„Það er alltaf eitthvað“

Tólf höfundar tylla sér á skáldabekk með
fjölbreyttu safni smásagna þar sem andi
Rimbauds og Guðrúnar frá Lundi svífur
yfir vötnum innan um gargandi máva,
konuna sem átti fjörutíu og sjö systkini,
sendiherrafrúna, pervertinn í lestinni
og þokkadísina Nansí. Auk þess koma við
sögu ungbörn, aldraðir, ástfangnir,
andlitslausir, sorgmæddir og sviknir.
Það er alltaf eitthvað.

Von er á bókinni Það er alltaf eitthvað í lok mánaðar frá Unu útgáfuhúsi. Höfundar bókarinnar eru tólf og ritstjórar fimm, en bókin er samvinnuverkefni ritlistar- og ritstjórnarnema við Háskóla Íslands. Stofnuð hefur verið síða á Facebook þar sem hægt er að lesa stutta búta eftir höfundana og fylgjast með útgáfunni. Við hjá Lestrarklefanum fengum að forvitnast enn frekar um útgáfu og efni bókarinnar.

 

Hvernig var ferlinu að gerð Það er alltaf eitthvað háttað?

Útgáfuferlið er hluti af námskeiðinu Á þrykk sem er kennt í HÍ undir leiðsögn Sigþrúðar Silju Gunnarsdóttur. Námskeiðið er opið meistaranemum í ritlist og hagnýtri ritstjórn og útgáfu og gengur út á samstarf þessara tveggja hópa. Í upphafi vormisseris fékk hver ritlistarnemi úthlutað ritstjóra úr hópi ritstjórnarnemanna sem hann var í samskiptum við allt misserið. Ákveðið var að hver og einn höfundur myndi skila að hámarki 5.000 orðum af lausamálstexta. Hópurinn hittist síðan einu sinni í viku alla önnina, þrjá tíma í senn, enda að mörgu að huga við svona útgáfu, frá því að velja pappírsþykkt upp í að finna stað fyrir útgáfuhófið og allt þar á milli. Við vorum svo heppin að nýtt bókaforlag, Una útgáfuhús, sýndi verkefninu áhuga; enda er meðlimur hennar tengdur ritlist og þessu verkefni. Þau voru ánægð með efni bókarinnar og fannst full ástæða til þess að standa vel að útgáfunni og að dreifa henni sem víðast. Enda er ekkert því til fyrirstöðu. Um er að ræða grasrót í íslenskum bókmenntum sem fólk ætti að hafa gaman af að kynna sér.

 

Er einhver rauður þráður meðal sagnanna?

Upphaflega unnum við út frá útgangspunktinum „bönd.“ Við vildum hafa hann opinn og notuðum hann aðeins til að koma okkur af stað, enda geta „bönd“ verið af ýmsu tagi; sambönd, fjölskyldubönd, hlekkir, þræðir, og svo framvegis. Sögurnar í bókinni eru því mjög ólíkar, þótt það finnist vissulega samhljómur í einhverjum þeirra.

 

Hvaðan spratt nafn bókarinnar, Það er alltaf eitthvað?

Heiti bókarinnar er vísun í ömmu einnar í hópnum (ömmu á Mikló) sem sagði oft þessa setningu sem virkar svo einföld en segir og þýðir samt svo margt. Amman notaði þetta gjarna þegar mikið mæddi á henni en það er líka hægt að túlka þetta á annan hátt. Þannig erum við til dæmis alltaf að takast á við eitthvað í lífinu, óteljandi verkefni sem við stöndum frammi fyrir – bæði gleðileg og erfið og það kallast á við efni bókarinnar þar sem söguhetjurnar eru allar að takast á við eitthvað í sínu lífi. Það er alltaf eitthvað og kannski sem betur fer.

 

Hvernig gekk samstarfið á milli ritlistarnemanna og ritstjórnarnemanna?

Samstarfið milli ritlistarnema og ritstjórnarnema gekk mjög vel. Það var fræðandi reynsla að fá að vinna náið saman að því sem er okkur öllum svo mikilvægt, það er bókaútgáfu.

 

Verður ekki einhver fögnuður tengdur útgáfunni?

Það verður útgáfuhóf í Mengi þann 29. maí kl. 20:00 og við vonumst til að sjá sem flest andlit þar. Bókina er hægt að kaupa í forsölu þangað til og eftir það verður hún fáanleg í öllum betri bókabúðum.

 

Höfundar bókarinnar eru Anna Björg Siggeirsdóttir, Einar Kári Jóhannsson, Freyja Auðunsdóttir, Gunnhildur Jónatansdóttir, Jóna Kristjana Hólmgeirsdóttir, Karítas Hrundar Pálsdóttir, Katrín Vinther, Kristófer Páll Viðarsson, Rut Guðnadóttir, Sólveig Johnsen, Sólveig Eir Stewart og Stefanía dóttir Páls.

Ritstjórar bókarinnar eru Arna Guðríður S. Sigurðardóttir, Kolbrún M. Hrafnsdóttir, Kristín Arna Jónsdóttir, Sunneva Kristín Sigurðardóttir og Tryggvi Steinn Sturluson

Lestu þetta næst

Aðferðir til að lifa af

Aðferðir til að lifa af

Gáfaða dýrið er fimmta bók Sæunnar Kjartansdóttur en bókin kom út núna á vormánuðum 2024. Sæunn er...

Verur sem þjást

Verur sem þjást

Dani er venjuleg kona. Hún er komin níu mánuði á leið með dóttur sína Lotte, hún var að flytja...

Aldingarðurinn okkar

Aldingarðurinn okkar

Aldingarðurinn okkar Eden í Tjarnarbíó.  Í Tjarnarbíó hefur salnum verið breytt í náið rými....

Falskur léttleiki

Falskur léttleiki

Eyja er ung kona sem vinnur á fréttamiðli. Hún hefur verið í sambandi síðustu átta árin og býr...

Refarím og kanínukvæði

Refarím og kanínukvæði

Barnabækurnar Sokkarnir hans Rebba og Kanínan vill kúra eru nýlega komnar út í íslenskri þýðingu. Um er að ræða harðspjalda bækur með flipamyndum eftir breska höfundinn Julia Donaldson og hinn þýska myndhöfund Axel Scheffler.