Geimverur í Mývatnssveitinni

Hjalti Halldórsson hefur áður sent frá sér þrjár bækur fyrir lesendur á aldrinum 9-12 ára,  bækurnar Af hverju ég?, Draumurinn og Ys og þys út af öllu. Nú skrifar hann fyrir yngri lesendur, eða 6-9 ára og fellur bókin því inn í Ljósaseríu Bókabeitunnar. Eins og með aðrar bækur úr Ljósaseríunni þá fengu áskrifendur úr klúbbnum fyrstir að berja bókina augum.

Í Grænu geimverunni fylgist lesandin með Dísu sem fer í Mývatnssveitina til ömmu og afa. Hún er heilluð af geimverum og sjálfri fannst mér byrjun bókarinnar og einræða Dísu við erlendan ferðamann alveg sérstaklega fyndin. Dísa gengur með álhatt á hausnum, sannfærð um að þannig geti hún komið í veg fyrir hugsanastjórnun geimvera. Þegar hún sér svo undarlega græna veru á ferð í Mývantssveitinni getur hún ekki hamið forvitnina og fer að leita að geimverunni. Hún fær í lið með sér sveitastrákinn Dreng. Þau verða vitni að kýr að bera á methraða, bjarga þrastarunga, hætta sér út í niðadimma þoku og upplifa fleiri ævintýri í leitinni að geimverunni. Bókin endar þannig að lesandinn býst við framhaldi af sögunni um Dísu og Dreng. Myndhöfundur bókarinnar er Auður Ýr. Myndirnar eru hlýlegar. Ég tók eftir því að afinn og amman í sögunni eru teiknuð sem nútímalegt fólk, þó í eldra lagi. Það er skemmtilegt að sjá eldri kynslóðina endurspeglast á þann hátt í barnabók. Það eru ekki allar ömmur og afar alltaf í ullarpeysum.

Það er svolítil klisja að senda persónu sem er borgarbarn út í sveit til að uppgötva sveitarómatíkina. Fyrir vikið finnst mér bókin miðuð að borgarbörnum. Þó gætu sumir sveitakrakkar kannski hlegið að fávísi Dísu um öll málefni sem viðkoma sveitalífinu.  Með bókinni er þó greinilegt að kennarinn í Hjalta fær að ráða för og vill fræða krakkana um rúgbrauðsbakstur við jarðhita, dimma þoku, mýflugnasverminn við Mývatn og margt annað.

En í grunninn fjallar bókin um leitina að geimverunni en reyndar kemur í ljós að geimveran er alls ekki geimvera, heldur lamb sem flæktist í græna regnkápu. Álitsgjafa Lestrarklefans féll bókin ekki nægilega vel. Honum fannst hún ekki grípandi í fyrstu en var þó til í að gefa henni annann séns. Hún náði ekki athygli hans fyrr en liðið var vel inn í bókina og fjör farið að færast í leikinn. Spennan var þó of oft rofin með fróðleik og rauf þannig áhugann hjá ungum lesanda.

Bókin er þó uppfull af skemmtilegum fróðleik og húmor og lipurlega skrifuð. Ég vonast eftir að heyra um ævintýrið úti á vatninu með Jónsa frænda sem skaut hanann í Miðhúsi í misgripum við rjúpu. Ég held að Jónsi sjái illa.

Lestu þetta næst

Að syrgja er að elska

Að syrgja er að elska

Daníel Daníelsson er menntaður í sagnfræði og ritlist og hefur nú gefið út sitt annað skáldverk,...

Eins konar dans

Eins konar dans

Moldin heit er önnur skáldsaga Birgittu Bjargar Guðmarsdóttur en fyrir hana hlaut hún...