Nýlega kom út framhald bókarinnar Dauðaleit eftir Emil Hjörvar Petersen inn á Storytel. Bannhelgi kemur út sem hljóð- og rafbók en hún hefur á örskömmum tíma tekið yfir fyrsta sæti hljóðbókalistans, enda var spennusögunni Dauðaleit virkilega vel tekið fyrir ári síðan.

Í Bannhelgi snýr rannsóknarlögreglumaðurinn Halldór Kjartansson aftur. Í þetta sinn þarf hann að kljást við dularfullt andlát konu í Skagafirðinum. Eins og lesendur kynntust í Dauðaleit er Halldór sérfróður um hið yfirnáttúrulega, dulmagnaða og það sem erfitt er að útskýra með hefðbundum rannsóknaaðferðum. Það hefur gefið honum ákveðið orðspor og er hann kallaður til þegar lögreglumálin virðast óleysanleg. 

Hryllingur og óhugnaður

Málið snýst um undarlegt andlát á hótelherbergi í Varmahlíð. Lena Nowak deyr á óútskýranlegan hátt í sama herbergi og maður hennar og tveir synir. Það virðist sem hún hafi drukknað í saltvatni, lengst inni í landi og langt frá sjó. Frásögnin byrjar í miðjum klíðum, Halldór er staddur í jarðarför systur sinnar, Jöru, sem honum var mjög annt um. Hann getur ekki horfst í augu við sorgina og grípur því um leið tækifærið þegar skyldan kallar og drífur sig út á land án þess að klára erfidrykkjuna. Með sér dregur hann æskuvinkonu sína, Möggu, sem er blaðamaður hjá Púlsinum, miðli sem þekktur er krassandi rannsóknablaðamennsku. Þó að það sé illa séð að hún fái svo náinn aðgang að lögreglumáli, þarfnast Halldór hennar sem sálræns stuðnings.  

Hasarinn tekur svo við þegar komið er á sögusvið bókainnar í Varmahlíð og á Sauðárkróki. Hryllilegir og óhugnanlegir hlutir henda fólkið í bænum og Halldór og Magga komast ítrekað í hann krappann. Takturinn í bókinni er hraður og heldur hlustandanum svo sannarlega við efnið. Það er ekki hægt að láta sér leiðast við hlustunina því söguþráðurinn sveigist endalaust í óvæntar áttir og tala grunaðra fjölgar hratt. Andrúmsloftið er myrkt og veturinn er allsráðandi með öllu sínu skammdegi. Draugar, vættir og ógnvænlegar sýnir spila stórt hlutverk í bókinni. Hlustandinn er á báðum áttum hvort Halldór og Magga séu hér að berjast við dulræn öfl eða morðingja af holdi og blóði. Alla bókina er tiplað fínlega á þessari línu og því var oft erfitt að hlusta seint að kvöldi. 

Ádeila á útlendingahatur

Eitt af umfjöllunarefnum bókarinnar er hatur á fólki sem er af erlendu bergi brotið, en slíkir fordómar lifa því miður góðu lífi í okkar samfélagi. Í sögunni skapar Emil Hjörvar þjóðernishyggjuhóp á Sauðárkróki sem ber heitið Hreint Ísland. Þar eru systkinin Árni og Arnlaug fremst í flokki og eru alfarið á móti því að erlent fólk fái að blandast við íslenskt samfélag. Þau eiga að hafa hrópað að Lenu „að læra íslensku almennilega, drullast til að verka sinn fisk og hunskast svo rakleiðis aftur heim til Póllands.“ (4. kafli, Bannhelgi) Þau liggja auðvitað undir grun vegna þessa, en í bókinni er alveg skýrt að hegðun þeirra sé ömurleg og þessi nýja hreyfing innihaldi aðeins örfáar hræður. Þetta er þó raunveruleg ógn sem steðjar að okkar samfélagi og kann ég að meta hvernig orðræðan í kringum þau systkini, og miður góðu hreyfinguna þeirra, er í bókinni. 

Lesendur fá einnig að kynnast Halldóri betur, inn í frásögnina fléttast endurminningar úr fortíð hans sem hjálpa lesandanum að skilja hvaðan þessi furðulegu áhugamál hans koma og varpa ljósi á þá hluti sem hann þurfti að ganga í gegnum til að verða að þeim manni sem hann er í dag. Þetta byggir vel upp persónu Halldórs og því sem við komumst um hann í Dauðaleit. Það má segja að þó að atburðir Bannhelgi gerist örskömmum tíma þá sér lesandinn ákveðna breytingu í fari Halldórs í lok bókar en þetta mál og nýlegt andlát systur hans fær hann til að líta inn á við. 

Bannhelgi er hröð og óhugnanleg spennusaga sem gefur Dauðaleit ekkert eftir. Hún er uppfull af hasar, óvættum og raunverulegri ógn. Það kom mér í raun á óvart hversu uppfull af snúningum og óvæntum atburðum hún innihélt. Lesanda sem þyrstir í myrka og dulræna spennusögu verður alls ekki fyrir vonbrigðum. 

Lestu þetta næst