Kvöldlesningin fyrir einn af ungunum síðustu kvöld hefur verið Flökkusaga eftir Láru Garðarsdóttur. Bókin er hugljúf saga um litlu birnuna Ísold og mömmu hennar sem þurfa að halda á nýjar slóðir. Heimkynni þeirra á norðurslóðum hafa tekið breytingum vegna hamfarahlýnunar og þær geta ekki búið þar lengur. Bókin er ansi sorgleg. Okkur mæðginum þótti til dæmis hrikalega sorglegt að Ísold og mamma hennar þurftu að skilja afann eftir þegar þær héldu á nýjar slóðir og okkur fannst skrýtið að þær voru útilokaðar úr samfélagi brúnu bjarnanna. En eins og flestar barnabækur endar hún farsællega og okkur fannst frábært að mæðgurnar voru að lokum teknar inn í nýja samfélagið.
Lára hefur myndskreytt fjöldann allan af barnabókum í gegnum tíðina og er gríðarlega skemmtilegur teiknari. Flökkusaga er hennar fyrsta tilraun til að skrifa barnabók sjálf. Hún er sjálfsútgefin árið 2016 á Íslandi og í fyrra var bókin gefin út í enskri þýðingu í Bandaríkjunum undir nafninu Bear with me.
Sagan er óskaplega hugljúf og tekur á samtímamálum sem brenna á heiminum í dag. Þar má nefna þann vanda sem ísbirnir á Norðurheimskautinu standa frammi fyrir þegar ísinn bráðnar hraðar með hverju árinu, sem er að sjálfsögðu vandi sem snertir alla heimsbyggðina. Þá er einnig til umræðu hvernig sum samfélög taka á móti flóttamönnum með tortryggni og óvinsemd. Þetta eru ansi stór mál til að hugsa um þegar maður er að fara að sofa. Ég reyndi lítið að útskýra þessa hluti fyrir unga manninum sem var alveg að sofna þegar við lásum bókina í gærkvöldi. En hugsanlega verður gott að geta gripið í söguna um Ísold og mömmu hennar þegar maður þarf að útskýra þessi flóknu mál í framtíðinni.