Blái Pardusinn – hljóðbók er ekki hljóðbók. Hún er skáldsaga sem kemur út í harðspjaldaútgáfu og fjallar um hljóðbók. Hljóðbókina Bláa Pardusinn. Auk þess að fjalla um hljóðbók fjallar skáldsagan um þrjár persónur, þau Bjarna, Unni og Elínu Helenu, sem öll eiga það sameiginlegt að vera að hlusta á hljóðbókina. Áhrif hlustunarinnar á persónur bókarinnar og þeirra hugleiðingar um eigið líf og heiminn er uppistaða skáldsögunnar sem höfundur fléttar skemmtilega og grípandi með kímni, næmni og frábærum ritstíl.
Persónuppbygging sem byrjar vel en verður endasleppt
Bókin er stutt og fljót aflestrar. Oft er snerpa við hæfi í skáldverkum og skortur á endurtekningum og auka skrauti til bóta, en hér líður lesanda eins og bókin sé ekki nægilega tilbúin. Fyrsti hlutinn, sá sem fjallar um Unni, lofar mjög góðu, persónuuppbygging hennar byrjar vel og lesanda finnst hann komast vel inn í hennar hagi. Þegar leikurinn snýst til Bjarna er það sama enn uppi á teningnum, en það hvernig Bjarni er skilinn eftir verður aðeins endasleppt. Þegar komið er að Elínu er svo litlu púðri eytt í að skapa hana sem manneskju að ég hefði heldur viljað að persónurnar væru bara tvær, og Elín birtist aðeins á jaðrinum til að drífa söguna áfram, því munurinn á persónubyggingu hennar og hinna er svo mikill.
Lesandi vill meira
Þá er það skáldsagan sem bókin snýst um, hljóðbókin Blái Pardusinn. Ef meiri tíma hefði verið eytt í ritun bókarinnar í heild þá hefði hennar hluti verið notaður sem uppbrot í nútímann, í tímann sem við eyðum með Unni og Bjarna, og kannski Elínu. Það hefði verið hægt að skrifa söguna á sterkari hátt, þannig að frásögnin af hinni ævintýralegu konu njóti sín. Þá er ekki þar með sagt að það sé ekki áhugavert að lesa um hana núna, og það hversu vel höfundur skapar aðstæðurnar sem myndast þegar fólk hlustar á hljóðbækur og dettur inn og út, er frábær aflestrar. En mér finnst allar persónurnar eiga meira og betra skilið. Ég vildi að við fengjum að vita meira um ástarvonir Unnar, rithöfundadrauma hennar og tengsl við sögu Bláa Pardussins. Að kafað yrði dýpra í rannsóknir Bjarna og hvernig hann flosnaði upp úr námi. Að Elín yrði gerð að hliðstæðu við Bláa Pardusinn – að konu sem er á sínu eigin ferðalagi milli Íslands, Evrópu og Bandaríkjanna, flugfreyju sem þeytist um heiminn og speglar sig og speglast í þeytingi hugsanlegar formóður sinnar á milli landa.
Í heildina litið er Blái Pardusinn Hljóðbók frábær hugmynd. Frábær byrjun. Eins og fyrsta uppkast af miklum doðranti, að sögulegri skáldsögu með nútímaívafi sem fléttar örlög persóna listilega saman. Ég get ekki sagt að bókin sé ekki góð, það er svo margt gott í henni, en ég get sagt að bókin er ekki nóg og hún á meira skilið. Bæði höfundur, sem greinilega er fantagóður penni, og sagan sem er dásamlega góð hugmynd, ættu að fá meira rými til að njóta sín.






