Í ár er óvenju mikil gróska í útgáfu ljóðabóka og staflinn á náttborðinu mínu stækkar nánast með hverjum deginum. Ljóðin hafa verið að ryðja sér til rúms í jólabókaflóðinu meira og meira með hverju árinu sem líður. Í ár líður mér hreinlega eins og ég sé að drukkna í spennandi ljóðabókum, bæði eftir virt skáld og nýgræðinga. Hér er örlítið brot af ljóðabókunum sem eru að koma út sem undirrituð er sérstaklega spennt fyrir.
Heimskaut eftir Gerði Kristnýju
Það þarf varla að kynna hana Gerði Kristnýju sem sendir frá sér níundu ljóðabók sína þessi jól. Bókin heitir Heimskaut og er kápan einstaklega falleg. Ég hef ekki enn náð að glugga í bókina en þar er farið um víðan völl: „víða er leitað fanga – í heimskautaferðum, blíðri og óblíðri náttúrunni og sögulegum atburðum.“ (forlagid.is)
Þetta er ekki bílastæði eftir Brynjólf Þorsteinsson
Brynjólfur Þorsteinsson vann Ljóðstaf Jóns úr Vör 2019 fyrir ljóðið sitt „Gormánuður“ sem meðal annara ljóða birtist í fyrstu ljóðabók hans, Þetta er ekki bílastæði. Í lýsingu um bókina stendur: „Hér stígur fram nýr höfundur sem er óhræddur við að afhjúpa fáránleika hversdagsleikans með beittum húmor, frumlegri hugsun og litríku myndmáli. Þetta er ekki bílastæði er fjörugur óður til ímyndunaraflsins.“
Dimmumót eftir Steinunni Sigurðardóttur
Dimmumót, tíundu ljóðabók Steinunnar Sigurðardóttur stórskálds, las ég á köldum degi sem hentaði fullkomlega fyrir ferðalagið sem bókin tók mig í. Hún hefst með frásögn af stúlku sem elst upp við rætur jökuls og finnst í rauninni ekki mikið til hans koma, hann er hversdagslegt fyrirbæri í hennar augum. Það er undirliggjandi sorg í textanum þar sem ekki einu sinni jöklar, þessi geysistóru og mikilfenglegu fyrirbæri, eru eilífir. Þetta er bók fyrir þau sem vilja íhuga hamfarahlýnunina frá ljóðrænu sjónarhorni.
Nú sker ég netin mín eftir Svikaskáld
Í haust gáfu Svikaskáld út sína þriðju ljóðabók sem unnin er í skapandi samstarfi sex kvenna. Í ljóðakollektívinu eru Þórdís Helgadóttir, Þóra Hjörleifsdóttir, Fríða Ísberg, Ragnheiður Harpa Leifsdóttir, Sunna Dís Másdóttir og Melkorka Ólafsdóttir. Fyrstu viðbrögð mín við bókinni voru sú að hér séu nútímaljóð um nútímakonuna. Hér eru hæfileikaríkar konur að fjalla um mikilvæg málefni frá einstöku sjónarhorni og mikilli næmni.
Þvottadagur eftir Jónas Reyni Gunnarsson
Það ættu margir að vera farnir að þekkja Jónas Reyni Gunnarsson sem sló í gegn árið 2017 með útgáfu þriggja verka, Leiðarvísi um þorp, Stórum olíuskipum, og Millilendingu. Í fyrra gaf hann svo út skáldverkið Krossfiskar sem mér finnst persónulega hans besta verk. Í ár gefur hann út hjá Páskaeyjunni ljóðabókina Þvottadagur sem er síðasti kafli ljóðabókaþríleiks. Í lýsingu bókarinnar segir: „Bókin lýsir ferðalagi milli þorps og borgar, drauma og veruleika, bernskuminninga og ástarsambanda, og meðal viðfangsefna má nefna dekkjaverkstæði, sorphirðu Reykjavíkurborgar og Michael Jordan.“
Leðurjakkaveður eftir Fríðu Ísberg
Fríða Ísberg hefur nú þegar fengið gífurlega góða undirtektir fyrir aðra ljóðabók sína, Leðurjakkaveður. Í þessari ljóðabók veltir hún fyrir sér tveimur hliðum manneskjunnar, einlægnina sem býr innra með okkur og ytri töffarann sem hylur tilfinningar sínar. Það verður spennandi að lesa bókina á góðri stundu en „hér yrkir hún um viðkvæmni, vörn og togstreituna milli sviðsetningar og sannleika á tímum einstaklingsdýrkunar.“ (forlagid.is)
Edda eftir Hörpu Rún Kristjánsdóttur
Að lokum vil ég segja ykkur frá fyrstu ljóðabók Hörpu Rúnar Kristjánsdóttur sem hlaut nýverið Bókmenntaverðlaun Tómasar Guðmundssonar fyrir Eddu. Ég var einstaklega spennt þegar ég fékk fréttirnar því hér er á ferð ungt og frambærilegt skáld sem hefur áður birt ljóð sín í tímaritum og í ljósmyndabókunum Þingvellir í og úr sjónmáli og On the road in Iceland. Í umsögn dómnefndar kemur meðal annars fram að, „Edda er heillandi og hófstillt verk þar sem hugsanir um æsku og elli fléttast saman, vega salt. Þræðirnir bindast og mynda vef sem sýnir okkur í nýju ljósi svo margt sem við þóttumst vita.“