Þingvellir – í og úr sjónmáli

Það er öllum nauðsynlegt að skoða sig um í heiminum. Sá sem aldrei hefur neitt séð né upplifað er þröngsýnn og jafnvel fordómafullur. Þess vegna hygg ég á ferðalag í sumar. Og á öllum mínum ferðalögum um heiminn hef ég haft það fyrir sið að taka með mér íslenska bók og færa gestgjöfum mínum í hvert eitt skipti. Því alltaf þarf maður jú einhversstaðar að sofa og ég er lítið fyrir hótel og þessháttar fínerí og panta mér iðulega gistingu í heimahúsum eða litlum gistihúsum. Og þá þarf maður að færa fólki gjafir. Ég reyni að vanda valið, vil alls ekki skilja eftir eitthvað ómerkilegt og illa læsilegt skrifelsi.

Sjálfstætt fólk eða Independent people eftir Halldór Laxness skildi ég eftir í Havana á Kúbu, Die Sagas eftir Björn Jónasson skildi ég eftir hjá yndislegum eldri hjónum í Erkner, litlum bæ nálægt Austur Berlín, og skemmtileg hjón í Porto fengu jólabókina The Yule Lads eftir Brian Pilkington.

Í sumar er ég búin að bóka mér gistingu í fallegu litlu húsi við Gardavatn á Ítalíu og er strax farin að huga að því hvaða bók fái að fljóta með í töskunni og taka sér bólfestu á ítalskri grundu. Fyrir valinu varð ljósmyndabók að þessu sinni. Ég er annars ekkert voða hrifin af ljósmyndabókum. Tæknin er orðin þvílík að ég sé ekki alveg hvernig afskaplega mikið unnar ljósmyndirnar eigi að sýna raunveruleika íslenskrar náttúru. En þessi ljósmyndabók sem ég valdi sker sig hinsvegar úr.

Þingvellir – í og úr sjónmáli heitir hún og er tvímála, bæði á ensku og íslensku, ljósmyndarar eru Pálmi Bjarnason og Sigrún Kristjánsdóttir en höfundur ritaðs máls er Harpa Rún Kristjánsdóttir.  Ég er búin að vera ansi upptekin síðustu daga af glæpasögum barnanna og því var það ágætis tilbreyting að kíkja í þessa gullfallegu bók um helgasta stað okkar Íslendinga. Ég er farin að hljóma ótrúlega dramatísk og háfleyg en þessi bók er bara þannig að hún hefur þessi áhrif á mig.

Myndirnar eru virkilega góðar. Margar hverjar draumkenndar og dulúðlegar, sýna ekki endilega þá staði sem eru vinsælustu myndaefnin, heldur frekar staði sem fara framhjá okkur og verða einhvern veginn útundan þegar Þingvellir eru heimsóttir. Myndirnar sýna mismunandi árstíðir og geta staðið sem sjálfstæð verk og maður fær það einmitt alls ekki á tilfinninguna að ljósmyndararnir hafi eytt löngum tíma í að „laga“ og skekkja myndirnar. Textinn hennar Hörpu færir svo þessa bók á annað plan svo úr verður samspil mynda og texta sem geta þá í raun, þegar uppi er staðið,  ekki án hvors annars verið, þegar maður á annað borð hefur drukkið í sig þennan ljóðræna prósa hennar Hörpu. Textinn er samspil þess fræðilega og þess skáldlega.  Og sérstaklega eftirminnileg eru orð Hörpu um aftöku í drekkingarhylnum (bls. 78) og svo Skrattinn í Skötutjörn (bls. 114). En punkturinn yfir i-ið er ljóðið: Til þeirra sem gleymdust (bls. 222).

Ég er afskaplega hrifin af þessari bók, ég kem klárlega til með að taka með mér fleiri en eitt eintak til Ítalíu, sennilega skil ég eintak eftir í München og svo í Innsbruck í Austurríki í sömu ferð. Svo er ég þegar búin að lauma einu eintaki í fermingarpakka. Ég ætla að enda þessa umfjöllun á lokaorðum í fyrrnefndu ljóði á öftustu síðu bókarinnar; Til þeirra sem gleymdust.

 

Gegnum árniðinn

greini ég gleymdar raddir

því steinarnir eru strengir

og vatnið er harpa minninganna.

Ég ber í það lófann og bergi á

og lofa að gleyma ykkur aldrei.

Sofið rótt, elsku systur,

í Drekkingarhyl.

(bls 222)

 

Lestu þetta næst

Eins konar dans

Eins konar dans

Moldin heit er önnur skáldsaga Birgittu Bjargar Guðmarsdóttur en fyrir hana hlaut hún...