Fyrir stuttu kom út bókin Sumar í París eftir Söruh Morgan. Bókin flokkast sem rómantísk skáldsaga og stendur vel fyrir sínu sem slík. Sarah Morgan er mjög afkastamikill höfundur og hefur sent frá sér um áttatíu bækur síðan hún byrjaði að skrifa árið 2001. Hún skrifar rómantískar ástarsögur sem hafa verið gefnar út í mismunandi seríum og þrjár af þeim bókum hafa verið þýddar yfir á íslensku; Undur jólanna (2013), Nýársósk Ítalans (2011) og Þegar á reynir (2012). Þá kom líka út bókin Jólasysturnar fyrir síðustu jól sem er ein af nokkrum skáldsögum Morgan sem ekki tilheyra seríu. Sama má segja um Sumar í París. Þær tvær síðastnefndu eru frístandandi skáldsögur.
Saga tveggja kvenna tvinnast saman
Í bókinni Sumar í París fylgist lesandinn með Grace Porter, nær fimmtugri bandarískri konu, sem í byrjun bókarinnar á tuttugu og fimm ára brúðkaupsafmæli. Á veitingastaðnum þar sem þau eru að fagna tilkynnir eiginmaður hennar að hann vilji skilnað, hann haldi við aðra konu. Grace er hryggbrotin, en ákveður engu að síður að nýta miðana í rómantísku ferðina til Parísar sem hún hafði planað fyrir sig og eiginmanninn í tilefni af brúðkaupsafmælinu. Svo er hoppað yfir hafið og lesandinn kynnist hinni átján ára Audrey sem býr með drykkfelldri móður sinni í London. Audrey þráir ekkert heitar en að komast í burtu frá mömmu sinni, búa ein einhvers staðar, upplifa frelsi og vera laus undan ábyrgðinni sem fylgir því að búa með móður sem glímir við áfengisfíkn.
Grace og Audrey eru því á sama tíma í París og leiðir þeirra liggja saman. Líf þeirra tengist í gegnum fjörgamla bókabúð sem Audrey hefur ráðið sig í sumarstarf í, gegn því að fá að búa í íbúð fyrir ofan búðina. Inn í sögu bókabúðarinnar fléttast líka saga Mímíar, níræðrar ömmu Grace sem er fædd og uppalin í París en flutti til Bandaríkjana ung að árum. Grace og Audrey stuðla að breytingum og þroska hjá hvorri annarri. Grace slípar vankanta af Audrey og Audrey ýtir Grace út fyrir þægindahringinn og hvetur hana til dáða í stefnumótasenunni í París.
Átakalaus lestur
Morgan hefur mikla reynslu af skrifum og það sést vel á persónusköpuninni. Persónurnar eru ögn klisjulegar en mjög heilsteyptar. Hún leggur mikla vinnu í að útskýra tilfinningalíf persónanna sem gerir gjörðir þeirra meira sannfærandi. Sagan er sögð í fyrstu persónu frá þeirri persónu sem er í brennipunkti hverju sinni. Þannig fær lesandinn að heyra allar hugsanir hverrar persónu fyrir sig, sem var stundum aðeins of mikið af því góða fyrir minn smekk. Fyrir vikið er lesturinn átakalaus og prýðilegur þegar slaka á vel á bæði líkama og huga. Bókina er hægt að lesa í fullkominni leti, hún krefst ósköp lítils af lesandanum.
Morgan tókst þó að gera mig tilfinningalega bundna persónunum. Hún hreif mig með til Parísar, sem í bókinni er dregin upp sem töfraborg rómantíkur og franskra elskhuga. Ímynd Parísar er virkilega sýnd í rósrauðum bjarma í bókinni, enda rómantísk skáldsaga út í gegn. Elskhugarnir sýna endalausan skilning á öllu sem kvenpersónurnar óska, óttast eða gerðu í fortíðinni. Þeim er fyrirgefið allt. Þeir eru svo skilningsríkir og góðir og frábærir að ég óttast að konur sem seinna eignast franskan elskhuga eigi eftir að verða fyrir vonbrigðum með hann þegar þær bera hann saman við Philippe og Etienne. Það eiga allir og amma þeirra franskan elskhuga í þessari bók.
Harmræna fortíðin og eftirsjáin
Mér hefði nægt að lesa bókina sem þroskasögu kvennanna tveggja, Grace og Audrey. Morgan ákveður þó að bæta við óræðri fortíð Grace til að útskýra hennar persónuleika. Mér fannst hún bera sig klaufalega að því að útskýra harmræna fortíð hennar og hún hefði mátt koma fram mikið fyrr í bókinni. Það var lítil dulúð yfir fortíðinni og klúðurslegar vísbendingar á víð og dreif um bókina sem gerðu lítið fyrir söguþráðinn. Einnig hefði alveg mátt sleppa því að bæta við þankagangi Mímíar og byggja upp hina harmrænu sögu eftirsjárinnar í kringum hana. Hve margar konur þurfa að eiga slæma fortíð í einni bók? Það hefði fremur mátt eyða meira púðri í Grace og Audrey.
En heilt yfir var bókin prýðilegasta afþreying, ljúf lesning um ástir og örlög í París (sem ég vonast til að ferðast til einhvern daginn, en þó ekki til að næla mér í franskan elskhuga). Persónusköpun Morgan er prýðileg þótt mér þyki að hún hefði mátt slá örlítið niður í klisjunum og draga svolítið úr dramanu í kringum allar kvenpersónurnar. Fínasta sumarlesning.