Nýjasta bók Yrsu Sigurðardóttur, Syndafall, er sjálfstæð spennusaga. Bókin er styttri en margar fyrri bækur höfundar og er skipt í þrjú sjónarhorn persóna sem virðast í fyrstu algerlega ótengdar hver annarri. Þegar á líður fer að koma í ljós að hugsanlega eru tengingarnar þeirra á milli og jafnvel gæti eitthvað glæpsamlegt tengt þetta annars ágæta fólk saman. Aðdáendur Yrsu verða alls ekki fyrir vonbrigðum í ár, en bókin er skemmtileg, auðlesin og býður upp á ýmsar krókaleiðir í átt að sannleikanum.
Ný hljóð og fortíð sem ásækir
Syndafall segir frá Tinnu, sem hefur verið heyrnarlaus frá barnsaldri, en undirgengst kuðungsígræðslu á fullorðinsárum. Hún er ekki alls kostar sátt með aðgerðina og hefði frekar kosið að vera áfram í þögninni, en lét til leiðast sökum þrýstings. Þegar heyrn Tinnu kemur aftur fylgja henni óræðar minningar og alveg ný hljóð sem að trufla Tinnu mikið. Hún fær verkefni við að gera upp dánarbú gamals einfara, og í tómu húsi hans sækja hljóðin á hana af auknum krafti. Er Tinna að missa vitið eða er draugur gamla íbúans að reyna að segja henni eitthvað?
Næsta persóna sem lesendur kynnast er Lena, einstæð og taugatrekkt móðir sem á að baki sér erfiða fortíð. Þegar óvæntur aðili úr æsku hennar skýtur upp kollinum henni að óvörum fara flóðgáttir sem hún hafði löngum lokað á að opnast á ný með ófyrirsjáanlegum afleiðingum
Þá kynnast lesendur þriðja sögumanninum, Steini, óvirkum rithöfundi sem stefnir norður á land í leit að spennandi efni í skáldsögu. Konan hans er háttsettur bankastarfsmaður í kulnun og nú þarf Steinn að kryfja fortíð fjölskyldu sinnar til að ná að skrifa nægilega spennandi sögu til að halda fjárhag heimilisins á floti þegar bankatekjurnar eru uppurnar.
Allt eftir bókinni
Spennusöguformúlan er vel nýtt í fléttuna, tengsl persóna innan söguheimsins eru hæfilega óvænt og sakamálið hefur marga anga sem teygja sig víða. Textinn rennur vel, og ekki er neinu óþarfa púðri eytt í aukaatriði. Lýsingar á fólki og stöðum eru góðar og getur lesandi séð ljóslifandi fyrir sér staðhætti, bæði fyrir norðan og í Reykjavík, þar sem sagan gerist.
Kápa bókarinnar finnst mér sérlega vel heppnuð, en svartur litur hennar og mismunandi glans hefur skemmtileg áhrif. Bókin fer einnig vel í hendi og ég er ánægð með að enginn reyndi að hafa hana of langa, bara lengdarinnar vegna. Umbrotið er líka gott og kaflarnir vel settir upp, skipting á milli sjónarhorna er fagmannlega sett fram, sem og skiptingin eftir tímabilum. Lesandinn nær þannig vel að halda utan um mismunandi sjónarhorn og staðsetningar og raddir persónanna sem tala eru nægilega ólíkar til að augljóst sé að um mismunandi manneskjur sé að ræða.
Birtingarmyndir
Hin heyrnarlausa Tinna er áhugaverðasta persónan að mínu mati, en það sem er sérstaklega ánægjulegt við að lesa um hana er að höfundur hefur kynnt sér döff menningu og kuðungsígræðslur og veit að það er flókin ákvörðun að ákveða að fara í slíka aðgerð. Yrsa fellur ekki í þá gryfju að skrifa persónu sem hatar fötlun sína og vill vera laus við hana, heldur manneskju sem skilrgreinir sig á margan hátt út frá heyrnarleysi sínu, á sterkan, döff vinahóp og talar táknmál að móðurmáli.
Að lesa yfir sig
Það er ekki neitt að textanum hjá Yrsu þannig, vissulega eru nokkrar nástöður á stangli, það er að ég best sé bara ein innsláttarvilla, málfræðin er rétt og orðalag sannfærandi, textinn rennur ágætlega og söguþráðurinn er ekki gloppóttur. Það eru þó sífelldar endurtekningar á atburðum sem fóru í taugarnar á mér. Persónan Steinn fer kafla eftir kafla í gegnum sömu hugsanirnar um konuna sína og pælir hlutina í sömu hringina. Þá er framvindan hjá honum hæg og mér finnst uppbygging spennunar ekki vera fullnægjandi þar sem niðurstaðan er trekk í trekk sú að hann verður hræddur, skoðar eitthvað nokkuð vafasamt og ákveður svo að það sé ekkert að óttast. Kafla eftir kafla.
Þá finnst mér ótrúlega ósannfærandi að heilvita maður á fimmtugsaldri sem hefur skrifað tvær bækur og gefið út haldi að það eitt að gefa út góða skáldsögu muni halda fjárhæg heimilisins á sama leveli og það að vera bankastarfsmaður í hárri stöðu. Ef Steina væri einhver alvara í að hjálpa til fjárhagslega ætti hann að sækja um á auglýsingasstofu eða í Húsasmiðjunni, því tekjurnar þaðan væru öruggari og sennilega hærri.
Nú er þetta kannski ekki eitthvað sem bókin stendur og fellur með, heldur aðeins smáatriði sem skiptir ekki öllu máli. En magn endurtekninganna og hversu oft höfundur segir lesanda það sama kafla eftir kafla lætur mér líða eins og höfundur treysti ekki lesanda til að muna eitt né neitt nema hann sé minntur á það reglulega.
Væntingar til lesturs
En þá spyr ég mig hvort þetta sé kannski bara hið besta mál, þar sem margir munu lesa bókina á nokkurra mánaða tímabili og hafa gott af upprifjunum. Þarna komum við kannski inn á væntingastjórnun. Ég les allt of margar bækur og ég les þær of hratt. Ég hakka þær í mig, ber þær saman við milljón aðrar og læt það hafa áhrif á mig. Ef ég á að vera hreinskilin þá fannst mér, Sjöfn, bókmenntafræðingi og obsessive lesanda sem er sennilega á einhverfurófi plottið mjög augljóst frá blaðsíðu 77. En hvað finnst hinum almenna lesanda sem ég á að vera að dæma fyrir? Því góð gagnrýni á ekki að þjóna höfundum eða útgáfum, og alls ekki gagnrýnandanum, heldur lesandanum sjálfum. Og þá skiptir ekki máli hvað mér finnst persónulega um nástöður og endurtekningar.
Fyrir þá sem fíla spennusögur er þetta flott bók. Hún fylgir öllum reglum og svindlar ekki á lesendum. Og mér fannst ánægjulegt að lesa hana. Ég skemmti mér vel, naut þess að vera í söguheiminum og langaði hálft í hvoru ekki að klára því það var svo kósí að grípa í bókina á kvöldin. Svo sem gagnrýnandi verður skoðun mín tvíþætt; er þetta góð bók fyrir þá sem vilja lesa kósí afþreyingu? Já, hún er frábær. Er þetta vel skrifuð bók? Algjörlega. Ég les skrilljón bækur sem eru miklu verri en þessi, og þar á meðal oft eftir Yrsu sjálfa. Var hún frumleg og eftirminnileg? Nei, alls ekki. Skiptir það máli? Ekki heldur.





