Spennandi norrænn krimmi fyrir unglinga

The Sharp Edge of a Snowflake önnur bók Sifjar Sigmarsdóttur á ensku kom út í lok júní í Bretlandi og hefur hlotið góðar viðtökur. Bókin, sem er flokkuð sem Young Adult Fiction (eða ungmennabók), fjallar um tvær ungar konur Imogen Collins og Hönnuh Eiríksdóttur og er sögð frá sjórnarhorni þeirra beggja. Leiðir þeirra liggja óvænt saman í sannkallaðri „Nordic Noir“ ráðgátu á Íslandi.

Hannah er hálf-íslensk menntaskólastelpa búsett í London sem lendir í tveimur áföllum á stuttum tíma; að missa enska móður sína og að vera rekin úr skólanum sínum. Hún fer í kjölfar þessara atvika í það sem hún telur útlegð til Íslands til að búa hjá íslenskum föður sínum. Það er þó eitt jákvætt í þessu öllu saman, hún fer í starfsnám til föður síns á fjölmiðli hans Dagblaðinu en það er einmitt búið að reka hana út menntaskóla fyrir að birta frétt í skólablaðinu um launamun kennaranna í skólanum hennar. Hún er því spennt fyrir að kynnast blaðamannalífinu.

Imogen er tæplega tvítug ensk samfélagsmiðlastjarna. Hún lifir góðu lífi í London með milljón fylgjenda og spennandi lífsstíl í flottri vinnu, en skelfilegur maður sem kallaður er Skrímslið (e. Beast) í bókinni hefur gert henni eitthvað hræðilegt og haft skaðleg áhrif á allt líf hennar.

Bókin hefst á því að Hannah er í flugvél á leið til Íslands. Strax á leiðinni í bæinn frá flugvellinum keyra hún og pabbi hennar framhjá því sem virðist vera slys og næsta dag kemur fram í fréttunum að andlát hafi borið að með saknæmum hætti sem verið er að rannsaka. Fyrsta verk Hönnuh í starfsnáminu á Dagblaðinu er að taka viðtal við Imogen, en þá kemur í ljós að hún tengist hinum látna og gæti jafnvel hafa tengst andlátinu. Hannah, ásamt hinum unga blaðamanni Kjarra, ákveður að taka rannsókn málsins í sínar hendur, en ekki er allt sem sýnist í lífi Imogen og í morðmálinu.

Djörf viðfangsefni

The Sharp Edge of a Snowflake er fyrsta unglingabókin sem ég hef lesið í u.þ.b. áratug, eða síðan ég var sjálf unglingur. Ég hafði hins vegar mjög gaman af ferskum blæ hennar. Sif velur sér djörf viðfangsefni: morð, kynferðisofbeldi, og samfélagsmiðla. Milli kafla eru Instagram færslur Hönnuh og Imogen og í gegnum bókina er mikið deilt um ágæti samfélagsmiðla og glansmynda þeirra. Bókin er þessi klassíski norrænni krimmi þar sem allt er kalt og blautt, sagan hefst í lok október þar sem snjór fellur og hálka er á götum. Auk þess er ein aðalpersónan að starfa sem blaðamaður. Það einstaka við hana er að þetta er unglingabók, en það eru ekki margir norrænir krimmar skrifaðir fyrir unglinga.

Sif kann að skrifa góðar unglingabækur enda hefur hún verið að skrifa þær í yfir áratug og hlaut tilnefningu til Íslensku bókmenntaverðlaunanna fyrir bók sína Freyju saga – Múrinn. Sjálf las ég fyrstu bók hennar Ég er ekki dramadrottning þegar ég var þrettán ára og á hápunkti gelgjunnar og hafði mjög gaman af. Atburðarrásin er kannski smá ævintýraleg í The Sharp Edge of a Snowflake, enda eru ekki margar unglingsstúlkur að leysa morð á Íslandi. Aftur á móti er Hannah trúverðug persóna: hún hefur ekki alltaf rétt fyrir sér, bæði í ágiskunum sínum og í því hvernig hún túlkar aðstæður, og er temmilega dramatískur unglingur. Imogen fannst mér hins vegar ekki alveg jafn heilsteypt persóna, en það gæti einmitt verið vegna þess að hún á að eiga sína alvöru hlið og glansmyndarhlið sína á Instagram og eru þessar hliðar í stríði við hvora aðra.

Sif hefur verið búsett lengi í London og nýtir þekkingu sína á borginni og bresku samfélagi sem og íslensku samfélagi á áhugaverðan hátt í sögunni með því að nýta Reykjavík og höfuðborgarsvæðið sem helsta sögusviðið en að láta Hönnuh upplifa íslenskt líf sem utanaðkomandi einstaklingur. Erlendir lesendur munu fræðast heilmikið um íslenskt samfélag og borgarlífið á Íslandi við lesturinn þó svo að lýsingarnar séu ekki of íþyngjandi fyrir íslenskan lesenda. Aftur á móti finnur maður ekkert fyrir því að Sif sé ekki að skrifa á móðurmáli sínu, en það er stórkostlegur ritsigur!

 

 

Lestu þetta næst

Eins konar dans

Eins konar dans

Moldin heit er önnur skáldsaga Birgittu Bjargar Guðmarsdóttur en fyrir hana hlaut hún...