„Bækur fyrir ungt fólk mega ekki eingöngu vera afþreying, heldur líka upplifun“

Friðrik Erlingsson er höfundur bókarinnar Þrettán sem er endurútgáfa bókarinnar Góða ferð, Sveinn Ólafsson en hún kom út árið1998. Sú bók fékk afar góða dóma á sínum tíma en Friðrik fékk Special Prix de Jury verðlaunin eða Sérstök verðlaun evrópskrar dómnefndar fyrir handrit að sjónvarpsmynd sem gerð var eftir þeirri bók. Friðrik  hefur skrifað fjölmargar bækur, kvikmyndahandrit og dægurlagatexta svo fátt eitt sé talið en meðal þekktari bóka hans er þó eflaust barnabókin Benjamín Dúfa.  Sú bók kom út 1992 og hlaut þá Íslensku barnabókaverðlaunin og svo Barnabókaverðlaun Skólamálaráðs Reykjavíkur ári seinna. Hún var svo tilnefnd til Norrænu barnabókaverðlaunanna árin 1993 og 1995. Bókin er enn kennd í íslenskum grunnskólum um allt land og er tímalaust verk sem höfðar til alls aldurs.

Þrettán segir frá skólapiltinum Sveini Ólafssyni sem býr einn með móður sinni. Foreldrar Sveins eru skilin og er pabbi hans sjómaður á varðskipi í miðju Þorskastríði.  Sveinn glímir við hálfgerða tilvistarkreppu sem jafnan fylgir þessum erfiða en skemmtilega aldri og hann saknar pabba síns sem hefur lítið sem ekkert samband við soninn. Ekki bætir úr skák þegar frænka hans á framhaldsskólaaldri flytur inn til þeirra mæðgina og veldur Sveini ýmiss konar hugarangri.  Sagan á að gerast 1976 og spannar örfáar vikur í lífi Sveins, fyrir tíma snjalltækja og þess áreitis sem núna fylgir slíkum tækjum. Við skyggnumst inn í hugarheim drengs sem upplifir allskyns tilfinningar og togstreytu sem fylgir því að kveðja barnsárin og stíga inn í fullorðinsárin.

Við fengum Friðrik til að svara nokkrum spurningum um bækurnar tvær, Þrettán og Góða ferð, Sveinn Ólafsson.

Eru til fyrirmyndir að sögupersónum bókarinnar?

Já, það eru fyrirmyndir, en samt engin ein persóna eða manneskja; frekar eins og kokteill af raunverulegu fólki, þar sem sumir eiginleikar birtast í mismunandi persónum sögunnar. „Þrettán“ er svolítið eins og „Benjamín dúfa“ að þessu leyti, að sagan er miklu frekar byggð á minningum um tilfinningar, heldur en á raunverulegum atvikum. Í tilfelli „Þrettán“ þá eru það minningar um tilfinningar sem bærðust með sjálfum mér á frum-unglingsárum, þegar vitundin byrjar að víkka út og bernskuárum er að ljúka. Þó eru nokkur atriði sem raunverulega áttu sér stað, eins og ýmislegt sem gerist í skólastofunni, til dæmis atriðið með hláturpokanum og hinir skelfilegu stærðfræðitímar Bleiks skólastjóra.

Er öðruvísi að skrifa fyrir unglinga en til dæmis börn eða fullorðna?

Nei, það er ekki öðruvísi að neinu leyti. Ég hef alltaf reynt að vera heiðarlegur og einlægur í skrifum mínum og setja mig ekki á háan hest gagnvart lesandanum heldur reyna að mæta honum sem jafningi. Ég treysti greind og skilningi lesenda til þess að „lesa á milli línanna“ ef svo ber undir og ég reyni ekki að „aðlaga“ efnið einhverjum aldurshópi. Unglingar eru jafn misjafnir einstaklingar og þeir eru margir, eins og fólk yfirleitt, en þeir eiga það eitt sameiginlegt að vera að ganga í gegnum þá líffræðilegu og andlegu umbreytingu sem á sér stað á gelgjuskeiðinu. Það þýðir að saga fyrir unglinga/ungmenni þarf að taka þá staðreynd til greina, að lesendur á þessu aldurskeiði eru að ganga í gegnum miklar sveiflur og eru að upplifa sjálfa sig og umhverfið á alveg nýjan hátt en áður var. Ef hefðbundin barnabók er saga um ævintýri sem gerist á sólbjörtum akri við hliðina á stórum skógi, má segja að hefbundin unglinga/ungmennabók sé sagan sem gerist þegar barnið yfirgefur akurinn og gengur inn í dimma skóginn.

Sagan á að gerast árið 1976 og áhyggjuefni sögupersónunnar er töluvert öðruvísi en áhyggjuefni hennar myndi vera í nútímanum eða hvað? Telurðu að áhyggjur unglinga hafi breyst mikið á þessum árum?

Ég held að unglingar allra tíma glími við sama áhyggjuefnið, sem er í raun og veru aðeins eitt: Hvers virði er ég? Það er sú eilífðarspurning, og eilífðaráhyggja, sem ungt fólk tekst á við, allt frá Agli Skallagrímssyni fram á okkar daga, sem það reynir eftir mætti að finna svar við. Eini munurinn á árinu 1976 og deginum í dag, er sá, að margskonar tækninýjungar hafa litið dagsins ljós og draga að sér töluverða athygli fólks, sérstaklega unglinga og ungmenna. Mér finnst of margar bækur, sem ætlaðar eru fyrir þennan hóp fólks, einblína um of á snjalltæknina og setja hana í aðalhlutverk þegar um samskipti persóna í sögunum er að ræða. Það er kannski viðleitni höfunda til að koma á móts við áhuga ungs fólks á tækninni, en ég er hræddur um að þá minnki áherslan á þá þætti sögunnar sem skipta hinn unga lesenda mestu máli, nefnilega leit persónanna að svarinu við þessari krefjandi spurningu: Hvers virði er ég? Ef höfundi tekst ekki að hafa leitina að þeirri spurn undirliggjandi í sögu sinni, þá mun snjalltæknin í sögunni ekki gera mikið fyrir hinn unga lesanda. Bækur fyrir ungt fólk mega ekki eingöngu vera afþreying, heldur líka upplifun sem vonandi nær að snerta við lesandanum og færa hann nær sjálfum sér á enhvern hátt.

Hvað viltu að lesendur taki með sér eftir lesturinn?

Ég vona að þeir unglingar eða ungmenni sem lesa söguna muni uppgötva að þau eru ekki ein í þessari rússibanareið sem gelgjuskeiðið er. Þótt fullorðið fólk sé undrafljótt að gleyma þessum árum, þá hafa allir fullorðnir gengið í gegnum þetta skeið og það hefur mótað þá og á stóran þátt í því hver þau eru í dag sem fullorðnir einstaklingar. Bæði strákar og stelpur ganga í gegnum mjög sambærilegar tilfinningar, þótt birtingarmyndin sé kannski ólík milli kynja, því tjáning og hegðun kynjanna er mjög ólík, þótt sömu hvatir eða tilfinningar liggi að baki. Já, ég vona að bókin hitti þá einstaklinga fyrir sem líður ekki vel og finnst heimurinn vera svolítið vondur við sig. Og ég vona að við lesturinn muni þeir uppgötva að þannig líður öllum einhvern tímann. Ég vona líka að þeir átti sig á að með því að gefast ekki upp fyrir mótlætinu, heldur treysta á sjálfa sig og gæsku tilverunnar, þá muni allt fara vel.

Þrettán er endurskoðuð útgáfa af bókinni Góða ferð, Sveinn Ólafsson sem kom út 1998, þurftirðu að endurskoða söguna mikið eða á tuttugu ára gömul saga enn erindi til unglinga í dag?

Bókin kom út í Englandi fyrir um 8 árum síðan, undir titlinum „Fish in the Sky.“ Þá endurskoðaði ég söguna með frábærum ritstjóra, Lucy Cuthew, og miðaði þessa nýju íslensku útgáfu við ensku útgáfuna. Endurskoðunin snerist að mestu leyti um að stytta sums staðar, bæta við annars staðar, breyta orðalagi hér og þar, og svo að fjölga kaflaskiptingum. Sagan stendur jafn vel fyrir sínu; hún á sér stað í þessu tímahylki, sem ég miða við miðjan 8. áratuginn, en hún er fyrst og fremst um persónu Sveins Ólafssonar, tilfinningar hans, uppnám og áföll og glímu hans við sjálfan sig og umhverfið – og auðvitað um ástina. Þetta er efni sem mér finnst að eigi erindi við unglinga á öllum tímum.

Myndirðu segja að föðurhlutverkið hafi breytt sýn þinni á söguna sem var skrifuð 1998?

Já, alveg áreiðanlega. Ég á þrjá stráka og elsti sonur minn varð þrettán ára í sumar, sá í miðið varð ellefu ára og sá yngsti sjö ára. Það gleður mig að eldri drengirnir hafa áhuga á að lesa þessa bók, og ég held það sé ekki af einhverri kurteisi við mig, því þeir eru mjög gagnrýnir lesendur. Kannski var það ekki minnst þeirra vegna að ég ákvað að gefa þessari sögu nýtt líf með endurútgáfu. Þeir eru fulltrúar nýrrar kynslóðar sem er á kafi í nýjustu tækni. Og ég held að þeir, og aðrir af þeirra kynslóð, hafi bæði gagn og gaman af því að lesa um persónu sem glímir við svipaða hluti hið innra, en hefur ekki sömu möguleika á að flýja í faðm tækninnar, en neyðist til að horfast í augu við vandann og takast á við hann. Í þessari sögu er líka tekið á þáttum sem eru ofarlega á baugi um þessar mundir, eins og karlmennsku og eitraðri karlmennsku og ekki minnst um samskipti kynjanna, hugleiðingar stráka um stelpur og hugleiðingar stelpna um stráka. Svo það má segja að föðurhlutverkið hafi opnað augu mín fyrir því að þessi saga ætti einmitt erindi til unglinga og ungmenna dagsins í dag.

Við grípum niður í þriðja kafla sögunnar. Sveinn er staddur í skólanum og þar er einnig ástin hans, hún Klara. 

3. kafli – Litocranius walleri

„Lífið og tilveran byggjast á stærðfræði,“ segir skólastjórinn sem kennir reikning eins og hann sé að hvetja úrvinda herdeild til sigurs í fyrirfram töpuðu stríði.

„Stærðfræðin er móðir allra lista, grundvöllur sköpunarinnar og límið sem heldur jörðinni og reikistjörnunum á braut sinni. Stærðfræðin er lífið og lífið er stærðfræði.“

Svo þagnar hann og augun skjóta gneistum í gegnum hornspangargleraugun, það glampar á bleikan skallann. Gráu jakkafötin, hvítur skyrtukraginn og rauða bindið, ásamt gljáburstuðum skónum bera smekk hans fagurt vitni, eins og snyrtilega uppskrifað dæmi. Hann er guð almáttugur og hefur límt sköpunarverkið saman með samlagningu og deilingu og gefið mannkyninu margföldunartöfluna að trúarjátningu. Enginn segir orð frekar en venjulega þegar Bleikur er að kenna. Hvað er hægt að segja eftir að drottinn hefur talað? Enda er hann ekki að bíða eftir svari, heldur aðeins að láta þennan mikla sannleika grafa um sig í hugum okkar, eins og boðorðin tíu á steintöflunum hjá Móse, svo við gleymum aldrei orðum hans.

Hann tekur snyrtilegan blaðabunka af borðinu og byrjar að útbýta prófinu sem við tókum í síðustu viku. Pétur fær sjö komma fimm, ég fæ þrjá. Um stund heyrist ekkert nema skrjáfið í blöðunum og lágvær andvörp og stunur hér og þar í stofunni.

Tveir fyrstu tímarnir á mánudegi í stærðfræði; á þessum stað á mannvonskan sér engin takmörk. Bleikur tyllir sér á horn kennaraborðsins og horfir yfir bekkinn. Hann sest aldrei í kennararstólinn heldur alltaf á borðshornið. Líklega vegna þess að hann er skólastjórinn og getur þess vegna ekki lagst jafn lágt og hver annar stundakennari. Rauða hálsbindið er í dularfullum tengslum við steingrá augun og magnar þau einhvern veginn upp. Hann er greinilega ekki ánægður með frammistöðuna. Það er eins og við höfum sært hann djúpt og gert okkur leik að því að standa okkur illa á prófinu. Bara til að eyðileggja möguleika hans á að vera með hæstu meðaleinkunn í stærðfræði yfir landið. Hann hefur náð því marki tvö ár í röð að lyfta skólanum í hæstu stærðfræðihæðir, en þessi bekkur ætlar að gera draum hans um þriðja vinningsárið í röð að engu. Við höfum brugðist vonum hans algjörlega. Hann tekur af sér gleraugun til að leggja áherslu á orð sín og verður um leið eins og fröken Jensen á svipinn, þegar hún er að kenna kristinfræði, því stærðfræðin er jú hans kristinfræði.

„Þess vegna,“ segir hann, „skulum við ekki gleyma því að góð einkunn í stærðfræði er góð einkunn fyrir lífið.“

Þeir örfáu sem hafa fengið hátt á prófinu sitja teinréttir og stoltir, sannfærðir um velsæld og frama í lífinu, en við hin drúpum höfði, sakbitin og vonlaus og eigum enga framtíð í vændum.

Skólabjallan hringir fram á gangi en það hreyfir sig enginn. Í tímum hjá Bleik skólastjóra er það ekki liðið að menn stökkvi á fætur fyrr en hann segir: Gjörið svo vel. Og þá eigum við ekki að hlaupa út í einni kös heldur ganga prúð og frjálsleg í fasi. Hann bíður þar til bjallan er þögnuð, horfir dapur á gleraugun í höndum sér og muldrar: „Gjörið svo vel.“

Það versta er yfirstaðið og ég var ekki tekinn upp. Hnúturinn í maganum, þessi eilífi kvíði fyrir dauðagöngunni upp að töflu, hjaðnar á leiðinni niður tröppurnar og út á skólalóð.

Og allt í einu stend ég við stóra reynitréð á skólalóðinni og horfi yfir leikvöllinn þar sem stelpurnar í bekknum mínum eru í brennibolta í blíðunni og snjóleysinu. Það er undarleg hlýja í loftinu og það hefur ekki snjóað síðan í janúar. Mér er heitt í úlpunni og klæði mig úr og hengi hana á tréð. Stelpurnar hlaupa léttklæddar í volgri golunni.

Og líklega er það vegna þess að ég er orðinn þrettán að ég sé ekki bara hóp af furðuverum með tagl og tíkarspena, sem tala óskiljanlegt tungumál og lifa fyrir hvíslingar og leyndarmál heldur fríðan hóp af gazellum sem eru fíngerðar og liprar, fagureygar, nettar og fráar á fæti og ólga af krafti og þokka.

En það er ein sem ber af öllum hinum: Klara Filippusdóttir. Eru augu hennar græn eða skipta þau litum? Þau eru eins og rennandi vatn sem himinninn speglast í aðra stundina, en hina sér maður marglita steina glitra á botninum. Hárið, sítt og svart og rennislétt, eins og hljóðlaus foss af sindrandi myrkri. Hálsinn er langur og hvítur, og þar sem slagæðin hverfur á bak við eyrnasnepilinn, rétt við ávalt horn kjálkans, er mjúkur staður þar sem ég get hvílt augu mín til eilífðar. Smáar og rauðar varir, sú neðri örlítið þykkari; þessar varir eiga fallegasta bros sem til er. Ef hinar stelpurnar eru eins og gazellur þá er hún eins og gíraffagazellan, Litocranius walleri. Gíraffagazellan hefur langan og fallegan háls og er mjög háfætt. Nefið er mjótt og varirnar eru mjög hreyfanlegar. Kviðurinn er hvítur en fæturnir ljósir að innanverðu og aftan á lærum. Hún hefur mjög þroskaða kirtla og dökkbrúnir skúfar sýna hvar þá er að finna. Þetta hef ég allt skráð í bókina mína Lífið og tilveran upp úr náttúrulífsþætti fyrir löngu síðan, en nú finnst mér sem ég sjái Klöru í mynd gazellunnar hlaupa frjálsa og sterka um gresjur Afríku. Um leið finnst mér ég sjálfur ekki verða að neinu, í hæsta lagi að mosaskóf á berki reyniviðartrésins. Ég er viss um að liti hún í áttina til mín sæi hún ekkert nema gamla tréð. Svo gjörsamlega renn ég út í ekki neitt.

Fleiri bekkir koma hlaupandi út á lóðina og einhver hrópar: „Strákar að elta stelpur!“ Um leið fara þær að öskra og hlaupa í allar áttir, skrækjandi og veinandi, en villidýrin ryðjast út úr skógarþykkninu og út á gresjuna þar sem styggð er komin að gazellunum, sem í örvæntingu reyna að finna undankomuleið. Ég finn hjartað slá og blóðbragð í munninum, æsandi fiðring læsast um kálfana og hríslast upp lærin.

Ég stekk af stað.

Og þá hægist á öllu; ég hleyp í löngum skrefum, svíf í loftinu í háu stökki og kem mjúklega niður, spyrni við fæti svo mölin þrýstist undan táberginu og þyrlast upp fyrir aftan mig og hangir í loftinu um stund. Ég er hinn ógurlegi blettatígur, Acinonyx jubatus. Ekkert dýr hleypur hraðar en blettatígurinn, sem getur komist á hundrað og tuttugu kílómetra hraða á klukkustund. Þegar hann er á veiðum velur hann fljótlega eitt dýr úr hjörðinni og einbeitir sér að því. Um leið og hann er kominn til hliðar við fórnarlambið rennir hann flugbeittri þumalklónni úr slíðri sínu, krækir henni í dýrið og veltir því um koll.

Svart hárið slæst til í loftinu fyrir framan mig og ilmur hennar fyllir vit mín. Ég teygi höndina fram.

Tígurinn heldur fórnarlambinu niðri með annarri framloppunni en með hinni rykkir hann höfði þess afturábak svo langur og mjúkur hálsinn blasir við, þar sem slagæðin bólgnar af blóðinu rauða. Þá sökkvir hann hvítum vígtönnum niður í holdið; skinnið brestur og blóðið fossar.

Ég gríp fingrunum í öxl hennar en hún snýr sér undan, lipur og nett og eitt augnablik mæti ég leiftrandi augum hennar, grafkyrrum, mitt í hægum dansi hraðans. Og ég blæs út af þrótti. Hún vindur upp á sig, stolt og sterk, og breytir um stefnu; ég næstum hlaupinn á hana, skrikar fótur, en næ taki á öxl hennar, um leið og ég missi fótanna og tek hana með mér í fallinu.

Hægt, hægt hrapa ég á bakið niður í mölina, hún svífur fyrir ofan mig í lausu lofti, fellur nær og nær, munnur hennar opnast í undrun, augun stækka, hún lendir á mér og líkamar okkar þrýstast fast saman eitt langdregið brot úr sekúndu; svart hárið vefst um andlit mitt, sætur ilmur umlykur mig og langur hvítur hálsinn strýkst mjúklega við varir mínar, ég finn slagæðina, finn mjúka staðinn þar sem æðin hverfur á bak við eyrnasnepilinn.

Skerandi öskur rýfur hljóðmúrinn um leið og hún hrindir mér frá sér og stekkur á fætur með írafári, dustar hvítu peysuna sína og stendur lafmóð yfir mér þar sem ég ligg eins afglapi í mölinni, depla augum, nývaknaður af sætasta draumnum, töfrarnir horfnir, allt á réttum hraða: Á alltof réttum hraða.

„Þurftirðu að fella mig?“ segir hún byrst og hvessir á mig augun með þöndum sjáöldrum á meðan ég brölti á fætur.

Kinnar hennar eru rauðar, hárið úfið og einn lokkur fastur við hægra munnvikið. Hún setur hann aftur fyrir eyrað með snöggri hreyfingu og hagræðir tveimur hárspennum. Hún er með perludropa í eyrnasneplunum. Ég stend eins og nátttröll að horfa á sólina koma upp og veit að það er orðið of seint að hlaupa í felur. Ég er orðinn að steini.

„Ég ætlaði ekki…,“ stama ég.

Ég er um það bil að gleyma öllum orðaforða, þegar hún lyftir höndinni og ég sé hvítan lófa hennar á lofti og finn brennandi sviða á vinstri vanga löngu áður en ég heyri smellinn af löðrungnum.

Golan er ennþá hlý og einhvers staðar í hverfinu er einhver að banka ryk úr teppi á snúru og taktföst höggin berast á milli húsanna. Eða er það bergmálið af hjartslætti mínum?

Bjallan hringir út yfir skólalóðina sem tæmist á svipstundu; krakkarnir hlaupa í átt að skólanum, þröngva sér inn um dyrnar og upp stigann. Ég stend einn eftir á skólalóðinni með svíðandi vanga og hjarta í ljósum logum.

 

 

Lestu þetta næst

Eins konar dans

Eins konar dans

Moldin heit er önnur skáldsaga Birgittu Bjargar Guðmarsdóttur en fyrir hana hlaut hún...