Ég heillast alltaf af bókum sem sýna mér inn í kima samfélagsins – já eða jafnvel heimsins – sem ég þekki ekki nógu vel. Stórar stelpur frá raflost. Heim úr svartholi óminnis eftir Gunnhildi Unu Jónsdóttur er ein af þessum bókum og hana las ég upp til agna á um það bil klukkutíma.
Bókin fjallar um upplifun Gunnhildar sjálfrar á eftirköstum raflostmeðferðar sem hún fór í árið 2016 sem meðferð við mjög alvarlegu þunglyndi, hvernig hún tókst á við daglegt líf og hvaða áhrif þetta hafði á hana, börnin hennar og fjölskyldu.
Bókin er í nokkurs konar dagbókarstíl, án þess að kaflarnir séu þó tímasettir – sumar færslur vart meira en setning en segja samt meira en þúsund orð. Gunnhildur er frábær penni og tókst virkilega að snerta einhverja strengi í mér. Ég vissi það strax eftir fyrstu blaðsíðuna – eiginlega fyrstu setninguna að ég myndi eiga erfitt með að leggja bókina frá mér.
Ég stóð sjálfa mig svo að því að hugsa um bókina í nokkra daga þegar ég var búin – bar hana meira að segja undir betri helminginn sem aldrei þessu vant hlustaði á af áhuga. Hvorugt okkar hafði hugmynd um að enn væri verið að beita raflosti sem meðferðarúrræði við þunglyndi. Í fáfræði minni taldi ég slík meðferðarúrræði tilheyra fortíðinni. Þá hef ég heldur aldrei nokkurn tímann lesið um upplifun einhvers af slíkri meðferð, sem er svo fjarstæðukennt þegar maður pælir í því hversu lengi þessu meðferðarúrræði hefur verið beitt.