Draumurinn – Fótboltabók fyrir alla krakka

Fyrir nokkrum mánuðum vissi ég ekkert um fótbolta. Ekki neitt! Og ég er ekki einu sinni að ýkja þegar ég lýsi þessari vankunnáttu minni. Svo kom HM í knattspyrnu og nýtt áhugamál skaut niður rótum hjá þeim sex ára sem núna æfir fótbolta þrisvar í viku. Allt snýst um fótbolta, leikmenn, boltaspörk með rist eða innanfótar, háar spyrnur og ég veit ekki hvað. Og það er víst hægt að ræða þetta endalaust. Ég veit óteljandi hluti um fótbolta núna og er farin að lesa fótboltabækur, eitthvað sem ég hélt að myndi aldrei gerast.

Til þess að hvetja til lesturs höfum við upp á síðkastið reynt að finna bækur um fótbolta. Það er til nóg af þeim! Bækur Gunnars Helgasonar hafa að sjálfsögðu verið geysivinsælar, en þær eru kannski aðeins of þróaðar fyrir lestrarkunnáttu sex ára gutta sem er nýbyrjaður að leysa dulmálið og stíga inn í leyndardóma lestursins. Við reyndum því við bók Hjalta Halldórssonar, Draumurinn, sem kom skemmtilega á óvart. Hún var reyndar of þung fyrir hann líka, svona enn sem komið er. Við lásum hana bara saman í staðinn. Hjalti hefur áður gefið út bókina Af hverju ég? sem vakti mikla athygli í fyrra.

Sagan er sögð í fyrstu persónu. Leikmaðurinn verður fyrir því að fá sex vikna leikbann frá æfingum og missir þar af leiðandi af Íslandsmótinu. Þetta er hörmung! En þá er krakkinn sendur á Hvammstanga til frænku, sem ber vitið í hann, kennir honum allt um fótboltaanda, liðsheild og hugrekki. Krakkinn snýr fílelfdur til baka til Reykjavíkur, tilbúinn að sigra Íslandsmótið með liðinu sínu. En þá ríður áfallið yfir og hinn ungi leikmaður þarf að takast á við alls kyns mótlæti og áföll og sjálfan sig. Boðskapurinn með bókinni er sá að það sé ómögulegt að vera óttalaus, hugrekki er ekki til án hræðslu.

En! Það er skemmtilegt tvist í bókinni sem kom mér svo ótrúlega skemmtilega á óvart. Ef þú vilt ekki vita meira, þá skaltu ekki lesa lengra.

Flestar bækur eru sagðar frá sjónarhorni karlpersónu. Einhvern tíman heyrði ég því fleygt fram að það væri vegna þess að strákar vilja lesa um aðra stráka en stelpur eru til í að lesa um örlög stráka jafnt og stelpna. Nú veit ég ekki hvert hlutfallið er í barnabókum í dag, en mín væga tilfinning er sú að það séu einhverjar breytingar á þessu.

Þar sem sagan er sögð í fyrstu persónu veit maður lítið um persónuna til að byrja með. Ég seldi bókina til foreldra fótboltastelpu um daginn og lýsti því yfir að þessi bók væri um fótboltastrák sem er settur í leikbann. Þau voru að leita að bók sem gæti vakið lestraráhuga hjá stelpunni en hún er ötul áhugakona um fótbolta. Þega ég seldi þeim bókina var ég sko bara nýbyrjuð á henni og ég er fegin að ég seldi þeim hana, því bókin er ekki um strák.

Þegar maður er hálfnaður með bókina kemur í ljós að aðalpersónan er algjör hetja í fótbolta, er stelpa og spilar með eldri strákum í liði stóra bróður síns. Þetta kom mér svo stórkostlega á óvart! Bókin fer allt í einu að snúast um margt annað en fótbolta, þó hann sé auðvitað aðalatriðið. Hún fer að snúast um fyrirmyndir (sem er nóg af í kvennaboltanum sem og karlaboltanum), fordóma, væntingar, ótta, hræðslu og sjálfstraust.

Fótboltalýsingarnar í bókinni eru spennandi. Stíll Hjalta er auðveldur og skemmtilegur og leikandi lipur. Ég mæli hiklaust með bókinni fyrir alla krakka, stráka og stelpur. Því þegar upp er staðið þá á ekki að skipta máli hvort maður er strákur eða stelpa.

Lestu þetta næst

Geturðu elskað mig núna?

Geturðu elskað mig núna?

Þegar Hvítfeld, fyrsta skáldsaga Kristínar Eiríksdóttur, var sett fyrir í bókmenntafræðiáfanga sem...

Ögrandi smásagnasafn

Ögrandi smásagnasafn

Bókmenntir Suður-Ameríku hafa alltaf heillað mig. Smásögur eru töluvert virðingaverðara...