Náðarstund er fyrsta skáldsaga ástralska höfundarins Hönnu Kent. Eins og margir vita var hún skiptinemi á Íslandi þegar hún heyrði fyrst um Agnesi Magnúsdóttur og söguna af síðustu aftökunni á Íslandi. Bókin kom út árið 2013 og heitir á frummálinu Burial rites. Hún kom út í þýðingu Jóns St. Kristjánssonar árið 2014 og hlaut hann tilnefningu til Íslensku þýðingarverðlaunanna. Bókin hefur verið þýdd á mörg tungumál og hefur notið mikilla vinsælda víða um heim. Hanna Kent hefur einnig skrifað aðra bók, The good people, sem kom út árið 2016.
Árið 1829
Bókin gerist að mestu á Íslandi árið1829 þar sem Agnes Magnúsdóttir og tvö önnur ungmenni hafa verið dæmd til dauða fyrir að myrða tvo menn. Sagan á sér stað á því tímabili frá því að Agnes er dæmd og þar til hún er tekin af lífi. Á meðan hún bíður aftöku er henni komið fyrir hjá hreppstjóranum og fjölskyldu hans þar sem flestir á heimilinu hræðast Agnesi og vilja sem minnst með hana hafa. Þorvarður aðstoðarprestur á að undirbúa hana fyrir það sem koma skal en ýmislegt kemur upp úr kafinu í samtölum þeirra.
Síðasta aftakan
Ég var spennt að lesa Náðarstund af því að ég hafði heyrt svo mikið talað um hana. Í fyrstu hafði ég ekki áhuga á að lesa um síðustu aftökuna á Íslandi en þegar ég spurði fólk hvað því fannst um söguna sögðu flestir það sama: „Hún er áhrifamikil og falleg.“ Ég gat einhvern veginn ekki ímyndað mér að söguefnið um síðustu aftökuna á Íslandi gæti verið fallegt en sagan er svo sannarlega áhrifamikil. Hún segir frá hræðilegum atburðum og sumt var hreint út sagt erfitt að lesa. Þetta er tilfinningaþrungin bók og lesandinn fær að upplifa sorg, eftirsjá og örvæntingu aðalpersónunnar sem hefur verið dæmd til dauða.
Höfundur eyddi tveimur árum í að rannsaka söguna og ber bókin þess vitni. Hún veitir innsýn í hvernig lífið á Íslandi var á öldum áður og oft blöskraði mér harðneskjan, fátæktin, og bág skilyrði sem fólk lifði við. Hvað eftir annað stóð ég mig að því að hugsa: Var þetta í alvörunni svona? Heilu fjölskyldurnar og vinnuhjú sváfu saman í litlu rými í kulda og raka með heykodda. Vinnuharkan var gífurleg, matur var af skornum skammti og persónulegt rými var varla til staðar. Á meðan kvarta ég undan því þegar fólk stendur of nálægt mér í röðinni út í búð þar sem ég á erfitt með að ákveða hvað ég á að hafa í matinn þar sem úrvalið er svo mikið.
Vönduð og heillandi frásögn
Bókin er grípandi og fallega skrifuð. Ég hef ekki lesið hana á frummálinu en man eftir að hafa heyrt þá skoðun að það væri eins og Íslendingur hefði skrifað hana. Það er held ég að miklu leyti snilli þýðandans að þakka og þýðingin glæðir söguna miklu lífi. Ég verð að viðurkenna að ég var mjög lengi að lesa bókina enda er hún ekki beint auðlesin. Oft eru notuð torskilin og háfleyg orð sem er reyndar alveg í anda þess tíma þegar sagan gerist en stundum fannst mér það full vel í lagt. Bókin fer hægt af stað og framvinda sögunnar er almennt hæg. Skemmtilegast fannst mér þegar við fáum að skyggnast inn í hugarheim Agnesar en bókin er skrifuð út frá sjónarhóli nokkurra persóna. Bókin hefur hlotið fjölda verðlauna og unnið er að því að gera kvikmynd eftir sögunni. Náðarstund er krefjandi bók aflestrar sem lætur engan ósnortinn og veitir áhugaverða innsýn í íslenskt samfélag fyrr á tímum.