Ég veit að mörgum finnst að vampírubækur séu almennt orðnar þreyttar en mér fannst Vampire Academy bókaflokkurinn eiga skilið að fá smá umfjöllun enda á hann dyggan aðdáendahóp um allan heim og passar vel inn í þema mánaðarins sem er kvikmyndaðar bækur. Vampire Academy kom út árið 2007 og er fyrsta sagan í bókaflokki bandaríska rithöfundarins Richelle Mead um vinkonurnar Lissu og Rose. Mead hefur skrifað fjölda bóka en þessi bókaflokkur er án efa sá þekktasti. Alls eru bækurnar sex talsins og hafa þær notið mikilla vinsælda um allan heim. Árið 2014 var frumsýnd bíómynd sem fylgdi fyrstu bókinni. Ég varð reyndar fyrir talsverðum vonbrigðum með bíómyndina og leyfi mér að segja að hún er ekki góð, allavega ekki miðað við bækurnar. Það sem misheppnaðist við gerð myndarinnar að mínu mati er að dularfullu og drungalegu yfirbragði bókanna var breytt í Hollywood menntaskóladrama sem endaði á því að taka talsvert frá upprunalegu sögunni.

Á flótta undan vampírum

Í byrjun bókarinnar kynnumst við þeim Lissu Dragomir og Rose Hathaway. Vinkonurnar eru á flótta undan einhverju eða einhverjum. Fyrir tveimur árum struku þær úr vampíruskólanum St. Vladimir þar sem þær töldu sig ekki öruggar þar lengur. Þetta veldur talsverðum vandræðum þar sem Lissa er næsti erfingi vampírukrúnunnar. Helsta markmið skólans er að kenna nemendum að verja sig fyrir hinum illu og árásagjörnu Stragoi vampírum sem er nánast ómögulegt að drepa. Rose er hörkutól sem er fljót að svara fyrir sig en Lissa er feimin og til baka. Vinkonurnar nást á flóttanum og þeim er dröslað aftur í skólann þar sem fleiri hættur leynast en þær óraði fyrir.

Bókaflokkurinn verður meira spennandi með hverri bókinni. Fyrstu þrjár bækurnar gerast í vampíruskólanum en næstu þrjár fyrir utan skólann. Mér finnst seinni bækurnar í flokknum betri en þær fyrri, kannski vegna þess að það er meira í þær spunnið hvað varðar pólitík og plott. Það er líka svo mikilvægt hvernig bókaflokkar enda. Ég þoli ekki þegar bókaseríur enda í lausu lofti og eitthvað sem maður er búinn að bíða eftir að fá að vita í gegnum fjölda bóka er enn óljóst í lokin. Sjötta bókin í bókaflokknum rammar söguna vel inn og svarar þeim spurningum sem vöknuðu við lestur hinna bókanna.

Fortíðarþrá sem yljar

Undanfarið hef ég verið öll í því að lesa aftur bækur sem ég las þegar ég var barn eða unglingur. Þegar ég rakst á Vampire Academy bækurnar í Nexus fyrir nokkrum vikum fylltist ég fortíðarþrá og ákvað ég að lesa þær aftur. Áður en ég byrjaði að lesa fyrstu bókina aftur rifjaði ég upp hvað það var sem stóð upp úr hjá mér þegar ég las hana síðast. Mér fannst hún spennandi en það sem sat hvað fastast í mér var hið einstaka samband milli þessara tveggja vinkvenna. Á milli þeirra er sterk tenging sem spilar lykilhlutverk í sögunni. Sagan er sögð frá sjónarhorni Rose sem er flott og kraftmikil aðalpersóna. Hún er með frekar ýkta persónuleika, hvatvís en mjög fyndin. Ég alveg elska þegar bækur fá mig til að skella upp úr og það voru nokkrar svoleiðis senur í fyrstu bókinni.

Inniheldur allt sem prýðir góðar furðusögur

Vampire Academy er létt og skemmtileg unglingasaga. Bókin er lipurlega skrifuð og í henni er allt sem á að vera í góðri furðusögu;  galdrar og yfirnáttúrulegar verur, fullt af spennu og smá rómantík. Ég mæli eindregið með því að lesa aftur bækur sem ykkur þóttu góðar á árum áður því það er öðruvísi upplifun í hvert skipti, allavega þegar maður les þær á tólf ára fresti eins og ég gerði í þetta sinn. Veit samt ekki hvort ég lesi þessar bækur þegar ég er komin á fertugsaldurinn en það er aldrei að vita.

 

 

 

Lestu þetta næst

Eins konar dans

Eins konar dans

Moldin heit er önnur skáldsaga Birgittu Bjargar Guðmarsdóttur en fyrir hana hlaut hún...