Fimmta þætti Bókamerkisins var streymt miðvikudaginn 13. maí. Díana Sjöfn Jóhannsdóttir, bókmennta- og menningarfræðingur og viðburðarstjóri Bókasafns Garðabæjar, stjórnaði umræðum. Hún fékk til sín Ötlu Hrafneyju, formann íslenska myndasögusamfélagsins og Sigfús Jóhannsson, teiknara, til að ræða um myndasagnaformið. 

Myndasögursamfélagið hefur lengi þurft að glíma við slæmt viðhorf hins almenna lesanda. Viðhorfið hefur oftar en ekki einkennst af því að myndasögur séu ekki fyrir fullorðna, heldur séu þær frekar fyrir börn. Sú sé þó ekki raunin, heldur séu myndasögur jafn fjölbreyttar og textabókmenntir. Hægt er að finna allann bókmenntaskalann í myndasögum. Í spjallinu kemur líka fram að útgáfa á íslenskum myndasögum stendur mjög höllum fæti og fá tækifæri séu fyrir íslenska myndasagnahöfunda til að koma efni sínu á framfæri.

Öll bókmenntahefðin í myndasöguformi

Þegar ræða á um myndasögur er af mörgu að taka. Það er til allur skarinn af myndasögum, þrátt fyrir að fleistir hafi þá rörsýn á myndasögur að þær fjalli eingöngu um ofurhetjur. Flóra myndasagna er þó mun fjölbreyttari og í raun jafn margbreytileg og aðrar bókmenntir. Þær fá þó ekki að sitja í hillum með öðrum bókum og eru alltaf flokkaðar sér – sem myndasögur. Það hefur svo borið á því á seinni tíð að margar myndasögur hafi fengið titilinn „grafískar skáldsögur“ en Díana veltir fyrir sér í upphafi þáttar hvort að þessi titlun sé gefin ákveðnum verkum til að gefa þeim aukið gildi í bókmenntalegri umræðu, þar sem viðhorf til myndasagna hefur lengi verið aðallega tengt við áhuga barna og ákveðinna hópa. 

Strandaglópur á krossgötum er myndasaga um núvitund. Útg. Froskur útgáfa.

„Myndasögur eru sinn eiginn miðill,“ segir Atla Hrafney. Myndasögur væru ákveðinn miðill út af fyrir sig og ættu sér ákveðna sérstöðu. Myndasögur vinni meira út frá myndlæsinu heldur en textalæsinu, en samtvinna þessa þætti samt á ákveðinn hátt. 

Sigfús velti því fyrir sér á sama tíma hvort að titlunin grafískar skáldsögur væru til að vinna sig frá slæmi viðhorfi sem myndasögur höfðu á sér á árum áður. Atla Hrafney mótmælti því á ákveðin hátt og sagði að skilningurinn á hugtakinu væri búinn að víkka. 

Myndasögur eru auðvitað mjög opinn miðill og margt hægt að gera með formið. Það eru til myndasögur fyrir börn og fullorðna þar sem alls kyns sögur eru sagðar en einnig er hægt að notfæra sér miðilinn sem ákveða listsköpun. 

Kvikmyndirnar draga fleiri að

Sagan af Hulk og Bruce Banner hefur verið margkvikmynduð og án efa dregið fleiri aðdáendur að myndasögurforminu.

Litið var niður á myndasögur áður, þær tilheyrðu aflokuðum hópum – nördum. Díana velti því upp spurningunni hvort að það hefði eitthvað breyst á síðustu árum og hvað hefði þá orðið til þess að sú viðhorfsbreyting átti sér stað. Atla Hrafney sagði að myndasögur væru ekki lengur bundnar við ákveðna hópa eða ákveðin samfélög og þar hafi kvikmyndasköpun út frá myndasögum, á borð við Marvel eða DC ofurhetjumyndirnar, hjálpað mjög mikið. Myndasagan sé orðin aðgengilegri fyrir stærri hóp af fólki heldur en áður. En á sama tíma hefi ekki orðið mikil breyting á því hvaða bækur séu gefnar út. Það virðist vera sem útgáfumarkaðurinn litist mjög af ákveðnum sögum sem séu vinsælastar. Það sé hæg breyting á markaðnum. Sigfúsi fannst erfitt að festa fingur á því hvers vegna viðhorfið gagnvart myndasögum sé eins og það er. Margir telji að myndasögur séu bara ofurhetjusögur eða Andrés Önd en hafa enga hugmynd um alla flóruna. Svo gætu margir viljað bara horfa á kvikmyndirnar en fari þar af leiðandi á mis við upplifunina sem fæst við að lesa myndasögurnar. Atla Hrafney sagði einnig að margir haldi að þeir lesi ekki myndasögur en svo komi á daginn að viðkomandi lesi myndasögu – til dæmis á vefnum eða myndasögur í morgunblöðum.

Myndasögur og hin bókmenntalega umræða 

Ef til vill hafa myndasögur verið hunsaðar í hinni bókmenntalegu umræðu, enda ekki hefðbundinn texti í bókunum. Skortur á umræðu hafi jafnvel mótandi áhrif á viðhorf almennings til myndasagna. Atla Hrafney bendir á að umræða um myndasögur séu oft á sérviðburðum og umræða sterk í lokuðum hópum. En á sama tíma sé erfiðara að komast í tæri vi myndasögur og þar að auki gleymist að hafa þær með þegar fjalla eigi um allar bókmenntir. Það vanti mögulega einhverja sameiningu á milli myndasagna og annara ritbókmennta. Sigfús nefnir að í gegnum tíðina hefi viðhorf fullorðinna verið þannig að myndasögur séu slæm lesning fyrir börn og því hafa myndasögur oft flokkast undir ákveðið tabú eða eitthvað sem er utan bókmennta. Þetta viðhorf hefur þó batnað að einhverju  leyti og myndasögur hafi fengið ákveðna uppreisn æru. Á seinni tíð hefur umfjöllunarefni myndasagna orðið alvarlegra og dýpra. Flóran hefur stækkað og það er til efni fyrir alla. Að vissu leyti hafa augu opnast fyrir möguleikum miðilsins. 

Myndasögur og læsi 

Þetta viðhorf til myndasagna, að þær séu ekki nægilega góður lestrarundirbúningur fyrir börn og þá sem eru að læra að lesa, hefur loðað lengi við miðilinn. Þá hafa til dæmis komið upp þau rök að myndasögur skilji ekki nógu mikið eftir fyrir ímyndunaraflið og að þær fóðri lesandann of mikið. Sem er áhugavert ef maður ber það saman við umræðurnar sem fóru fram í þætti Bókamerkisins um barnabækur, en þar kom fram að mögulega væru ungir lesendur orðnir svo vanir myndamiðlun og væru því að kalla eftir aukinni myndskreytingu. Væru því myndasögur ekki einmitt mjög hentugar fyrir unga lesendur sem eru að æfa sig í dag? 

Þáttastjórnanda til furðu þá voru Atla Hrafney og Sigfús ekki endilega sammála því. Að vissu leyti væru þær tilvaldar til að efla lestur og auka ánægjuna við lestur, en þær einar og sér eru ekki nægilega góðar til að æfa lestrarfimi og textalæsi þar sem mikill hluti lesturs á myndasögum krefst myndlæsis, fremur en textalæsis. „Annað viðhorfið sem hindrar fyrir myndasögum oft er þetta að myndasögur séu ein gerð ritbóka…. fremur en sinn eiginn miðill,“sagði Atla Hrafney. Myndasögur séu þó á vissan hátt tilvalinn miðill fyrir fólk með lesblindu þar sem textinn er stuttur hverju sinni. Sigfús nefnir einnig að þessi rangfærsla um að myndasögur letji ímyndunarafl sé misskilningur þar sem að það er gagngert verið að ýta þér út í það að nota ímyndunaraflið til að fylla í eyður og ímynda þér hljóð og aðstæður. 

Útgáfa á Íslandi og stuðningur við nýja höfunda

Í lok þáttar var rætt um íslenskar myndasögur og útgáfu. Er rými fyrir nýja íslenska myndasagnahöfunda á íslenskum markaði? Atla Hrafney vildi nýta tækifærið og segja að bókasöfn á Íslandi séu mjög mikilvæg til að efla myndasögugerð á Íslandi. Sölumarkaðurinn á Íslandi  sé allt of lítill og bókabúðir oft með lítinn skilning á því hvernig flokka skuli myndasögurnar, til dæmis út frá því fyrir hvaða aldurshóp ákveðnar myndasögur ættu að vera. Þá sé það viðhorf, að allar myndasögur séu fyrir börn, enn frekar viðloðandi við miðilinn. Það sé ekki raunin þar sem margar séu mjög grófar og sérstaklega skrifaðar fyrir eldri lesendur. Íslenskar útgáfur hafi litla reynslu í útgáfu á myndasögum og þori því síður að gefa nýjum höfundum tækifæri.

Margir grípi því til þess ráðs að gefa út sjálfir, en útgáfan sé ekki nægilega vel úr garði gerð svo erfitt reynist að koma henni í sölu eða inn á bókasöfn. Margir kjósa einnig að gefa út skáldverk á ensku því innlendur markaður sé of lítill og því meiri möguleikar fyrir upprennandi höfunda og teiknara sé gefið er út á ensku. Í því felst miklu minni áhætta. Á sama tíma verður þar með til ákveðinn vítahringur því að myndasögusamfélagið hefur fengið það orð á sér að vilja aldrei gefa út á íslensku, að höfundar séu að gefa allt of mikið út á ensku. Atla Hrafney sagði að markaðurinn sé mögulega of lokaður fyrir öðruvísi sögum og öðruvísi formum af útgáfu. Allir séu allt of fastir í því sem er vinsælast. Það sé auðveldara að selja Watchmen heldur en eitthvað sem kaupendur þekkja ekki. Það þurfi að veita nýjum höfundum og teiknurum sem vilja sérhæfa sig í miðlinum einhvers konar stuðning. 

 

Þessi fimmti þáttur Bókamerkisins er sá síðasti í bili en verkefnið er samstarfsverkefni Lestrarklefans við bókasafnið í Garðabæ. Allir þættirnir eru væntanlegir sem hlaðvarp á næstu dögum. Óskandi hefði verið að geta fjallað um alla bókmenntaflokkana og taka upp fleiri umræðuefni tengd bókmenntum. En það verður að bíða betri tíma að sinni.  

Við þökkum öllum viðmælendum kærlega fyrir að vera með okkur í spjallinu um bækur og ánægjuna við lestur. Þar til næst – verið þið sæl.

Lestu þetta næst

Eins konar dans

Eins konar dans

Moldin heit er önnur skáldsaga Birgittu Bjargar Guðmarsdóttur en fyrir hana hlaut hún...