Hirðfíflið eftir Önnu Rögnu Fossberg er hennar þriðja bók en áður hafa komið út bækurnar Auðna (2018) og Hugfanginn (2021). Auðnu á ég eftir að lesa en ég mun kíkja á bókasafnið eftir jól því ég er spennt að lesa meira eftir Önnu Rögnu eftir lestur á Hirðfíflinu.
Bókin fjallar um Ingu Stellu sem rifjar upp átakanlega æsku sína. Hún er loksins tilbúin að líta aftur á liðinn veg og horfast í augu við atburði sem hún hefur grafið djúpt í huga sér.
Heimilisaðstæður voru ekki nægilega góðar, mamma Ingu Stellu er gefin fyrir flöskuna og lét sig stundum hverfa. Pabbi hennar var virtur lögmaður en var orðinn gamall, veikur og svolítið ruglaður í uppvexti Ingu Stellu. Þetta skapar óöruggar aðstæður fyrir barn sem er að reyna að fóta sig í heiminum. Inga Stella getur alltaf leitað til ömmu og Auðnu frænku á neðri hæðinni en það kemur ekki í veg fyrir óþægileg atvik sem munu hafa áhrif á hana til frambúðar. Inga Stella er örverpið þannig að eldri systkini hennar eru sjálfstæð og lifa sínu lífi og skipta sér ekki of mikið af litlu stúlkunni.
Sögumaður er Inga Stella sjálf en hún skiptist á að ávarpa foreldra sína í stuttum köflum sem kenndir eru annað hvort við Mömmu eða Pabba. Í upphafi stendur hún frammi fyrir dauða föður síns en bókinni er skipt upp í þrjá hluta þar sem flakkað er frjálslega fram og aftur í tíma. Bókin er uppgjör við foreldrana, hún spyr sig áleitna spurninga um ákvarðanir foreldra hennar. Af hverju leyfði mamma hennar ástandinu að viðgangast? Af hverju varð pabbi svona skrítinn? Hvað var rétt og hvað var rangt?
„Fyrst núna horfist ég í augu við það að ég var í stórhættu. Alveg sama þó að þú hafir verið gamall, veikur og slappur, þó þú hafir dottið aftur
fyrir þig um sumarið og ekki getað staðið á fætur hjálparlaust. Þú þarft ekki að beita líkamlegu afli til að beygja minn vilja undir þinn.“ (bls. 177)
Barninu fórnað
Hirðfíflið er átakanlegur lestur þar sem ekki er auðvelt fyrir nokkurn mann að lesa um barn sem upplifir bæði andlegt og kynferðislegt ofbeldi innan heimilis, griðarstaðarins þar sem það á að vera öruggt og verndað. Lesandinn fer í þennan erfiða könnunarleiðangur um fortíðina með sögumanni sem lætur allt flakka varðandi ástandið, áföllin sem dundu á heimilinu og bælinguna sem fékk að viðgangast. Það er erfitt að fylgjast með því hvernig móðirin verður vondi kallinn, hún er sú stranga og leiðinlega, á meðan faðirinn verður fórnarlambið í augum barnsins sem heldur að það sé að hjálpa honum, vera með honum í liði gegn móðurinni sem skammaði hann, veika og gamla manninn. Inga Stella áttar sig engan veginn að hann sé að brjóta á henni og móðirin bregst við á þann hátt að hún fjarlægir sig, brynjar sig, og grefur sannleikann niður:
„Staðreyndin er sú að þú fékkst mörg tækifæri til að stöðva þetta ferli en alltaf lætur þú í minni pokann, sættir þig við ástandið, deyfir þig með áfengi og fórnar mér.“ (bls. 164)
Hver er hið raunverulega hirðfífl?
Hér er allt skrifað svo hispurslaust að maður verður hálf dáleiddur við lesturinn. Maður vill bjarga Ingu Stellu úr þessum aðstæðum þó maður viti að allt er búið og gert og að nú sé hún á fullorðinsárum að leita að sátt. Skrif geta heilað, skrif eru ákveðin úrvinnsla úr áföllum, og það er tilfinningin sem maður fær úr frásögninni, að Inga Stella sé að heila sjálfa sig með skrifunum. Sögumaður þráir ekkert heitar en að skilja af hverju þetta fór svona og, það sem mikilvægara er, að varpa skömminni og ábyrgðinni á þann stað sem hún á heima. Sýna hlutina eins og þeir raunverulega voru.
„Er það ekki frekar þú sem ert konungurinn í ríki þínu á meðan ég er dregin á tálar eins og hvert annað hirðfífl?“ (bls. 136)
Hirðfíflið er átakanleg skáldsaga sem dregur lesandann á bólakaf inn í heim Ingu Stellu, ungrar stúlku sem átti svo miklu betra skilið. Textinn er áleitinn og maður fær óhindraðan aðgang að hugsunum Ingu Stellu. Áfallastreitan sem hefur einkennt hennar tilveru er þung byrði sem í lok bókar hefur vonandi lést örlítið. Þetta er frásögn sem lifir með manni og minnir mann á hversu lúmskt ofbeldið getur verið, hversu auðvelt það getur verið fyrir aðila í valdastöðu að misnota aðstöðu sína á hroðalegan hátt.







