfærðu sögusviði og persónum sem gaman er að fylgja. Bókin er spennandi, hugmyndirnar ferskar og heimurinn býður upp á ótal möguleika. Ég væri vel til í að lesa meira úr þessum heimi – jafnvel spila gott D&D-ævintýri sem byggði á honum!
Eina sem truflaði mig er að sagan mætti vera lengri og dýpri en hún skilur klárlega eftir sig hungur í meira. Kannski er það bara styrkur hennar? Að skilja lesandann eftir með löngun til að snúa aftur í þennan kuldalega en heillandi heim.






