Möndulhalli og allt á skjön

Í síðustu viku kom út bókin Möndulhalli sem Una útgáfuhús gefur út. Bókin er samansafn sagna ritlistarnema við Háskóla Íslands, ritstýrðum af nemum í ritstjórn og útgáfu við sama skóla. Síðasta vor kom út bókin Það er alltaf eitthvað hjá Unu útgáfuhúsi þar sem ritlistarnemar og ritstjórnarnemar leiddu saman hesta sína. Útgáfan gefur nýjum höfundum tækifæri til að láta rödd sína heyrast og nýjum ritstjórum tækifæri til að sækja sér reynslu í skemmtilegt verkefni.

Höfundar bókarinnar að þessu sinni eru Auður Stefánsdóttir, Dominique Gyða Sigrúnardóttir, Haukur Hólmsteinsson, Marinella Arnórsdóttir, Ólöf Sverrisdóttir, Rebekka Sif Stefánsdóttir, Sigríður Helga Jónasdóttir, Stefán Ágústsson, Tómas Ævar Ólafsson og Örvar Smárason. Um ritstjórn sáu Einar Kári Jóhannsson, Fanney Benjamínsdóttir, Hólmfríður María Bjarnardóttir, Sahara Rós Ívarsdóttir, Sóley Frostadóttir, Þóra Sif Guðmundsdóttir og Sigþrúður Gunnarsdóttir.

Möndulhalli er undirstaða lífs á jörðinni eins og við þekkjum það en hver eru áhrif skekkjunnar á hversdaginn?

Allt virðist aðeins á skjön.

Lestrarklefinn sendi nokkrar spurningar á hópinn og forvitnaðist um sköpunarferli bókarinnar.

Hvaðan kom hugmyndin að nafninu Möndulhalli?

Í upphafi kom fram sú hugmynd að sögurnar ættu allar að vera dálítið á skjön. Lesendur áttu að finna fyrir smá halla eða skekkju í frásögninni eða sögunni. Eitthvað sem er ekki alveg „eðlilegt“ eins og ef að möndull jarðar færi að hallast of mikið eða of lítið… Hópurinn var í fyrstu ekki allur ánægður með nafnið, og komu upp hressandi deilur varðandi það, en í lýðræðislegum kosningum varð Möndulhalli fyrir valinu og erum við nú öll sammála því að þetta sé bæði grípandi og skemmtilegt nafn á smásagnasafni. 

Hverju má búast við af sögunum? Spennu? Dramatík? Kómedíu?

Í þessum sögum er spilað á allan tilfinningaskalann, sumar eru hugljúfar meðan aðrar eru kaldhæðnislegar eða drungalegar. Sumir höfundarnir skrifuðu eina langa smásögu en aðrir eiga nokkrar styttri sögur í safninu. Það sem sögurnar eiga allar sameiginlegt er að þær eiga að vekja einhversslags furðu lesandans, hvort sem það er raunverulega eitthvað í umhverfi persónanna eða í hugarheimi þeirra sem er óvenjulegt, sem brýtur reglur raunveruleikans.

Hér má sjá höfunda og ritstjóra Möndulhalla. Eva Schram tók myndina.

Hvað er í bókinni og hversu margir höfundar standa á bak við innihaldið?

Möndulhalli samanstendur af smásögum eftir tíu upprennandi höfunda sem skrifa mislangar og mismargar sögur. Eins og áður sagði er ekki allt með feldu og margt undarlegt sem gerist í þessum fjölbreyttu sögum. Svo var þessi fallega hönnun bókarinnar í höndum Elínar Eddu Þorsteinsdóttur og umbrotið í umsjá Þórhildar Sverrisdóttur. 

Er eitthvað sambærilegt með sögunum eða standa þær allar stakar?

Sögurnar eru mjög ólíkar að innihaldi og stíl. Það eina sem sameinar þær er þessi óraunveruleika tenging eða þessi skekkja. Höfundarnir hafa ólíka sýn á skrif og skáldskap en það eina sem við getum lofað ykkur er að sögurnar eru flestar undarlegar og allar áhugaverðar.

Hvernig var hópurinn sem stendur á bak við bókina settur saman?

Að baki Möndulhalla eru sjö ritstjórar og tíu höfundar. Þau eru öll í meistaranámi í Háskóla Íslands, ritstjórarnir í hagnýtri ritstjórn og útgáfu en höfundarnir í ritlist. Við erum á ýmsum aldri og með ólíkan bakgrunn; í hópnum er meðal annars dansari, söngkona, leikkona, útvarpsmaður, bóksali, þýðandi, bókmenntafræðingur, tónlistarmaður og kennari. Öll erum við þó upprennandi rithöfundar og ritstjórar. 

Hvernig var samstarfið milli höfunda og ritstjóra?

Höfundarnir sáu um að skrifa og ritstjórarnir um að leiðrétta og leggja til breytingar. Stundum þurftu höfundarnir að berjast hetjulega fyrir textunum sínum, dýrmætum setningum sem þeim þóttu vænt um, sem ritstjórarnir sáu að myndu ekki virka í stóra samhengi sögunnar. Á endanum var alltaf fundin farsæl lausn, enda alltaf hægt að mætast á miðri leið. Upp komu allskonar umræður um lengd smásagna og örsagna, hvað hentaði í þetta tiltekna smásagnasafn og meira að segja hvort nútíð eða þátíð væri sterkari í skáldskap. 

Síðan hélt allur hópurinn utan um aðrar hliðar ferlisins, við skiptum okkur í hópa, markaðs-, hönnunar- og styrkjahóp. Allir höfðu svo lýðræðislegan atkvæðisétt og gátu haft áhrif á allar hliðar útgáfunnar og komið með uppástungur.

Hverjir standa á bak við Unu útgáfuhús?

Una útgáfuhús var stofnað árið 2018 af Einari Kára Jóhannssyni, Styrmi Dýrfjörð, Kristínu Maríu Kristinsdóttur og Jóhannesi Helgasyni. Þau unnu öll saman í bókabúð í miðbænum og eru með bakgrunn í hugvísindum: bókmenntafræði, ritlist, heimspeki og íslensku. Hugmyndin var að stofna bókaútgáfu sem væri í sterkri samræðu við ungt fólk og gæfi út verk nýrra höfunda. 

Þetta er í annað sinn sem Una útgáfuhús gefur út bók eftir ritlistarnema, fyrri bókin Það er alltaf eitthvað kom út síðasta vor. Má búast við að Una útgáfuhús haldi áfram á þessari leið?

Það er alltaf eitthvað gekk mjög vel og var skemmtilegt ferli. Bæði þau sem standa að forlaginu og nemendur í ritlist sýndu áhuga á að endurtaka ferlið og úr varð þessi nýja bók, sem er mjög vel heppnuð að okkar mati. Hins vegar höfum við ekki rætt framhaldið, en það er aldrei að vita. 

Er fleira væntanlegt frá Unu útgáfuhúsi á næstunni?

Út er að koma fyrsta þýðingin frá Unu útgafuhúsi. Það er meistaraverkið Beðið eftir barbörunum eftir Nóbelskáldið J. M. Coetzee frá Suður-Afríku. Þýðendur eru Sigurlína Davíðsdóttir og Rúnar Helgi Vignisson. Þetta er eitt helsta skáldverk um eftirlendutímann í Afríku og vandað var til verka í hönnun, þýðingu og með ítarlegum eftirmála.

Þessi bók er sú fyrsta í nýrri seríu sem kallast Sígild samtímaverk. Ætlunin er að gefa út tvö klassísk verk á ári, en samt ekki grundvallar klassík sem allir þekkja heldur miklu frekar merkilega höfunda og bækur sem kannski ekki allir hafa lesið. Hvert verk á brýnt erindi við samtíma okkar og þeim fylgir ávalt eftirmáli um höfundinn, verkið og hvað það segir okkur í dag. 

Lestu þetta næst

Eins konar dans

Eins konar dans

Moldin heit er önnur skáldsaga Birgittu Bjargar Guðmarsdóttur en fyrir hana hlaut hún...