Vigdís: Bókin um fyrsta konuforsetann er fyrsta bókin sem teiknarinn Rán Flygenring skrifar og teiknar sjálf. Bókin fjallar um ungan og upprennandi rithöfund sem bankar upp á hjá frú Vigdísi Finnbogadóttur og býður sér í kaffi til að skrifa bók um fyrstu kvenforseta í heimi. Hún fræðist um frumkvöðulinn Vigdísi í heimsókninni sem og forsetahlutverkið.
Fyrir hvert selt eintak af bókinni verður ein trjáplanta gróðursett. Þetta er gert í samstarfi við Yrkjusjóð Vigdísar og Skógræktarfélag Íslands. Vigdís var sjálf forsprakki í því að gróðursetja og binda landið á þeim tíma sem það þótti frekar skrítið (og kvenlegt) uppátæki en nú hefur trjárækt orðið ein helsta leiðin til að stemma stigu við gríðarlegu kolefnisfótspori. „Okkur fannst þetta því gott tækifæri til að gefa eitthvað til baka, í anda Vigdísar,“ segir Rán.
Hvaðan spratt hugmyndin að bókinni?
„Það er hún Edda Hafsteinsdóttir sem á heiðurinn að hugmyndinni að þessari bók. Hún bjó ásamt eiginmanni og þremur dætrum sínum í Bandaríkjunum þar sem töluvert hefur verið gefið út af myndabókum um kvenhetjur. Henni fannst vanta bók um íslenska kvenhetju og þar lá Vigdís auðvitað beint við. Edda kom síðan með þessa bók á borð til útgefenda minna, Maríu Ránar og Öglu hjá Angústúru, og í kjölfarið var mér síðan treyst fyrir verkefninu.“
Hvaða erindi á Vigdís til ungmenna í dag?
„Það er svo margt! Í fyrsta lagi er forsetakjör hennar 1980 sagnfræðilega mikilvægt, enda atburður sem ekki bara breytti heimsmynd Íslendinga heldur vakti athygli á heimsvísu. Svo er Vigdís mikill áhugamaður um tungumál, menningu og náttúruvernd, eitthvað sem varðar okkur öll. Svo er bara almennt mikilvægt að segja sögur kvenna og hampa fyrirmyndum eða svo ég vitni í Vigdísi sjálfa sem segir ,,Það mikilvægasta sem ég hef gert í lífinu er að gera ungum konum kleift að hugsa úr því hún getur gert það þá get ég það.““
Hvað viltu að lesendur taki með sér úr bókinni?
„Mig langaði alltaf að þessi bók yrði jafn skemmtileg og hún væri fræðandi, svo ég vona annarsvegar að lesendur ljúki lestrinum í góðu skapi og hinsvegar einhvers vísari um Vigdísi, hennar bakgrunn og hversu stórmerkilegur viðburður kjör hennar var.“
Var eitthvað sem kom þér á óvart við vinnslu bókarinnar? Hvað fannst þér skemmtilegast að skrifa?
„Það kom mér eiginlega á óvart hversu skemmtilegt ferlið var þegar ég loksins komst á skrið. Þetta er fyrsta bókin sem ég skrifa og teikna sjálf og ég fékk mikið kikk út úr því að raða sögunni saman. Svolítið eins og þetta væri eitt stórt púsluspil þar sem þyrfti að finna öllum púslunum pláss. Svo fannst mér geggjað að fá að kynnast Vigdísi og ómetanlegt að fá hana til liðs við mig í handritsyfirlestri, breytingum á orðalagi og þess háttar.“
Hvers vegna velurðu að skrifa fræðibók fyrir börn og unglinga?
„Í þessu tilfelli var það alltaf ljóst að bókin ætti að vera barna- og fjölskyldubók. En alla jafna þá hugsa ég ekkert sérstaklega um fyrir hvern ég er að teikna og skrifa, ég leyfi því bara að flæða fram einsog mér finnst henta sögunni og efninu best og treysti því að ef það er nógu gott muni það finna sína lesendur, hvort sem þeir eru ungir eða eldri.“
Mynd af Rán Flygenring tekin af Sebastian Ziegler