Óresteia er forngrískur harmleikur eftir Æskilos. Innan Óristeiu eru þrjú verk, Agamemnon, Sáttarfórn og Refsinornir, auk Satýrleiks sem er glataður. Í jólauppfærslu Þjóðleikhússins býður Benedict Andrews, höfundur og leikstjóri upp á Óristeiu þríleikinn sem nútímalegan en þó tímalausan harmleik þar sem allt mannkynið og saga þess er látið svara fyrir sakir sínar, stríð sín og hefndir.
Byrjum á að renna yfir söguþráð verkanna þriggja til að koma öllum á sömu blaðsíðu:
Agamemnon
Fyrsta verkið sem sett er á svið í þríleiknum er jafnframt það lengsta og segir frá því þegar Agamemnon konungur snýr heim eftir sigur í Trójustríðinu. Drottning hans, Klítemnestra, bíður hans í eftirvæntingu þar sem stríðið hefur varið í tíu ár, og kór segir áhorfendum frá morði Agamemnons á dóttur sinni í aðdraganda stríðsins.
Í ljós kemur að Klítemnestra saknar manns síns í raun ekki hót, heldur hefur hún beðið hans óþreyjufull til að hefna morðsins á dóttur þeirra, hinni barnungu Ifigeníu.
Í upprunalega verkinu eru öll morð framin baksviðs og áhorfendum aðeins sagt frá þeim, en í þessari uppfærslu fær blóðið að slettast, öxum er sveiflað og sviðið er rifið í sundur eins og fjölskyldueiningin sem eitt sinn ríkti í húsi Atreifsættarinnar. Þegar Agamemnon er allur og Klítemnestra fagnar í fangi elskhuga síns Ægistosar, sem einnig á harma að hefna, slokkna ljósin og fyrsta hlé af tveimur hefst. Áhorfendum er frjálst að vera áfram inni í sal eða ráfa fram, en leikhópurinn hefur látið sig hverfa.
Sáttafórn
Þegar aftur er gengið í salinn hefur sviðið ekki tekið neinum breytingum. Fólk sest niður og starir spennt á Órestes, manninn sem þríleikurinn heitir eftir, son Agamemnons og Klítamnestru sem hefur alist upp í útlegð. Hinn ólukkulegi sonur Atreifsættarinnar sem bölvun hvílir á snýr heim að gröf föður síns og hittir þar fyrir systur sína, Elektru, sem syrgir morð föður síns og hatar móður sína og elskhuga hennar. Þegar bróðir hennar snýr heim ákveða systkinin hvernig best er að bera sig að við að kála morðingja föður síns. Þættinum lýkur ekki fyrr en bæði Klítemnestra og Ægistos liggja í valnum. Aftur er hlé. Áhorfendur virðast alveg jafn spenntir og í því fyrsta, hvergi ber á þreytu eftir margra tíma leikhússetu.
Refsinornir/Hollvættir
Þriðja, og jafnframt stysta verkið hefst. Órestes er alblóðugur á miðju sviðinu, hann er spurður um morðið á móður sinni. Þríhöfða fylgja endurómar orð hans, hann er marglaga í eftirkasti ódæða sinna. Uppsetningin er slík að áður en farið er í klassísk réttarhöld og átök Aþenu og Apollons yfir Órestes er líkt og morðinginn ungi sé á réttargeðdeild í nútímanum, eða sitji í réttarsal og svari fyrir brot sín. Fylgjur hans geta verið refsinornir eða raddirnar í höfði hans, skuggi sem hvílir á honum og refsar fyrir voðaverkin. Um miðbik verks springa raddirnar út úr höfði Órestesar, þær taka á sig mynd refsinornanna, þær hjúpa sig leir og afmynda sig, missa mannsmynd sína en verða um leið hatrammari í árásum sínum gegn Órestesi, þær vilja að hann gjaldi blóð með blóði. Það eina sem getur hreinsað hann af ofbeldisverkunum er að deyja sjálfur. Eða hvað? Eins og í öllum góðum grískum harmleikjum stíga guðirnir til jarðar og velta máli hans fyrir sér, bjóða borgurum að ákveða hvort hann sé sekur eður ei. Áhorfendur eru beðnir að velta því hinu sama fyrir sér – er það réttlætanlegt að myrða móður sína ef hún drepur föður þinn? Er Klítemnestru ekki hefndarréttur gegn manninum sem banaði dóttur hennar til þess eins að geta háð stríð þar sem þúsundir manna féllu? Hvað með Ægistos, sem leitar hefnda gegn þeim sem drápu bræður hans og matreiddu þá handa föður hans? Hvers vegna má Órestes hefna en ekki hinir? Hvert kemst mannkynið ef við höldum áfram að rífa úr auga fyrir auga, myrða son fyrir dóttur, móður fyrir föður, afkomanda fyrir forföður?
Ekki í okkar nafni
Og er það stærsta spurning verksins, að ég held, spurning sem á jafn vel við í dag og þegar leikritin voru skrifuð. Hvað er eiginlega að okkur sem tegund? Hvaða rugli erum við að taka þátt í með því að heyja stríð eftir stríð, drepa saklaust fólk, þurrka út ættir eins og þær leggja sig, leggja jarðir og lönd í eyði, skemma söguna, menninguna, fremja menntamorð, barnamorð, þjóðarmorð? Hvenær hættir pendúllinn að sveiflast milli stríðandi fylkinga, hvenær má hætta að drepa? Hvers vegna erum við alltaf að drepa? Til hvers er að vinna þegar ekkert er eftir nema rjúkandi rústir, blóðpollar á kalksteini, grátandi eftirlifendur með rotnandi lík í fanginu, færandi dreypifórnir til guða sem gúddera morð, nauðganir og árásir eftir hentugsemi?
Það er ekki hægt að sjá þetta verk á sviði án þess að hugsa til hörmunganna sem ganga á í nútímanum. Þjóðarmorðið á Gaza kemur sterkt fram í hugann þegar leikarar draga fram blóði drifnar flíkur, barnaflíkur, og dreifa um sviðið til að sýna mannfallið. Einhver slagorðanna sem kórinn hrópar eru þau sömu og eru hrópuð fyrir utan stjórnarráðið til að grátbiðja stjórnvöld um að segja eitthvað, gera eitthvað, hvað sem er til að hætta að styðja þjóðarmorð í nafni Íslendinga. Það er einnig áhugavert hvernig textinn einblínir á andúð gegn útlendingum og konum, sérstaklega í tilfelli Kassöndru. Hún er stimpluð sem brjáluð, útlensk hóra, þar sem hún kemur sem frilla konungs, sem herfang hans, frá sundurslitinni Tróju þar sem hún hefur horft á allt sem hún þekkir tortímt og alla sem hún elskar myrta. Þá er reiði Klítamnestru kvengerð af þeim sem hana gagnrýna, hún er einnig álitin brjáluð og móðursjúk, en slík orð eru ekki höfð í frammi um elskhuga hennar, þó hann sé að myrða og hrifsa til sín völd af nákvæmlega sömu ástæðum og ástkona hans.
Leikhópur sem stígur hvergi feilspor
Þetta verk gæti aldrei staðið undir sér ef ekki væri fyrir ótrúlega öflugan og hæfileikaríkan leikhóp sem vinnur þrekvirki í uppsetningunni. Ekki er nóg með að verkið sé með ofboðslega þéttan texta og mikla mónólóga, heldur er verkið líkamlegt og krefst alls af leikurunum. Í þokkabót fá leikarar aldrei að stíga út af sviðinu, því þegar þeir eru ekki sjálfir miðpunktur senu eru þeir áhorfendur í sal, og alltaf er hægt að fylgjast með þeim, þeir fá aldrei að detta úr karakter. Hver einasti leikari stóð sig eins og hetja og lék með fullkomið vald yfir textanum, persónum sínum og salnum í heild. Samleikur þeirra var töfrandi og virkilega sannfærandi, og hvernig skipt er á milli karaktera hjá sama leikara er gert á einfaldan en sterkan hátt. Það að halda kórnum en setja hann í hendur aðalleikaranna fimm er virkilega flott leið til að halda harmleikjastemningunni en gera hana nútímalega og ferska. Þrátt fyrir að hver einasti leikari hafi ekki stigið eitt einasta feilspor tel ég sérstaklega þurfa að hrósa Ásthildi Úu fyrir ótrúlega sterkan og fjölbreyttan leik. Hún kom hlutverki Kassöndru fullkomlega til skila af mikilli dýpt, orku og viðkvæmni. Hún líkamnar hlutverkið algerlega frá því að Kassöndru er dröslað heim úr stríðinu með Agamemnon, allt þar til hún er drepin, og kjarnar virkilega tilfinningar verksins, vonleysi, sorg og eyðileggingu andans.
Skotheld uppfærsla
Verkið er virkilega vel skrifað af Benedict Andrews og listilega þýtt af Kristínu Eiríksdóttur. Í stað þess að velja að fara algerlega inn í nútímann eða halda fornu máli Helga Hálfdánarsonar er farin ný leið sem rennur eftir miðjunni, sem gerir verkið fornt og nýtt á sama tíma, og er það að ég held sérlega áhrifaríkt þar sem það er einmitt eilífleiki stríða og ofbeldis sem bindur nútímamanninn við forngrikki, sem heldur okkur öllum föngnum í sömu snöru valda, brjálæðis og endalausra morða.
Sviðsmyndin er í höndum Elínar Hansdóttur og er hún frábær í alla staði. Verkið er sett upp í Kassanum og er áhorfendabekkjum raðað í hring utan um sviðið. Á sviðinu hefur gifshellum verið staflað og mynda þær heildstæðan pall í upphafi verks, en hægt og bítandi breytist sviðið í rústir, í brot, síðan í völundarhús, og loks í hús Atreifsættarinnar þar sem bölvunin bítur á veggjunum og öllum innan þeirra. Notkun á blóði er einnig sterk og aðferðin við dreifingu þess virkilega árangursrík. Þá er rúgmjölið sem notað er sem duft sem svífur um sviðið sérlega áhrifaríkt og hvorki of né vannýtt. Búningarnir eru hannaðir af Filippíu I. Elísdóttur, og ég var framan af ekki alveg viss hvað mér fannst um þá, en eftir sem á leið varð ég sannfærðari um að þetta væru akkúrat réttu fötin til að skapa þessa menn. Auk þess verða blóðið og rykið að hluta af búningum leikhópsins á áreynslulausan hátt, þar sem niðurbrot karaktera þeirra sem persóna er vel inn rammað sjónrænt án þess að áhorfendum finnist það draga athygli frá sögunni. Sérstaklega virkar vel hvernig sviðið sést frá öllum hliðum í þessu samhengi því það sjá allir allt sem er gert, án þess þó að það sé endilega miðpunkturinn. Það hvernig leikararnir eru alltaf á sviðinu þjálfar auga áhorfenda í að fylgjast með þeim öllum og staðsetja í rýminu, og listilega er farið með það að passa að athyglin haldist þar sem hún þarf að vera til að enginn missi af neinu en þó með því frelsi sem gerir það að verkum að langt leikrit líður hjá á augabragði. Lýsingin er einnig vel nýtt, en það er merkilegt samspil ljóss og skugga, elds, myrkurs og ofurbirtu sem varpar verkinu inn í mismunandi heima á augabragði. Það er yfirljósahönnuður Þjóðleikhússins, Björn Bergsteinn Guðmundsson sem sér um lýsinguna, svo það kemur ekki á óvart að hún sé fyrirtak. Tónlistin er virkilega vel heppnuð, en sellóleikarinn Bára Gísladóttir spilar undir leiknum, en hún sá um alla hljóðhönnun ásamt Aroni Þóri Arnarsyni.
Niðurstaða:
Það er ekki hægt að vera ósáttur við þetta verk. Það fetar sig eftir þröngum og vandförnum slóða og stígur aldrei feilspor. Grískur harmleikur verður nútímalegur en ekki um of. Yfirgengileg morð og dramatík verða sammannleg og harmræn. Ástandið í heiminum er dregið inn í verkið án þess að það sé á nokkurn hátt klunnalegt. Hver einasti leikari ætti skilið verðlaun fyrir frammistöðu sína. Allir sem að sýningunni standa skiluðu sínu 110 prósent. Ekki láta lengdina hræða ykkur, skellið ykkur í leikhús og njótið töfranna.
Kvart: Ef eitthvað er mætti klippa fimm mínútur af lokaverkinu, það er eina skiptið sem kemur smá lægð, bara í smá smá smá stund, en þá var maður líka búinn að sitja frá 19 til að verða 23 í leikhúsi svo kannski er ekki við verkið að sakast heldur mína eigin athyglisgáfu.





