ADHD í stuttu máli, því hún verður að vera það

28. desember 2024

ADHD fullorðinna kápa

„Ég var að byrja að lesa bók um ADHD.”

„Hvað heitir hún?”

„ADHD í stuttu máli.”

„Já, enda verður hún að vera það.”

Svona var samtalið á milli mín og mannsins míns þegar ég sagði honum að ég væri að lesa bókina ADHD í stuttu máli eftir Edward M. Hallowell. Og mér fannst hann hitta naglann svo algjörlega á höfuðið. Auðvitað þarf bókin að vera í stuttu máli miðað við viðfangsefnið! Annars er hætta á að hún verði hreinlega ekki lesin.

Bókin heitir á frummálinu ADHD explained og íslenska þýðingin kom út hjá Forlaginu núna í ár. Höfundurinn er sálfræðingur með áratuga reynslu af meðhöndlun einstaklinga með ADHD og er sjálfur með ADHD. Bókin var yfirlesin af íslensku ADHD samtökunum sem að mínu mati er ákveðinn gæðastimpill.

Ferrari með reiðhjólabremsur

Bókin er handhægt uppflettirit um það hvernig ADHD hefur áhrif á ýmsu svið lífsins. Snemma í bókinni talar höfundur um að það sé eins og fólk með ADHD sé með „Ferrari-heila með reiðhjólabremsum.” Sú skemmtilega samlíking setur tóninn fyrir það sem á eftir kemur og hjálpaði mér við að setja mig í spor þeirra sem eru með ADHD.

Efni bókarinnar er skipt upp í kafla eftir viðfangsefnum. Þeir eru stuttir og hnitmiðaðir sem er vel. Hægt er að stökkva inn og út úr bókinni án þess að það komi niður á lestrinum.

Bókin er fallega uppsett, litrík og myndræn. Efnið er brotið upp þannig að það er auðvelt að skima textann. Lestrarupplifunin verður mun ánægjulegri þegar það hefur verið vandað svo til verka við uppsetningu. Höfundur talar um það í bókinni að leiðindi séu algjört eitur í beinum þeirra sem eru með ADHD. Sem betur fer er ekki leiðinlegt að lesa þessa bók.

Fólk með ADHD hefur gjarna aðeins tilfinningu fyrir tveimur tímapunktum:

Núna og ekki núna.

Ég get ímyndað mér að það hafi verið vandasamt verk að þýða bókina og stundum fannst mér bera á beinþýðingum sem gerði textann torskildari.

80% fullorðinna sem eru með röskunina vita ekki af því.

Í formála er ekki sparað við stóru orðin en titill hans er einfaldlega: Þessi bók gæti breytt lífi þínu.

Titillinn er lýsandi fyrir löngun höfundar til að hafa jákvæð áhrif á líf þeirra sem eru með ADHD, en mér fannst hann tala sérstaklega til þeirra frekar en aðstandenda. Eldmóður hans skín í gegn í textanum en hann talar af reynslu um neikvæð áhrif ADHD og leggur mikið upp úr því að undirstrika jákvæðu áhrifin. Hvort bókin breyti lífi lesandans skal ósagt látið en ljóst er að hún er bráðskemmtileg, fræðandi og falleg á að líta. Ég mæli með henni fyrir alla sem vilja fræðast um ADHD, en í stuttu máli.

Lestu þetta næst