Helköld sól: Í leit að Ísafold

Spennusagan Helköld sól er nýjasta bók Lilju Sigurðardóttur, sem hefur held ég skrifað einar sjö bækur. Af þeim hef ég bara lesið eina, Svik, sem kom út í fyrra og mér fannst bara sallafín. Lilja hefur sterk höfundareinkenni og mér fannst það strax á þessari einu bók sem ég hafði lesið að hún hefði nokkra sérstöðu innan glæpasagnageirans. Glæpasögur, og sérstaklega norrænar, eiga það til að vera uppfullar af óttalegum barlómi, sem er víðsfjarri í þessum tveimur bókum sem ég hef núna lesið eftir hana. Engu að síður verð ég að segja að ég var ekki alveg nógu ánægð með þessa nýju bók.

Helköld sól segir frá Áróru, hálfíslenskri konu sem býr í Bretlandi og hefur lítinn áhuga á Íslandi. Ekki síst af því að hún þarf reglulega að ferðast þangað til að hlúa að systur sinni Ísafold sem er beitt alvarlegu heimilisofbeldi. Þegar sagan byrjar hefur hún klippt á allt samband við systur sína en mamma systranna neyðir Áróru í enn eina ferðina þegar ekkert hefur heyrst í Ísafold í þrjár vikur. Sjónarhornið flakkar á milli fjögurra persóna (minnir mig, það er komin meira en vika síðan ég las bókina, þið afsakið): þeirra Áróru, fjölskylduvinarins og sumarleyfislöggunnar Daníels og svo tveggja nágranna Ísafoldar, þeirra Olgu og Gríms.

Sögupersóna með hina andstyggilegustu þráhyggju

Lesandanum er frá upphafi ljóst að Ísafold er dáin. Bókin hefst á örstuttum kafla þar sem karlmaður stendur yfir kvenmannslíki í ferðatösku úti í hrauni. Spennan felst því eingöngu í spurningunni hvaða maður þetta sé eiginlega. Grunsemdir lesandans falla til skiptis á ofbeldisfulla sambýlismanninn Björn, furðufuglinn Grím og svo Ómar, ungan hælisleitenda með alvarlega áfallastreituröskun sem Olga hefur skotið yfir skjólshúsi. Allir virðast þeir haldnir einhverri þráhyggju gagnvart Ísafold. En, það tekur heila eilífð fyrir Áróru að kveikja á perunni um að mögulega hafi systir hennar ekki bara farið í frí til sólarlanda án þess að láta nokkurn mann vita. Því það er sumsé það sem hún heldur í sirka 200 blaðsíður af 300. Að systir hennar, sem bjó með snarklikkuðum ofbeldismanni og enginn hefur heyrt né séð í meira en þrjár vikur, hafi bara farið í reglulega langt og gott frí til að slaka á.

Ef ég hefði ekki ætlað mér að skrifa þessa færslu, þá er ég ekki viss um að ég hefði klárað bókina. Bæði byrjar hún svona ógnarhægt og svo hefur fyrri hluti bókarinnar mjög alvarlegan galla. Ef til vill er þetta ekki stór galli í augum margra, en ég átti ákaflega erfitt með þetta. Grímur, skrítni nágranninn, er nefnilega með rakstursáráttu. Hann rakar öll líkamshár, þar með talið augabrúnirnar, sirka þrisvar á dag. Þessu lýsir höfundur reglulega oft og af stakri natni. Hjálp! Ég gerði ósjálfráðar tilraunir til að lesa þessa kafla með lokuð augun.

Óþörf aðalpersóna

Bókin tekur nú samt verulega við sér í seinni hlutanum svo ég er fegin að ég hélt lestrinum til streitu. En um leið og söguþráðurinn var orðinn spennandi og búið að koma því nægilega vel til skila að Grímur væri alltaf að raka sig, þá kom ákveðinn galli enn betur í ljós. Það er aðalpersónan Áróra. Við getum líka bætt við hlandvolgu ástarviðfangi hennar, sumarleyfislöggunni Daníel. Þau eru bara bæði frekar óáhugaverð og ekki einu sinni langar samræður við sérvitran eðlisfræðing í dragi geta bjargað þeim fyrir horn.

Það er eitthvað mótsagnakennt við þær upplýsingar sem lesandinn fær um Áróru. Hún er víst mjög íslensk í útliti, en lítur á sig sem Breta og talar íslensku með hreim. Samt er einhvern veginn það eina breska við hana að henni finnst skrítin lykt af sturtunni, þarf að minna sig á að fara úr skónum í anddyrinu og annað álíka. Þegar við bætist að Daníel er stöðugt að pirra sig á álfasteini í garðinum þá keyrði nú um þverbak. Það var eins og það væri verið að tikka í einhver box fyrir erlenda lesendur. Áróra er líka einhvers konar peningaeinkaspæjari og getur með yfirnáttúrulegum hætti ekki bara fundið horfna peninga á svissneskum bankareikningum heldur tæmt þá og fært féð yfir á sína eigin reikninga. Samt getur hún ekki dröslast til að athuga hvort systir sín hafi keypt flugmiða úr landinu eða ekki. Nei, þess í stað eyðir hún tíma sínum í fremur óspennandi hliðarplott um íslenskan fjárglæframann. Að auki er hennar helsta áhugamál að velta sér nakin upp úr hrúgu af peningaseðlum. Ég bara náði engri tengingu við þessa persónu.

Almennt séð skortir Helkalda sól þá næmni sem mér fannst einkenna umfjöllun um alls konar erfið mál í Svikum. Það var bara í köflunum um Olgu sem mér fannst bókin ná sömu hæðum og Svik, þó Grímur væri líka sterk persóna og kaflarnir um hann þeir mest spennandi.

Helköld sól er alveg spennandi bók, fyrst þarf maður bara að lesa sig í gegnum dálítið mikið af ráðvilltu ástarlífi hálfíslensks peningaspæjara og rauðbleikri, viðkvæmri húð manns með alvarlega þráhyggjuröskun.

Lestu þetta næst

Eins konar dans

Eins konar dans

Moldin heit er önnur skáldsaga Birgittu Bjargar Guðmarsdóttur en fyrir hana hlaut hún...