Ég er mikil áhugakona um unglinga og ungmennabækur og verð að segja að oftar en ekki verð ég fyrir vonbrigðum þegar ég les bækur fyrir þennan hóp. Íslenskir höfundar falla alltof oft í þá gryfju að ætla sér að skrifa fyrir þennan aldurshóp en miða bækurnar sínar samt líka við yngri lesendur. Sem svo aftur gerir það að verkum að unglingar og sérstaklega ungmenni missa áhugann á lestrinum. Það var mér því mikið gleðiefni að lesa bók Sifjar Sigmarsdóttur Ég er svikari. Sif skrifaði þá bók á ensku og hún kom út í Bretlandi 2017 og hlaut afar góða dóma. Ég las hinsvegar íslensku þýðingu Höllu Sverrisdóttur.
Bókin fjallar um Amy sem er fjórtán ára og býr í London með foreldrum og systkinum. Bróðir hennar, Andrew er sextán ára en litla systir hennar er á leikskólaaldri. Íbúar London sem og aðrir jarðarbúar eru í heljargreipum. Dularfullar geimverur hafa gert vart við sig á jörðinni og virðast hafa sérstakan áhuga á ungmennum á aldrinum 14 til 19 ára. Rafmagnið er farið, það ríkir útivistarbann og matur er af skornum skammti. Og ungmenni hafa horfið í greipar geimveranna hvert á fætur öðru og fólk er óttaslegið. Bróðir Amyar er horfinn sem og vinkonur hennar. Í samráði við örvæntingarfulla foreldra (þó ekki hennar eigin) ákveður Amy að fórna sér til þess að freista þess að bjarga öllum þeim ungmennum sem hafa horfið og þar með framtíð jarðarbúa.
Bókin er listilega vel skrifuð, fléttan vel spunnin og hnökralaus. Persónusköpunin er sannfærandi og vel hægt að spegla umræður okkar og áhyggjuefni nútímans í persónum í bókinni. Bók er ætluð ungmennum og unglingum og skrifuð sem slík, sem er afar hressandi. Litlu systkinin verða því að finna sér eitthvað annað að lesa enda af nógu af taka. Unglingarnir þurfa að fá að hafa sitt í friði og það skilur Sif Sigmarsdóttir.
Bókin deilir á þau málefni sem standa okkur næst í dag – það er hvernig við höfum í sjálfselsku og græðgi spilað þannig úr málum að jörðin er að skemmast, lífríkið að breytast og þróunin öll þannig að miðað við núverandi stöðu og núverandi hugsunarhátt þeirra sem ráða ríkjum stefnum við í svo mikið óefni að ekki verður aftur snúið.
Geimverurnar í bókinni áttu sína plánetu, lifðu góðu lífi. En það var ekki nóg, þær vildu fullkomnum og tóku til við að breyta náttúrunni smátt og smátt. Erfðabreytt börn fæddust, fóstrum var markvisst breytt til að hægt væri að fá fram ákveðið útlit, ákveðna skapgerð. Og með tímanum misstu þeir stjórn á þessu, ákveðnar tilfinningar þurrkuðust út í þessum tilfæringum á DNA. Fólk fæddist sem gat ekki sýnt samúð og börnin áttu að vera fullkomin – bæði í útliti og skapgerð. Sem endaði með því að aðeins ríka fólkið gat eignast „fullkomin“ börn en hinir sem enga peninga áttu eignuðust „ófullkomin“ börn. Sem svo gat af sér gríðarlega stéttaskiptingu. Hinir fullkomnu drottnuðu yfir þeim sem voru ófullkomin og notuðu þau sem þræla. En þetta var ekki nóg. Það þurfti líka að breyta heiminum, gera hann fullkominn í þeirra þágu, klóna einstaklinga og lífverur og matvæli voru framleidd á tilraunarstofu. Og á endanum varð fjölgunin hjá þessum fullkomnu lífverum óframkvæmanleg á gamla mátann og hvað gera geimverur þá? Jú þær fara á stjá og finna ungt fólk á annarri plánetu með þeim tilgangi að nota þetta fólk til útungunar.
Sumt af þessu hljómar afskaplega kunnuglega verð ég að segja. Þetta endalausa fikt okkar mannanna við náttúruna getur ekki endað vel. Nú þegar erum við farin að klóna dýr og við erum farin að fikta við fósturvísa til þess að geta framkallað ákveðið kyn. Læknastofur út í heimi eru farin að bjóða foreldrum upp á að velja hvers kyns barnið þeirra verður. Það er gert á tvennskonar vegu, annars vegar með því að velja sæðisfrumur eftir kynlitningum og hins vegar með því að velja „rétta kynið“ úr frjóvguðum eggjum. Í þeim löndum þar sem drengurinn er mikilvægari stelpunni á þeim forsendum að hann haldi uppi nafni ættarinnar og stúlkubörn eru talin einskis virði þá sjáum við hvernig þróunin á þessu verður. Síðan verður farið að útrýma óæskilegum einkennum – tilfinningum. Við erum þegar farin að útrýma óæskilegum fóstrum, fóstrum sem hætta er á að séu með ákveðin heilkenni. Og það er talað um að hægt sé að framkalla ákveðna húðliti eftir óskum foreldra, algjörlega óháð því hver húðlitur foreldranna sé.
„það væri auðvitað fínt að losna við sjúkdóma. Og ég fatta alveg af hverju það gæti verið kostur að strauja aðeins úr tilfinningasveiflunum í lífinu. En að ræna fólk hæfileikanum til að upplifa ást? Er það ekki ansi hátt gjald?“(272)
Og hvar á að stoppa? Og hver á að ákveða hvenær og hverju sé breytt? Við erum fyrir löngu farin að erfðabreyta matvælum án þess að hafa hugmynd um hvaða áhrif það kemur til með að hafa á lífríkið okkar til lengri tíma. Og eins og geimverurnar, hvað gerum við þegar sú staðreynd er orðin okkur ljós að jörðin er að skemmast og verður óbyggjanleg á einhverjum tímapunkti? Jú við gælum við þá tilhugsun að hægt sé að hefja líf á öðrum plánetum. Til hvers? Til að eyðileggja allt þar og byrja ruglið upp á nýtt? Og hvað gerum við fullorðna fólkið þegar í óefni er komið? Við hugsum til skamms tíma og vonum að komandi kynslóðir reddi þessu, Amy og Andrew okkar tíma. Þessi bók á erindi til allra ungmenna og unglinga en ekki síður til okkar sem erum fullorðin. Þessi bók fær fimm stjörnur.