Líkt og neyðin kennir naktri konu að spinna kennir neyðin eirðarlausri konu að lesa óaðlaðandi bækur. Það er staðreynd – og við skulum ekkert tala undir rós með það – að sumar bækur byrjar maður að lesa af þeirri einföldu ástæðu að manni leiddist og þær voru það eina sem var við hendina. Af sömu ástæðu heldur maður áfram með óspennandi bók allt til enda. Slíkar aðstæður hafa líka stundum leitt til þess að maður hefur uppgötvað ágætar bækur sem annars hefðu siglt undir radarinn.
Þrír dagar og eitt líf eftir franska höfundinn Pierre Lemaitre í þýðingu Friðriks Rafnssonar er ein af þessum bókum sem ég hefði aldrei valið mér sjálfviljug. Titillinn er hlutlaus og ólýsandi. Bókin gæti verið um hvað sem er – bókarkápan er fótósjoppuð ljósmynd af skógi í mystískri birtu. Þar hefur meistara Stephen King líka verið stillt upp líkt og blaðasöludreng á götuhorni kallandi með mónótónískum hrynjanda: „Frábær spennusagnahöfundur.“ Og ef maður gefur sér tíma til að rýna í smáa letrið á kápunni þá virkar það að sjálfsögðu. Stephen King er maður sem við þekkjum og treystum.
Bókin fjallar um hinn 12 ára Antoine sem verður fyrir því óláni að að drepa Rémis, 6 ára son nágrannans, í bræðiskasti á Þorláksmessudag 1999 þegar þeir eru tveir einir úti í skógi. Í stað þess að kalla á hjálp ákveður Antoine að fela líkið og vona það besta. Sagan fylgir svo Antoine eftir næstu þrjá daga þar sem hann háir sálarstríð meðan hann fylgist með nágrönnum sínum og bæjarbúum gera dauðaleit að Rémis. Honum líður illa yfir gjörðum sínum en hræðslan við afleiðingarnar er samviskunni yfirsterkari. Sagan er semsagt ekki sögð frá sjónarhorni þolandans, aðstandenda eða lögreglu – heldur gerandans, morðingjans. Spurningin sem heldur lesandanum á tánum er því ekki: Hver er morðinginn?, heldur: Mun komast upp um morðingjann?, sem er óneitanlega hressandi tilbreyting.
Það tók mig alveg tvær vikur að klára bókina, að hluta til vegna annríkis og að hluta til vegna þess að spennan er ekki slík að hún krefjist þess hún sé kláruð í einni atrennu. Engu að síður fann ég fyrir sterkri þörf að klára bókina – ég vildi vita hver örlög hins 12 ára morðingja yrðu og hvort foreldrar Rémis fengju einhvern tímann svar við gátunni um hvað orðið hafði af syni þeirra. Að því sögðu verð ég að segja að mér þótti endirinn heldur snubbóttur. Hann svarar spurningu sem ég spurði mig aldrei en var á sama tíma skemmtilega óvænt vending. En endirinn gefur lítið upp um það sem maður vildi virkilega vita. Eins og höfundurinn nostrar við frásögnina framan af í bókinni er eins og hann hafi allt í einu brunnið inni á tíma í síðari hluta hennar.