Little Women eða Yngismeyjar eftir Louisu May Alcott kom fyrst út árið 1868 en þrátt fyrir að nú séu liðin yfir 150 ár frá útgáfu er þetta sígild saga með boðskap sem á ennþá við í dag. Til marks um það er von á nýrri kvikmynd byggðri á bókinni í leikstjórn Gretu Gerwig með Emmu Watson, Saoirse Ronan, Meryl Streep og fleiri þekktum leikurum í aðalhlutverkum.

Little Women segir frá lífi March systranna Meg, Jo, Beth og Amy og fjallar sérstaklega um unglingsár þeirra og þroskaferli að verða að konum. Í upphafi bókarinnar eru þær 16, 15, 13 og 12 ára en við lok hennar eru þær orðnar fullorðnar giftar konur og mæður. Bókin byggir lauslega á lífi Louisu sjálfrar en persóna Jo byggir á henni. Bókina mætti flokka sem unglingabók en bæði yngri og eldri lesendur geta notið hennar. Hún sló strax í gegn við útgáfu og framhaldsbók fylgdi stuttu síðar sem síðan var skeytt saman við upphaflegu útgáfu. Besta lýsingarorðið yfir þessa bók er yndisleg: hún fjallar á fallegan hátt um systrasambönd og erfiðleika þá sem fylgir því að vaxa úr grasi sem ung kona.

Gjörólíkar systur

Í upphafi bókarinnar er faðir stelpnanna að berjast í bandarísku borgarastyrjöldinni og eru þær ásamt Marmee móður þeirra að reyna að viðhalda venjulegum heimilisbrag í skugga fátæktar, sorgar og óvissu sem fylgir stríðinu, sem og almennum unglingavandamálum. Allar eru systurnar mjög ólíkar: Meg er týpísk elsta systir sem sinnir skyldum sínum af mikilli ábyrgð og er falleg og fáguð; Jo er aðalpersóna sögunnar, hún er með mikið skap, skrifar sögur og leikrit fyrir systurnar til að sviðsetja og vildi helst vera strákur til að njóta frelsisins sem því fylgdi; Beth er heilsulítil en góð í gegn og er tónlistamaður fjölskyldunnar; loks er Amy freka og dekraða litla barn fjölskyldunnar en jafnframt efnilegur myndlistamaður. Í bókinni koma fleiri áhrifamiklar persónar fram, sér í lagi ber þar að nefna nágranna stúlknanna piltinn Laurie sem Jo verður mjög náin, sem og rík frænka þeirra Aunt March sem kemur til með að styrkja eina af stelpunum til að mennta sig og ferðast. Í gegnum bókina lenda stelpurnar í ástarsorg, deilum við hver aðra, fjölskyldumissi en finna loks hver og ein sína hillu í lífinu í gegnum áhugamál sín.

Ég ákvað að lesa Little Women fyrir nokkrum árum en ég hafði alist upp við að horfa reglulega á kvikmyndina byggða á bókinni frá 1994 með Winonu Ryder, Kirsten Dunst, Christian Bale og Claire Danes í aðalhlutverkum. Sú kvikmynd er mjög góð og fylgir söguþræði bókarinnar vel eftir, en byggir þó að mestu leyti á fyrri parti bókarinnar. Því er áhugavert fyrir þá sem hafa séð þá kvikmynd að lesa bókina og fá að njóta allrar sögunnar. Ég verð þó að viðurkenna að mér finnst fyrsti parturinn þar sem stelpurnar eru ungar skemmtilegri en seinni parturinn. Það er ef til vill vegna þess að í síðari hluta sögunnar eru þær í hefðbundnari hlutverkum kvenna á þessum tíma, en auðvitað verður maður líka að lesa bókina sem barn síns tíma. Þrátt fyrir að konurnar endi á að sinna ýmsum hefðbundnum kvennastörfum er engu að síður athyglisvert að lesa bók frá miðri nítjándu öld þar sem ungar konur fá að taka sjálfstæðar ákvarðanir um líf sitt og fá að skipta um skoðun og þróast sem persónur, en það var ekki algengt í bókmenntum á þessum tíma.

Ég mæli með að fólk taki sér tíma til að lesa þessa yndislegu bók, málið er formlegt en venst hratt og það sem tengir ólíku systurnar, kærleikur, skín í gegnum blaðsíður bókarinnar.

 

Lestu þetta næst

Að syrgja er að elska

Að syrgja er að elska

Daníel Daníelsson er menntaður í sagnfræði og ritlist og hefur nú gefið út sitt annað skáldverk,...

Eins konar dans

Eins konar dans

Moldin heit er önnur skáldsaga Birgittu Bjargar Guðmarsdóttur en fyrir hana hlaut hún...