Mía, Moli og Maríus – Vandræðasögur, eftir Alexöndru Gunnlaugsdóttur og Fjólu Ósk Aðalsteinsdóttur með mynskreytingum eftir Ragnheiði Jónsdóttur, er samansafn fimm sagna sem allar eiga það sameiginlegt að segja frá vinunum þremur Míu, Mola og Maríusi. Þau eru bestu vinir, en eins og gengur og gerist hjá leikskólakrökkum þá kastast stundum í kekki á milli þeirra. Útgáfa bókarinnar var styrkt af Barnavinafélaginu Sumargjöf sem gerði höfundum kleift að gefa bækurnar í alla leikskóla á landinu. Og líklega er það einmitt þar sem sögurnar eiga eftir að blómstra hvað mest og ná að láta gott af sér leiða, því sögurnar miða að því að kenna börnum samskipti.
Sögurnar eru allar eins uppbyggðar. Þær byrja á því að vinirnir leika fallega saman en svo verður eitthvert atvik til þess að þau fara að rífast eða eitthvert þeirra verður fyrir særindum. Þá kemur kennarinn aðvífandi og spyr hvað hafi gerst. Lesendur fá þá tækifæri til að setja sig í spor Míu, Mola og Maríusar til skiptis. Þannig gefst börnunum tækifæri til að æfa sig í að setja sig í spor annarra og hugsa málin út frá öðrum en sjálfum sér. Nokkrar spurningar eru skrifaðar í bókina svo foreldarar ættu ekki að vera í neinum vandamálum með að uppdikta spurningar fyrir börnin sín. Þó er sennilega hægt að halda uppi heilu samræðunum um hvert atvik fyrir sig. Hver saga er af aðstæðum sem flest börn ættu að kannast við sig í – að segja brandara sem særir, skilja óvart út undan og svo framvegis. Bókinni er ætlað að þjálfa börnin í að setja sig í spor annarra og takast á við ágreining af yfirvegun. Sem sagt; kenna og þjálfa samkennd.
Sögurnar henta leikskólabörnum mjög vel. Þær nota þeirra orðfæri og gerast í mjög kunnuglegu umhverfi. En það er líka hentugt að geta hnykkt á efni bókarinnar heima við, þar sem foreldri og barn geta stúderað viðbrögð og hegðun persónanna. Það er nefnilega mikilvægt að þroska samkenndina. Teikningarnar í bókinni eru mildar vatnslitamyndir í þægilegum og hlutlausum litum. Þær kalla ekki á mikla athygli og eru róandi. Mía, Moli og Maríus eru tímalausar persónur í fötum sem ekki er hægt að festa við eitt tímaskeið. Bókin ætti því að geta lifað nokkuð vel inn í framtíðina. Þó má velta fyrir sér hvort ekki hefði verið betra að gefa sögurnar út sem sjálfstæðar bækur. Ein bók fyrir hverja sögu. Bókin er í nokkuð stóru broti sem gerir það erfitt fyrir börn að skoða bókina og hún er óþjál í höndum. En engum skal dyljast að boðskapur bókarinnar er góður og efni hennar mjög þarft umræðuefni hjá leikskólabörnum.