Bad Blood: Secrets and Lies in a Silicon Valley Startup er einhver áhugaverðasta bók um sanna atburði sem ég hef nokkurn tímann lesið. Bókin fjallar um bandaríska nýsköpunarfyrirtækið Theranos og stofnandann Elizabeth Holmes, ævintýralegan uppgang þess og loks fall fyrirtækisins.
Heilbrigðistæknifyrirtækið Theranos var stofnað af nítján ára nemanda við Stanford háskóla árið 2003 og varð hratt eitt verðmætasta fyrirtækið í Kísildalnum í Kaliforníu, metið á 9 milljarða dollara. Fyrirtækið náði að safna 700 milljónum dollara frá fjárfestum og stefndi að því að þróa tækni til þess að nýta örlítil blóðsýni úr fingrum í stað hefðbundar blóðprufu, í lækna- og vísindarannsóknum. Þannig gæti það sparað neytendum bæði kostnað og sársauka. Holmes sjálf varð fljótlega titluð kvenkyns Steve Job og þótti með frambærilegustu konum í Kísildanum. Það var bara einn galli við þessa tækni sem virði fyrirtækisins byggði á, hún var ekki til.
Tæknin var ekki til!
Bókina skrifaði John Carreyrou, blaðamaður á bandaríska blaðinu Wall Street Journal sem hóf að fjalla um fyrirtækið árið 2015 og skrifa greinar sem drógu í efa getu fyrirtækisins til þess að nýta þessi blóðsýni úr fingrum í stað blóðprufa. Við lok rannsóknar Carreyrou kom í ljós lygaflétta; Holmes hafði logið að, og afvegaleitt, fjárfesta og samstarfsaðila fyrirtækisins í mörg ár til að hylma yfir galla í tækninni sem hún var að þróa. Umfjallanir Carreyrou voru mjög áhrifamiklar og hófust í kjölfar þeirra formlegar rannsóknir yfirvalda á fyrirtækinu og á endanum hætti Theranos formlega starfsemi. Stofnandinn Elizabeth Holmes, ásamt kærasta sínum og forstjóra fyrirtækisins, var ákærð fyrir fjármálasvik og enn er óljóst hver refsing þeirra verður.
Bad Blood kom út á síðasta ári og vakti strax mikla athygli, áður en hún var komin í prentun var búið að kaupa kvikmyndaréttinn og er kvikmynd í bígerð með Jennifer Lawrence í aðalhlutverki.
Bókin er æsispennandi og er erfitt að leggja hana frá sér. Sjálf gaf ég kærastanum mína hana í jólagjöf þar sem hann hefur mikinn áhuga á sönnum sögum úr fjármálageiranum. Ég leyfði mér að glugga í hana eitt kvöldið þegar hann lagði hana frá sér og sökk svoleiðis ofan í hana; við þurftum að skipta henni á milli okkar eftir þetta, ég tók hana með mér í lestina á morgnana og las á leiðinni til og frá vinnu, en hann fékk kvöldvaktina með henni eftir að við komum heim. Þetta er í fyrsta og eina skiptið sem við höfum bæði verið svona hugfangin af sömu bók.
Bókin nær alveg tökum á manni af því að sagan er svo lygileg, það væri einfaldlega ekki hægt að skálda svona bók því hún væri svo ótrúverðug. Stíllinn í fyrri helming bókarinnar er hefðbundinn frásagnarstíll þar sem hver kafli endar með spennandi upplýsingum svo maður verður að fletta síðunni og halda áfram. Það er hins vegar seinni helmingur bókarinnar sem er jafnvel enn betri því að þá fer blaðamaðurinn að segja sína persónulegu reynslu af Theranos og fjallar um hvernig hann frétti af svikamyllunni og tókst að varpa ljósi á lygar og athæfi Holmes.
Eins og Spennusaga
Bad Blood er besta bók sem ég hef lesið á þessu ári og mæli ég með henni bæði fyrir þá sem hafa áhuga á nýsköpunargeiranum, sem og góðum spennusögum, því maður les hana sem slíka. Ég er ekki eina sem mæli með henni, hún hefur hlotið gríðarlegt lof og var meðal annars valin meðal bestu bóka síðasta árs af NPR, The New York Times Book Review, Time, Wall Street Journal, og Washington Post, ásamt því að vera valin viðskiptabók ársins af ráðgjafafyrirtækinu McKinsey.